Alls 225.930 kjósendur á kjörskrárstofnum
Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum þeim, sem Þjóðskrá lætur þeim í té. Á kjörskrárstofnum, sem hafa verið unnir vegna kosninganna í vor eru 225.930 kjósendur, 113.663 konur og 112.267 karlar.
Meðal þeirra sem eru á kjörskrárstofnum fyrir kosningarnar í maí eru 2.070 einstaklingar með lögheimili annars staðar á Norðurlöndum (fyrst og fremst námsmenn). Ríkisborgarar annarra ríkja á Norðurlöndum búsettir hér og með kosningarrétt eru 1.050 og borgarar annarra ríkja 3.525.
18.772 kjósa í fyrsta sinn
Kjósendur á kjörskrárstofni eru 9.767 fleiri nú en á kjörskrá í síðustu sveitarstjórnarkosningum eða sem svarar 4,5%. Þeir kjósendur sem nú fá að kjósa í fyrsta sinn til sveitarstjórnar sökum aldurs eru 18.772. Það eru 8,3% af heildarkjósendatölunni.
Hér á vefnum er hægt að skoða hve margir kjósendur eru á kjörskrárstofni í hverju sveitarfélagi á yfirlitssíðum sveitarfélaganna.
Sjá nánar á vef Hagstofunnar.