Kjörskrá opin á vefnum
Kjósendur geta nú kannað hvar þeir eru á kjörskrá í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí næstkomandi hér á vefnum. Með því að slá inn kennitölu kjósanda kemur upp nafn hans, lögheimili og sveitarfélag. Reykvíkingar og íbúar nokkurra stærstu sveitarfélaganna fá einnig upplýsingar um kjörstaði og kjördeildir.
Þjóðskrá sér um gerð kjörskrárstofna samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 með síðari breytingum. Á kjörskrá eiga að vera allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 8. maí 2010 og fæddir eru 29. maí 1992 og fyrr.
Á kjörskrá skulu vera þeir danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt á Íslandi í þrjú ár samfellt frá 29. maí 2007 enda séu þeir fæddir 29. maí 1992 og fyrr. Ennfremur skulu vera á kjörskrá aðrir erlendir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt á Íslandi í fimm ár samfellt frá 29. maí 2005 enda séu þeir fæddir 29. maí 1992 og fyrr. Þessir erlendu ríkisborgarar eiga að vera á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir voru með skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 8. maí 2010.
Þá eiga kosningarrétt þeir íslenskir ríkisborgarar, fæddir 29. maí 1992 og fyrr, sem flutt hafa lögheimili sitt frá Íslandi til hinna Norðurlandanna samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, enda eigi ákvæði 9. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 við um hagi þeirra (fyrst og fremst námsmenn).