Hoppa yfir valmynd
10. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Innflytjendur og geðheilbrigði

Guðlaugur Þór Þórðarson

Innflytjendur og geðheilbrigði

Þverfagleg ráðstefna í Ráðhúsi Reykjavíkur

í tilefni Alþjóðageðheilbrigðisdagsins

miðvikudaginn 10. október 2007

 

Sælir, ágætu gestir og skipuleggjendur þessarar ráðstefnu og til hamingju með daginn - Alþjóðageðheilbrigðisdaginn sem að þessu sinni er tileinkaður geðheilbrigði í veröld fjölmenningar og margbreytileika.

Það fer ekki á milli mála að hugtökin fjölmenning og margbreytileiki eru orðin að raunveruleika í íslensku samfélagi. Það er ekki lengur samnefnari okkar Íslendinga að eiga ættir að rekja til austfirskra heiða, í norðlenskan dal eða til sunnlenskra höfuðbóla. Heimurinn er allur undir og rætur nýrra Íslendinga geta legið víða.

Breytingar á íslensku samfélagi að þessu leyti hafa verið örar eins og marka má af tölum Hagstofunnar um hlutfall erlendra ríkisborgara hér á landi. Árið 1996 voru erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi 1,8 prósent af íbúafjölda en hlutfallið var komið í rúm 6 prósent í lok síðasta árs. Ef til viðbótar er skoðaður fjöldi þeirra sem fengið hafa íslenskt ríkisfang á liðnum árum má sjá að á árunum 2000-2006 voru þeir tæplega 3.700. Til marks um hvað þessi þróunin er hröð má geta þess að árið 2000 voru veitt tæplega 280 ný ríkisföng en árið 2006 voru þau næstum þrefalt fleiri, eða tæplega 850.

Nýir Íslendingar auka svo sannarlega á fjölbreytileikann í íslensku samfélagi og gefa okkur sem erum hér fædd og uppalin tækifæri til að auka víðsýni okkar og fá innsýn í framandi menningu. Eftir því sem fram líða stundir víkur heimóttarskapur okkar fyrir heilbrigðri forvitni. Síðan tekur við löngun okkar til að kynnast því sem fólk af ólíkum menningarsvæðum hefur að bjóða okkur og jafnframt að kynna fyrir því það sem við metum mest í okkar samfélagi. Þannig ganga kynnin fyrir sig og að mínu mati hafa þau að mestu gengið vel í þeirri öru þróun sem áður er lýst.

Við þekkjum það flest að það er ekkert einfalt að skipta um umhverfi. Að flytja, takast á við nýtt starf, fara í nýjan skóla, kynnast nýju fólki, - allt eru þetta breytingar sem við flest höfum reynt og vitum að því fylgir nokkuð álag. Okkar nýju Íslendingar þurfa hins vegar margir hverjir að takast á við aðstæður sem eru framandi að flestu eða öllu leyti.  Fjölskyldur - börn og fullorðnir - koma hingað, jafnvel af gjörólíkum menningarsvæðum og þurfa að takast á við allar fyrrnefndar breytingar, aðlagast samfélagi gjörólíku því sem þeir þekkja best og ná tökum á tungumáli sem er þeim fullkomlega framandi. Því má heldur ekki gleyma að oft eru það mjög erfiðar aðstæður sem eru ástæða þess að fólk tekur sig upp og flytur hingað í von um möguleika til betra lífs. 

Nýir Íslendingar þurfa jafnan mikið að leggja á sig til að fóta sig í nýju heimalandi. Okkur sem tökum á móti þeim ber skylda til að leiða þá fyrstu skrefin, kenna þeim og hvetja þá áfram meðan þeir aðlagast samfélaginu og læra á það. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ákvað að geðheilbrigðisdagurinn í ár skyldi helgaður geðheilbrigði í veröld fjölmenningar og margbreytileika. Stofnunin hefur á síðustu árum bent á mikinn skort í þjónustu við geðsjúka í vanþróaðri löndum og vill nú leggja áherslu á bætta þjónustu geðsjúkra í fjölmenningu þróaðri landa. Áhersla er lögð á úrbætur fyrir minnihlutahópa, nýbúa, innflytjendur, flóttafólk og fleiri, en tölulegar upplýsingar frá öðrum löndum í Evrópu benda til þess að andleg vanlíðan, streitu- og álagsraskanir sé tíðara vandamál meðal innflytjenda en annarra.

Í byrjun þessa árs var kynnt stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda. Þar er fjallað um þá þætti samfélagsins sem helst varða hagi nýrra Íslendinga og hvernig best sé á málum haldið til að mæta þörfum þeirra og styðja sem best við aðlögun þeirra að samfélaginu. Ég vil einnig nefna að átak hefur verið gert til að efla tungumálakennslu fyrir útlendinga. Þá ber að geta sérstaklega þjónustu túlka sem tryggð er í lögum um réttindi sjúklinga og er mjög þýðingarmikil gagnvart innflytjendum sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, en útgjöld vegna túlkaþjónustu hafa vaxið verulega á undanförnum árum.

Frá því að ég settist í stól heilbrigðisráðherra hefur mér orðið tíðrætt um gildi forvarna og heilsueflingar. Heilsuefling er í allra þágu. Ég legg hins vegar áherslu á að forvörnum skuli ávallt beint að skilgreindum hópi þar sem markmiðin eru skýr og aðgerðir raunhæfar.

Ég tel að leggja beri enn meiri áherslu en gert hefur verið á forvarnir á sviði  geðheilbrigðis. Að mínu mati nægja ábendingar Alþjóðageðheilbrigðis­málastofnunarinnar til þess að segja okkur að við þurfum að vera sérstaklega vakandi fyrir aðstæðum innflytjenda. Þegar ég segi þetta á ég ekki síst við þá sem sinna grunnheilbrigðisþjónustu, þ.e. starfsfólk í heilsugæslu og eins á þetta við um starfsfólk skólakerfisins. Við þurfum að skilgreina markhópa, þróa leiðir til forvarna og grípa tímanlega inní þegar þess er þörf með viðeigandi stuðningi, meðferð og endurhæfingu.

Íslenskt heilbrigðiskerfi stendur frammi fyrir mikilli áskorun vegna örra breytinga á íslensku samfélagi með sívaxandi fjölda fólks af erlendu bergi brotnu. Til að mæta þessum breytingum er nauðsynlegt að allir sem að málum koma á einhvern hátt taki höndum saman, axli ábyrgð og sýni frumkvæði í því að þróa nýjar leiðir til að tryggja fjölbreytta og árangursríka geðheilbrigðisþjónustu við þá sem þurfa hennar með. Varðandi innflytjendur skiptir miklu að ná til þess hóps sem kann að vera veikur fyrir. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er meðvitað um þessa áskorun og ég lýsi fullum vilja til að takast á við hana.

Það gladdi mig þegar ég las yfir hverjir standa að þessari ráðstefnu hvað þeir aðilar eru margir sem vinna að geðheilbrigðismálum og koma þar að með breiða sýn á málaflokkinn.

Ég vonast eftir góðu og uppbyggilegu samstarfi þar sem við komum að því saman að þróa raunhæfar leiðir til að mæta þörfum nýrra Íslendinga fyrir geðheilbrigðisþjónustu.

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta