Hoppa yfir valmynd
3. júní 2007 Heilbrigðisráðuneytið

50 ára afmæli Hrafnistu í Reykjavík

Guðlaugur Þór Þórðarson

Í tilefni 50 ára afmælis Hrafnistu í Reykjavík
og að 30 ár eru liðin frá upphafi starfsemi Hrafnistu í Hafnarfirði

3. júní 2007

 

Kæru gestir - heimilismenn og aðstandendur, stjórnendur og annað starfsfólk hér á Hrafnistu.

Það er mér kærkomið að fá tækifæri til að heimsækja Hrafnistu á fyrstu dögum mínum sem heilbrigðisráðherra og taka þátt í ánægjulegum tímamótum.

Hrafnistuheimilin rekja ættir sínar til stéttarfélaga sjómanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Saman mynduðu þessi félög með sér Sjómannadagsráð sem stofnað var í nóvember 1937 og verður því sjötugt á árinu. Tveimur árum eftir stofnun Sjómannadagsráðs var tekin ákvörðun um að byggja dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn. Um aldur afmælisbarnanna, þ.e. Hrafnistuheimilanna þarf ekki að fjölyrða en mér finnst þau bera aldurinn vel.

Það að stéttarfélög sjómanna skyldu ráðast í byggingu heimilis fyrir aldraða segir mikið um styrk sjómannastéttarinnar á þessum tímum, enda sú stétt sem íslenskt samfélag átti ekki síst að þakka vaxandi velferð síðustu aldar.

Íslenskt samfélag hefur breyst mikið frá þeim tíma sem Sjómannadagsráð var stofnað. Það er löngu liðin tíð að Hrafnistuheimilin þjóni fyrst og fremst öldruðum sjómönnum. Nú má án efa hitta fyrir í hópi heimilismanna bæði bændur og presta, hjúkrunarfræðinga og smiði, sjúkraliða og verslunarfólk, þingmenn og tölvunarfræðinga og þannig mætti áfram telja fólk úr öllum hugsanlegum starfsstéttum samfélagsins.

Kröfur til heimila aldraðra hafa eðlilega breyst með vaxandi velferð í samfélaginu. Stjórnendur Hrafnistuheimilanna hafa lagt sig fram um að mæta nýjum kröfum og lagað heimilin að breyttum aðstæðum með margvíslegum endurbótum og uppbyggingu.

Eitt hefur þó örugglega ekki breyst en það er sá hlýhugur sem fólk ber í brjósti til Hrafnistuheimilanna, a.m.k. þeir sem á einhvern hátt komast í snertingu við þau, hvort sem er sem heimilismenn, aðstandendur eða starfsfólk. Ég er sannfærður um að svo mun áfram verða.

Ég veit ekki hvort þetta sé staður og stund til að ræða á alvarlegum nótum um málefni aldraðra. Eins og fram kemur í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er einhugur og sterkur vilji til að gera hátt undir höfði elstu og yngstu borgurum landsins hvað varðar aðbúnað og þjónustu. Ég tel að þetta fari vel saman og sé til marks um það verðmætamat í samfélaginu sem við viljum treysta og standa vörð um.

Kæru vinir til hamingju með daginn.

Talað orð gildir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta