Hoppa yfir valmynd
16. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Hver ræður hvað þú borðar? Þekking á matvælum, upplýsingar og val

Guðlaugur Þór Þórðarson

Hver ræður hvað þú borðar? Þekking á matvælum, upplýsingar og val

Árleg ráðstefna Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands

Grand Hótel í Reykjavík 16. október 2007

Góðir ráðstefnugestir.

Það er mér ánægja að fá að segja nokkur orð við setningu árlegrar ráðstefnu Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er í senn forvitnilegt og mikilvægt.

Við vitum öll að mataræði og matarvenjur hafa mikil áhrif á heilsufar okkar og í þeim efnum stöndum við frammi fyrir einu stærsta lýðheilsuverkefni samtímans. Það lýsir stærð vandans og alvarleika þegar þess eru dæmi að fólk lifi ekki foreldra sína heldur deyi langt um aldur fram vegna óheilbrigðs mataræðis. Þekkt dæmi eru um þetta í Bandaríkjunum.

Offita er alvarlegt og vaxandi heilsufarsvandamál á vesturlöndum sem tengist lífsháttum, ekki síst mataræði en einnig skorti á hreyfingu. Margvísleg heilsufarsvandamál vesturlandabúa eru nátengd hreyfingarleysi, offitu og óhollu fæðuvali og auðvitað reykingum. Nægir þar að nefna hjarta- og æðasjúkdóma og áunna sykursýki en þessir sjúkdómar eru langvinnir og alvarlegir. Beinþynningu má einnig telja í þessu samhengi, en afleiðingar hennar geta verið mjög alvarlegar og valdið mikilli þjáningu. Tannskemmdir, ekki síst glerungseyðing hefur líka bein tengsl við neysluvenjur og er svo sannarlega ástæða til að ræða sem raunverulegt heilsufarsvandamál hér á landi. Stöðugt er unnið að rannsóknum á áhrifum mismunandi fæðu og fæðutegunda á heilsu fólks og áhrifum þeirra til góðs eða ills og það er áhugavert að fylgjast með á þeim vettvangi.

Það getur verið snúið að vera neytandi og velja rétt. Neyslusamfélagið er flókið, framboðið mikið og framleiðendur matvæla iðnir við að halda vörum sínum að neytendum með listilegum auglýsingum og girnilegum tilboðum. Neytendur þurfa að vera vel upplýstir til að geta valið af skynsemi og axlað ábyrgð á eigin heilsu og velferð. Stjórnvöld þurfa að leggja sitt af mörkum með skýrri stefnu á þessu sviði. Þau þurfa að stuðla að rannsóknum á sviði matvæla- og næringarfræða, móta farveg fyrir upplýsingar til neytenda, setja framleiðendum leikreglur og sjá til þess að þeim sé fylgt. Það liggur í augum uppi að framleiðendur hafa allar upplýsingar í höndum um vörur sínar og því mikill munur á aðstöðu þeirra og neytenda þegar kemur að upplýsingum.

Ábyrgð framleiðenda og allra þeirra sem koma að meðhöndlun matvæla er mikil og brýnt að allir séu meðvitaðir um þá miklu hagsmuni sem eru í húfi. Hvernig er staðið að frumframleiðslunni og í hvaða umhverfi fer hún fram? Hvernig fer vinnslan fram og hvaða viðbótarefni eru notuð? Hvernig er staðið að flutningi matvæla, meðhöndlun þeirra og geymslu? Allt skiptir þetta miklu máli um öryggi og heilnæmi matvæla og áhrif þeirra á neytendur. Leið matvöru frá upphafspunkti þar til hún fer í munn og maga neytandans getur verið býsna löng. Allt ferlið þarf að vera öruggt og traust, m.a. þannig að tryggt sé að næringargildi haldist og ekki skapist hætta á matarsýkingum. Þetta er líka markaðsmál og framleiðendur hafa allan hag af því að standa vel að þessum málum vilji þeir halda virðingu sinni og trausti neytenda.

Ég veit að ekkert af því sem ég hef nefnt eru ný sannindi fyrir alla þá sérfræðinga sem hér eru staddir, enda aðrir mér fróðari sem munu kafa dýpra í þessi efni hér á eftir. Fyrst og fremst eru vangaveltur mínar ætlaðar til að varpa ljósi á hvað umhverfið er flókið og mikilvægi þess að vel sé að málum staðið á öllum stigum. Þetta segir okkur annars vegar að við þurfum ítarlegt og gott regluverk með virku eftirliti og í þeim efnum tel ég okkur standa nokkuð vel. Hins vegar segir þetta okkur að upplýsingar til neytenda þurfa að vera skýrar og hnitmiðaðar og snúast um það sem skiptir raunverulega máli þegar kemur að því að velja og hafna.

Yfirskrift ráðstefnunnar hér í dag felst í spurningunni: hver ræður hvað þú borðar? Ég spyr á móti: Getur heilbrigðisráðherra ráðið því hvað landsmenn borða? - Svarið er NEI, ráðherra getur ekki ráðið því, en hann hefur ýmsa möguleika til að hafa áhrif á það. Ég hef mikinn áhuga á að leggja mitt af mörkum í þeim efnum og beita þeim ráðum sem ég sé tiltæk og skynsamleg. Að mínu mati er skynsamlegast að beita forvörnum sem byggjast á fræðslu, upplýsingum og öðrum leiðum til að hafa áhrif á viðhorf fólks og hegðun í þessum efnum.  Forvarnir eru æskilegasta leiðin til að ná varanlegum árangri.

Árið 2004 samþykkti Alþjóðaheilbrigðisþingið áætlun fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um átak varðandi mataræði, hreyfingu og heilbrigða lífshætti. Í áætluninni er fjallað um hlutverk ríkisstjórna í þessu verkefni og lagðar línur um mögulegar aðgerðir. Ég ætla ekki að fara yfir efni áætlunarinnar í löngu máli hér en nefni hana sem mikilvæga fyrir íslensk stjórnvöld að styðjast við. Samkvæmt henni er lögð áhersla á að stjórnvöld móti pólitíska stefnu til að bæta mataræði, hreyfingu og heilsufar og bent er á að stjórnvöld gegni lykilhlutverki við að ná fram varanlegum breytingum á lífsstíl fólks. Að þessu vil ég vinna og vonast eftir góðri samvinnu við sem allra flesta sem lagt geta hönd á plóg, jafnt stofnanir og fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, enda komið að formanni dómnefndar að afhenda Fjöreggið, árleg verðlaun Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands fyrir lofsvert framtak á sviði matvæla.

Það er ánægjulegt að vera hér með ykkur. Megi ráðstefnan verða til gagns og ánægju.

Takk fyrir

(Talað orð gildir). 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta