Grund 85 ára
Ávarp
Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra,
á 85 ára afmælishátíð Grundar
29. október 2007
Ágætu gestir.
Ég óska afmælisbarninu til hamingju með daginn, til hamingju með merkan áfanga. Við erum hér að fagna merkum áfanga í sögu Grundar, en við erum líka að fagna tímamótunum sem urðu í umönnun aldraðra þegar Grund var sett á fót og þar fyrir erum við að fagna merkisdegi í lífi fjölskyldunnar sem hefur rekið Grund. En í dag hefði Gísli Sigurbjörnsson orði eitt hundrað ára.
Það er út af fyrir sig afar merkilegt að fjölskyldusaga einnar fjölskyldu í marga ættliði skuli vera jafn nátengd umönnun aldraðra og við höfum orðið svo ánægjulega vitni að.
Kannski skýringin á velgegni og þeirri virðingu sem Grund hefur notið áratugum saman felist í þeim orðum sem Guðrún Birna Gísladóttir hafði eftir föður sínum í samtali við Morgunblaðið um helgina. Þar greindi hún frá því að faðir hennar hefði kennt þeim systrunum að þær ættu að vera góðar við gamla fólkið. „Elliheimilið var hans hjartans mál, númer eitt, tvö, og þrjú. Maður heyrði frá upphafi að það var það sem skipti öllu máli. Pabbi mátti ekkert aumt sjá. Hann var ævinlega að rétta fólki hjálparhönd og þá gjarnan bak við tjöldin.“
Ég staldraði við þessi orð Guðrúnar Birnu um föður sinn þegar ég las Morgunblaðið um helgina og þau hafa verið mér ofarlega í huga síðan. Í orðunum liggja nefnilega sannindi og viska, sem okkur hættir stundum til að gleyma, eða gætum ekki að. Þessi skilaboð, sem miðlað hefur verið frá kynslóð til kynslóðar fjölskyldunnar á Grund eru kannski límið sem hefur gert þessa stofnun að því sem hún er.
Grund er elsta dvalar- og hjúkrunarheimili landsins. Það var stofnað árið 1922 fyrir samskotafé sem safnað var á nokkrum mánuðum meðal Reykvíkinga fyrir tilstuðlan sr. Sigurbjörns Ástvalds Gíslasonar, Páls Jónssonar, Haraldar Sigurðssonar, Flosa Sigurðssonar og Júlíusar Árnasonar. Þeir voru allir í fyrstu stjórn heimilisins.
Grund er sjálfseignarstofnun og í stofnskrá kemur fram að tilgangur stofnunarinnar sé að veita gamalmennum heimilisvist og góða umönnun með svo vægum kjörum, sem frekast er unnt, eða jafnvel ókeypis, þegar þess er kostur.
Árið 1922 var steinhúsið Grund, sem stóð þar sem nú er Kaplaskjólsvegur, keypt undir starfsemina. Þarna voru svefnstofur fyrir 23 vistmenn, setustofa, eldhús og svefnstofur fyrir starfsfólk. Með stofnun Grundar varð umtalsverð breyting til bóta á högum aldraðra sem þá áttu ekki í mörg hús að venda á þessum tímum þegar býsna margir bjuggu við hrakleg kjör og erfiðar aðstæður.
Þetta voru aðstæðurnar sem ríkjandi voru þegar Grund var stofnuð. Það sem vakti fyrir frumkvöðlunum var að bæta úr brýnni þörf og koma öldruðum til hjálpar, að taka að sér samfélagsleg verk sem vinna þurfti.
Sá eldmóður sem umfram annað einkennir fyrstu árin í sögu Grundar má vafalaust að einhverju leyti rekja til vaxandi frelsisþrár sem svall í brjósti þjóðarinnar eftir að hún hafði fengið fullveldi sitt og í því ljósi er saga Grundar líka íslensk nútímasaga.
Ágætu gestir.
Það voru einstaklingar sem tóku sig til í öndverðu og ákváðu að byggja upp dvalarheimilið Grund. Arfleifðin sem Grund hefur skilað okkur er að sumu leyti það að einkarekstur er mjög útbreiddur hér á landi þegar við horfum yfir þjónustuna við aldraða. Og bara sú staðreynd að þetta finnst Íslendingum sjálfsagt mál er góður vitnisburður um Grund og þau heimili sem rekin eru á sama grunni hér á landi.
Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja stöðu aldraðra á kjörtímabilinu sem nú er nýhafið. Við erum þegar byrjuð að vinna að einföldun almannatryggingakerfisins, en það hefur, eins og kerfum hættir til að gera, stækkað hratt og í ýmsar áttir og kannski hefur ekki alltaf tekist nógu vel að skipuleggja það sem skyldi.
Við þurfum að skoða sérstaklega samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar.
En varðandi málefni aldraðra þá hefur mér jafnan fundist óheppilegt að flokka fólk niður eftir aldri og skipa því þar með á tiltekna bása. Samfélag okkar byggist á öldruðum, ungmennum og þeim sem telja sig vera á besta aldri, en eins og margir vita sem eru hér inni þá er varasamt að ákvarða þennan besta aldur í árum.
Mér finnst til dæmis þegar ég kem hér á Grund, að Grund sé á besta aldri þótt hún sé háöldruð, en það er fyrst og fremst vegna hugarþelsins sem ég verð var við hér. Ánægjunnar meðal starfsfólksins og natninnar sem ég sé að hver og einn leggur í það sem þau eru að gera.
Það er nefnilega svo að virðingin fyrir viðfangsefnunum sem við kjósum okkur í lífinu á að vera tímalaus. Þetta sjáum við einmitt hér á Grund. Það felst í orðum Gísla Sigurbjörnssonar, að vera góður við gamla fólkið ? bæði þessi virðing fyrir viðfangsefninu, og það kristilega hugarfar sem barnatrú okkar byggist á.
Við lifum á hverjum tíma við mismundandi aðstæður, við erum ekki eins, og við spilum ekki öll á sama hátt úr því sem okkur er gefið. En við erum öll manneskjur með langanir og þrár sem við viljum að séu virtar.
Það er óvenjulegt að 85 ára gömul stofnun skuli ennþá byggja á þessum grunngildum í starfsemi sinni og halda þeim fram af sömu festunni og gert var í öndverðu.
Það er með verkefnin eins og grunngildin, þau breytast ekki. Þeir sem vilja vel vilja ávalt gera betur. Ég veit að nú sem fyrr hafið þið sem rekið Grund metnaðarfullar áætlanir á prjónunum um frekari uppbygginu starfseminnar. Ég vil segja að ég mun ekki liggja á liði mínu við að aðstoða ykkur við að tryggja þær aðstæður sem ykkur eru sköpuð við rekstur Grundar.
Ég óska Grund til hamingju, ég vil sem heilbrigðismálaráðherra þakka öllum sem hlut eiga að máli fyrir óeigingjarnt starf í þágu aldraðra og fjölskyldunni sem í sameiningu hefur verið gerandinn í sögu Grundar færi ég bestu þakkir.
(Talað orð gildir)