Fjölskyldu- og menningarhátíðir á vegum sveitarfélaga
Guðlaugur Þór Þórðarson
Fjölskyldu- og menningarhátíðir á vegum sveitarfélaga, ráðstefna haldin á Akranesi 18. október 2007 kl. 10:00
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
Ágætu sveitarstjórnarmenn, starfsmenn sveitarfélaga og aðrir ráðstefnugestir.
Spurning dagsins snýst um fjölskyldu- og menningarhátíðir og aðra viðburði á vegum sveitarfélaga víða um land, framkvæmd þeirra og tilgang. Og – eins og segir í ráðstefnuboði – um þann farveg sem velflestar þessar hátíðir virðast komnar í þar sem drykkjulæti, fíkniefnaneysla og ólæti ungmenna hafa sett á ljótan svip og jafnvel orðið til þess að þær hafa verið lagðar af.
Mér hnykkti við þegar ég las þessa kynningu á ráðstefnunni og hugsaði með mér: er þetta virkilega orðið svona slæmt? - Ykkur að segja tel ég ekki að svo sé. Vissulega verður höfðinu ekki stungið í sandinn og því neitað að mörg dæmi eru um hátíðahöld sem hafa farið úr böndunum eins og áður er lýst. En við þekkjum líka mörg dæmi um hátíðir sem eru til sóma og prýði, gestum til ánægju og sveitarfélögum lyftistöng og tækifæri til kynna sig og sýna á sér skemmtilegar hliðar.
Þegar talað er um fjölskyldu- og menningarhátíðir lít ég svo á að um sé að ræða hátíðir þar sem fjölskyldur geta skemmt sér saman og þar sem fram fer eitthvað sem er uppbyggilegt og skemmtilegt - ekki eitthvað sem rífur fólk niður og er því til tjóns. Hér hlýtur að skipta máli hvernig hátíðir eru undirbúnar, hvaða umgjörð þeim er valin, hvers konar dagskrá er í boði og hvernig þær eru markaðssettar. Ég tel að bæjaryfirvöld þurfi alltaf að vera leiðandi við undirbúning og skipulagningu bæjarhátíða og hafa skýra mynd af því hvernig bragur hátíðahaldanna á að vera.
Fram undir þetta hefur verslunarmannahelgin haft á sér slæmt orð fyrir fjölda svallhátíða, með slæmri umgengni, miklum drykkjuskap, neyslu og sölu fíkniefna, ofbeldi, unglingadrykkju að ógleymdum ölvunarakstri, oft með skelfilegum afleiðingum. Hér dreg ég auðvitað fram svörtustu hliðarnar en sleppi því sem vel er. Aftur á móti virðist mér að öllu rólegra sé að verða yfir verslunarmannahelginni en áður var. Það er orðið svo mikið framboð af bæjarhátíðum nánast allt sumarið að möguleikar fólks til að fá útrás fyrir skemmtanagleði sína eru nær óþrjótandi.
Margar þessar bæjarhátíðir hafa fest sig í sessi og eru haldnar ár eftir ár án vandræða. Ég tel þjóðráð að skoða hvað einkennir skipulag og dagskrá þeirra hátíða sem eru vel kynntar og reyna að finna galdurinn þar að baki.
Eitt af því sem ég tel dæmt til að mistakast er keppnin um aðsóknarmet. Þegar markmiðið er það eitt að ná sem flestum á staðinn óháð öllu öðru hlýtur að fara illa. Fjölmiðlar hafa verið duglegir við að efna til keppni í þessu og hátíðahaldarar hafa verið ginkeyptir fyrir þátttöku í henni.
Eins finnast mér fjölmiðlar oft hafa verið gagnrýnislausir í umfjöllun sinni þegar þeir hafa leitað uppi drukkna unglinga og átt við þá ógáfuleg viðtöl um það hvað þeir hafi keypt mikið áfengi og hvar mesta stuðið sé. Sem betur fer virðist mér hafa dregið úr þessu og fjölmiðlar ekki eins tilbúnir og áður að flytja æsilegar ekkifréttir af fullu fólki. Slík umfjöllun er enda til þess fallin að draga upp þá mynd að fyllerí og ólæti séu hipp og kúl og þannig eigi fólk að skemmta sér. Með öðrum orðum er þetta neikvæð ímyndarsköpun og við verðum að berjast gegn henni.
Eitt vil ég líka undirstrika: Bæjarhátíðir, útihátíðir eða hvaða nafni hátíðir eru nefndar sem stundum fara úr böndunum eru ekki rót vandans. Þær eru birtingarmynd vandamáls sem við höfum lengi átt við að glíma. Hér er ég að tala um ómenningu sem lengi hefur loðað við landann í umgengni sinni við vín.
Eitthvert furðulegt umburðarlyndi hefur falið það í sér að fyllerí hjá fólki stöku sinnum hafa hvorki þótt tiltökumál né tilefni til þess að setja á sig hauspoka. Ofdrykkju fylgir taumleysi og gagnrýnisleysi og þegar vín fer inn fer vitið út – í réttu hlutfalli. Þá getur hvað sem er gerst. Í þessum efnum tel ég brýnt að vinna að viðhorfsbreytingu í samfélaginu öllu.
Það þarf að höfða til ábyrgðar foreldra og til vitsmuna ungs fólks. Það þarf að innprenta fólki virðingu fyrir sjálfu sér og öðrum, umhverfi sínu og eigum annarra. Liður í þessu er sýnileg og virk löggæsla og ég tel sjálfsagt að lögregla beiti þeim heimildum sem hún hefur til að taka á þeim sem ekki fylgja almennum leikreglum um hegðun og umgengni svo öllum sé ljóst að slíkt sé ekki liðið. Þetta á ekki að vera bundið við hátíðir heldur alla daga, alltaf. Og þegar þess gerist þörf tel ég mikinn feng í því ef björgunarsveitir eru reiðubúnar að koma að málum þegar þess gerist þörf.
Ég hef ekkert rætt um fíkniefnavandann hér sem því miður er sorgleg en raunveruleg staðreynd og vaxandi vandamál í samfélaginu. Það eru margir sem koma að þeirri baráttu, enda er hún afar vandasöm. Hún snýst jafnt um að koma í veg fyrir glæpi og takast á við afleiðingar þeirra. - Að hindra innflutning fíkniefna, koma höndum yfir sölumenn og aðra sem koma að dreifingu þeirra. – Og að hjálpa þeim sem hafa ánetjast fíkninni til að losa sig undan henni og koma lífi sínu á réttan kjöl.
Ég ætla að láta staðar numið hér og hleypa öðrum að umræðunni, enda liggur eflaust mörgum hér margt á hjarta.
Megi ráðstefnan verða til fróðleiks og gagns.
(Talað orð gildir)