Hoppa yfir valmynd
15. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 266/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 266/2021

Miðvikudaginn 15. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru 1. júní 2021 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. mars 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 17. mars 2021. Með bréfi, dags. 30. mars 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að endurhæfing hefði ekki verið reynd. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 17. ágúst 2021, þar sem kæranda var metinn örorkulífeyrir frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2026.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júní 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 27. júlí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. ágúst 2021, var greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins send kæranda og óskað eftir afstöðu hennar til greinargerðarinnar. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um örorku.

Ljóst sé að kærandi sé óvinnufær, sbr. læknisvottorð, dags. 21. apríl 2021. Samkvæmt niðurstöðu VIRK sé starfsendurhæfing talin óraunhæf. Kærandi telji sig hafa fullreynt endurhæfingu, þar með talið hafi hún verið hjá tveimur sjúkraþjálfurum sem hafi engum árangri skilað.

Kærandi viti ekki hvaða gögn hún geti afhent til þess að færa frekari sönnur á það að hún sé með öllu óvinnufær. Ef óskað sé eftir frekari upplýsingum verði þær góðfúslegar veittar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að eftir að kæra og kærumálsgögn hafi borist stofnuninni hafi ný umsókn og gögn borist frá kæranda. Á þeim forsendum hafi kærandi verið boðuð í skoðun hjá matslækni Tryggingstofnunar og hafi bréf þess efnis verið sent kæranda.

Þar sem Tryggingastofnun hafi nú tekið málið upp að nýju og ákveðið að senda kæranda í skoðun vegna umsóknar um örorkumat, óski stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísi fyrirliggjandi kæru frá. Fallist úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfuna áskilji stofnunin sér rétt til þess að leggja fram efnislega greinargerð vegna málsins.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. mars 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins þá ákvörðun með bréfi, dags. 27. júlí 2021, að boða kæranda í skoðun hjá skoðunarlækni. Þá óskaði stofnunin eftir því í greinargerð sinni, dags. 27. júlí 2021, að úrskurðarnefnd velferðarmála vísaði kæru frá á þeim grundvelli að stofnunin hefði tekið málið upp að nýju. Með bréfi, dags. 17. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar og bréfs stofnunarinnar, dags. 27. júlí 2021. Engin svör bárust frá kæranda vegna þessa. Með örorkumati, dags. 17. ágúst 2021, féllst stofnunin á umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Gildistími örorkumats var ákveðinn frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2026.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt umsókn kæranda um örorkulífeyri. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta