Drög að reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra og fleira til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra og starfsleyfi þjálfunarfyrirtækja. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 31. október næstkomandi á netfangið [email protected].
Markmið reglugerðarinnar er að auka kröfur um öryggi og bæta starfrækslu flugstjórnarþjónustu með samræmdum kröfum um skírteini flugumferðastjóra og að innleiða reglugerð (ESB) nr. 805/2011, um ítarlegar reglur um skírteini flugumferðarstjóra og tiltekin vottorð og heimildir samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008.
Reglugerð (ESB) nr. 805/2011 fellir úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/32 frá 5. apríl 2006 um bandalagsskírteini fyrir flugumferðarstjóra, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð um skírteini flugumferðarstjóra nr. 404/2008 sem felld verður úr gildi sbr. meðfylgjandi drög.
Markmið reglugerðarinnar er að auka kröfur um öryggi og bæta starfsrækslu flugstjórnarþjónustu með samræmdum kröfum um skírteini flugumferðarstjóra.
Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 805/2011 eru aðildarríkjum heimil frávik varðandi viðbótaráritanir. Geta aðildarríki, sem hafa tekið upp landsbundnar viðbótaráritanir sem um getur í 4. mgr. 7. gr. tilskipunar 2006/23/EB, áfram beitt viðeigandi ákvæðum gildandi landslaga þrátt fyrir 11. gr. reglugerðar nr. 805/2011. Hér á landi hefur verið notuð viðbótaráritun sem ekki er skilgreind í reglugerð (ESB) nr. 805/2011 og er hún því tilgreind í 3. gr. innleiðingarreglugerðarinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. reglugerðar (ESB) nr. 805/2011 er aðildarríkjum heimilt að beita áfram viðeigandi ákvæðum gildandi landslaga um að eingöngu handhafar skírteina undir tilteknum aldri megi neyta réttinda deildarviðbótaráritunar. Hér á landi er í gildi aldurstakmörkun fyrir flugumferðarstjóra sem ekki er skilgreind í reglugerðinni og er hún því tekin upp í 4. gr. innleiðingarreglugerðarinnar.
Í III. kafla núgildandi reglugerð nr. 404/2008 um skírteini flugumferðarstjóra er kveðið á um heilbrigðiskröfur. Heilbrigðiskröfurnar byggja á viðauka 1 við Chicago samninginn og leiðbeiningarefni Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (Eurocontrol). Í reglugerð nr. 404/2008 eru heilbrigðiskröfurnar tilgreindar en í reglugerð (ESB) nr. 805/2011 er eingöngu vísað til þessara krafna en þær ekki tilgreindar. Til að bregðast við þessu eru kröfur þessar teknar fram í viðauka við innleiðingarreglugerðina. Ákvæði viðaukans byggjast á viðauka 1 við Chicago samninginn og er notast við sömu númer. Sú breyting er þó gerð frá reglugerð nr. 404/2008 að tekin eru út ákvæði er lúta að heilbrigði flugliða þar sem þau eiga ekki við um flugumferðarstjóra.