Áætluð framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2014
Innanríkisráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 16. október síðastliðnum um áætlaðar úthlutanir eftirfarandi framlaga á árinu 2014:
Áætluð framlög vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti
Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætlaða heildarúthlutun framlaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti á árinu 2014, sbr. reglugerð nr. 80/2001 með síðari breytingum. Á grundvelli frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 nemur áætlað ráðstöfunarfjármagn sjóðsins til greiðslu framlaganna 3.279,9 m.kr. Verði um breytingu að ræða á ráðstöfunarfjármagni sjóðsins þegar fjárlög ársins 2014 liggja fyrir mun ný áætlun verða birt um úthlutun framlaganna.
Jöfnunarsjóður greiðir sveitarfélögum framlög fyrirfram sem nema 60% af áætluðum framlögum ársins eða um 1.967,9 m.kr. Greiðslan er innt af hendi með fimm jöfnum greiðslum mánuðina febrúar til júní. Uppgjör framlaganna á árinu 2014 fer fram mánuðina, júlí, ágúst og september á grundvelli upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um álagningarstofna fasteignaskatts frá 31. desember 2013, upplýsinga um álagningarhlutföll fasteignaskatts á árinu 2014 og upplýsinga um veitta afslætti sveitarfélaga af fasteignaskatti á árinu 2014.
Áætluð framlög vegna nýbúafræðslu
Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætlaða heildarúthlutun framlaga vegna sérstakrar íslenskukennslu nýrra Íslendinga á árinu 2014 á grundvelli 5. gr. reglugerðar, nr. 351/2002 með síðari breytingum, að fjárhæð 193,2 m.kr. Áætlunin verður tekin til endurskoðunar í febrúar nk.
Áætluð framlög vegna greiðslu sveitarfélaga á almennum og sérstökum húsaleigubótum
Sveitarfélögin áætla að heildargreiðslur þeirra á almennum húsaleigubótum nemi um 4.571 m.kr. á árinu 2014. Um er að ræða 4,2% hækkun á greiðslum bótanna milli ára sé tekið mið af áætlunum sveitarfélaga um greiðslur á árinu 2013.
Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglugerðar, nr. 150/2013, um að áætlað greiðsluhlutfall Jöfnunarsjóðs vegna greiðslu sveitarfélaga á almennum húsaleigubótum nemi 64,0% á árinu 2014. Tekið er tillit til sérstaks viðbótarframlags á grundvelli frumvarps til fjárlaga 2014 að fjárhæð 1.000 m.kr. vegna aukinna húsaleigubóta. Verði um breytingu að ræða á ráðstöfunarfjármagni sjóðsins þegar fjárlög ársins 2014 liggja fyrir mun ný áætlun verða birt um úthlutun framlaganna.
Sveitarfélög áætla að heildargreiðslur þeirra á sérstökum húsaleigubótum nemi um 1.318 m.kr.á árinu 2014. Um er ð ræða 8,0% hækkun á greiðslum bótanna milli ára sé tekið mið af áætlunum sveitarfélaga um greiðslur á árinu 2013.
Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um að áætlað greiðsluhlutfall Jöfnunarsjóðs vegna greiðslu sveitarfélaga á sérstökum húsaleigubótum nemi 60% á árinu 2014, sbr. samkomulag ríkis og sveitarfélaga um húsaleigubætur frá 1. apríl 2008.