Stórurð friðlýst
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, undirritaði í dag friðlýsingu jarðanna Hrafnabjarga, hluta Sandbrekku, Unaóss og Heyskála á Úthéraði sem landslagsverndarsvæði. Innan verndarsvæðisins er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og náttúruvættið Stórurð.
Undirritunin fór fram við upphaf göngu að Hrafnabjörgum sem Ferðafélag Fljótsdalshéraðs skipulagði í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið undir leiðsögn Þórdísar Kristvinsdóttur.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og sérstætt landslag á svæðinu og standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa.
Svæðið sem friðlýst var í dag er hluti af þyrpingu eldstöðva sem teljast meðal þeirra elstu á Austfjörðum og eru um 13,5 til 12 milljón ára gamlar. Afar fjölbreytt landslag er á þessum slóðum þar sem fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á umhverfið og má víða sjá grjótjökla og berghlaup. Frægast þeirra er Stórurð, sem er gömul skriða úr móbergsbjörgum sem eiga uppruna sinn í Dyrfjallaeldstöðinni.
Á svæðinu er fjölbreytt fuglalíf og þar verpa hátt í 40 fuglategundir, meðal annars tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Einnig er þar að finna ýmsan sérstakan gróður, meðal annars línarfa og lyngbúa sem eru á válista.
Þá eru á svæðinu merkar sögulegar minjar, m.a. gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík. Gönguleiðin í Stapavík liggur um jörðina Unaós og Heyskála en á henni er stundaður sauðfjárbúskapur. Um verndarsvæðið allt liggja fjölmargar gönguleiðir sem vaxandi fjöldi fólks nýtir sér ár hvert. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur sinnt landvörslu á svæðinu undanfarin ár og í dag staðfesti ráðherra samning Umhverfisstofnunar og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs um eftirlit með svæðinu.
„Friðlýsing verndarsvæðisins norðan Dyrfjalla og náttúruvættisins Stórurðar er mikilvægur áfangi í náttúruvernd á Austurlandi. Náttúran hér er bæði stórskorin og kyngimögnuð en líka smágerð og viðkvæm. Stórurðin sjálf er náttúrudjásn sem nú hefur verið tryggð vernd og umsjón með svæðinu. Önnur svæði eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, hér er að finna sérstæðan gróður, auk selalátra sem hýsa seli en þeim hefur fækkað mikið á undanförnum árum á Íslandi. Þá er ég ákaflega stoltur af því að staðfesta samning þann sem gerður var í dag á milli Umhverfisstofnunar, sem nú fer formlega með umsjón svæðisins, og Ferðafélags Fljótsdalshéraðs sem sinnt hefur svæðinu af miklum myndarbrag undanfarin ár. Það er frábært dæmi um samvinnu félagasamtaka og hins opinbera,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Hópur fólks tók þátt í göngunni í blíðskaparveðri en í henni voru m.a. fulltrúar sveitarfélagsins Múlaþings, Umhverfisstofnunar, ráðuneytisins félagar í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og fulltrúar landeigenda sem sögðu göngufólki frá staðháttum.