Starfshópur metur ábyrgð lífeyrisskuldbindinga vegna samrekstrar ríkis og sveitarfélaga
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga (Jónsmessunefndar), að skipa starfshóp í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur það hlutverk að meta ábyrgð lífeyrisskuldbindinga sem myndast hafa í opinberum lífeyrissjóðum vegna samrekstrar ríkis og sveitarfélaga og ýmissa viðfangsefna sem kostuð hafa verið af þessum aðilum.
Starfshópnum er ætlað að greina og gera tillögu að heildstæðu uppgjöri milli aðila. Jafnframt verði lagt mat á lífeyrishækkanir sem greiddar hafi verið vegna ábyrgðar launagreiðenda og greiðslur vegna bakábyrgðar, uppreiknaðar á sambærilegan hátt til uppgjörs. Þá verði farið yfir forsendur flutnings réttinda milli lífeyrissjóða sveitarfélaga og ríkisins og ábyrgð vegna þeirra.
Helstu verkefni starfshópsins eru:
- Greina og meta lífeyrisskuldbindingar sem stofnast hafa vegna samrekstrar eða sameiginlegra viðfangsefna ríkis og sveitarfélaga.
- Gera tillögur um hvernig ábyrgð ríkis og sveitarfélaga gagnvart þessum skuldbindingunum skuli skilgreind.
- Gera tillögur um hvernig skuli staðið að fjárhagslegu uppgjöri lífeyrisskuldbindinganna á grundvelli skilgreindrar ábyrgðarskiptingar.
Eftirtaldir eru skipaðir í starfshópinn af hálfu sveitarfélaga:
- Birgir Björn Sigurjónsson
- Dan Jens Brynjarsson
- Regína Ásvaldsdóttir
Eftirtaldir eru skipaðir í starfshópinn fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytis:
- Halldóra Friðjónsdóttir,
- Anna Valbjörg Ólafsdóttir
- Viðar Helgason,
Formaður starfshópsins er Magnús Pétursson, fv. ráðuneytisstjóri.
Vinnuhópurinn skal ljúka störfum eigi síðar en í árslok 2016. Að auki skal hann á fyrri hluta árs skila áfangaskýrslu þar sem skilgreind verði helstu viðfangsefni og álitamál.