Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 259/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 259/2023

Miðvikudaginn 17. janúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 24. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 43.552 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. maí 2023. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. júní 2023, barst greinargerð stofnunarinnar þar sem fram kom að kærð ákvörðun hafi verið tekin til endurskoðunar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2023, var óskað eftir afstöðu kæranda til bréfs stofnunarinnar. Í tölvupósti kæranda 27. júlí 2023 til úrskurðarnefndarinnar lýsti hann því yfir að hann vildi halda áfram með málið hjá nefndinni. Undir rekstri málsins barst úrskurðarnefndinni ný ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. ágúst 2023, þar sem kæranda var tilkynnt að nýr endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 11.773 kr. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir afstöðu kæranda til ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. ágúst 2023. Engin svör bárust frá kæranda. Með bréfi, dags. 12. september óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð vegna framangreindrar ákvörðunar. Með bréfi, dags. 23. október 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. október 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að Tryggingastofnun ætli sér að gera nákvæmlega það sama og stofnunin hafi gert í fyrra en þá hafi kærandi átt að fá endurgreitt en það hafi endað með skuld, nákvæmlega sami grundvöllur fyrir skuldinni og hafi verið dæmdur ólöglegur í fyrri kæru. Eins og í fyrra þá sé þetta vegna nokkurra þúsund króna munar á skattskýrslu. Kærandi voni að hann fái endurgreiðsluna í þetta skiptið, ekki bara kæruna fellda niður eins og áður. Kærandi spyr hvort það sé eðlilegt að þjónustuaðilar hjá Tryggingastofnun viti ekkert um sundurliðun skuldarinnar þegar hann hringi og spyrjist fyrir um þetta.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2022. Með greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 26. júní 2023, hafi verið óskað eftir frávísun málsins þar sem stofnunin hafði tekið málið upp að nýju og ákveðið að nýr endurreikningur myndi fara fram. Sá endurreikningur hafi verið tilkynntur kæranda með bréfi, dags. 22. ágúst 2023. Í framhaldinu hafi úrskurðarnefndin óskað verið eftir efnislegri greinargerð vegna málsins.

Breytingar á lögum nr. 100/2007 og lögum nr. 99/2007 hafi tekið gildi þann 12. apríl 2023 en þar sem um sé að ræða greiðslur til kæranda á árinu 2022, fyrir umræddar breytingar, þá verði málið skoðað út frá eldri lögum að hluta.

Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja áætlaðar tekjur greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 9. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð sé fjallað um sérstaka uppbót til framfærslu. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fái greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skuli á árinu 2022 miða við að heildartekjur séu undir 351.920 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fái ekki greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skuli miða við að heildartekjur séu undir 279.886 kr. á mánuði.

Til tekna samkvæmt framangreindu ákvæði teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi. Við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar skuli þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að einungis skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar og 95% af fjárhæð tekjutryggingar.

Í 9. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð sé fjallað um uppbætur vegna kostnaðar sem ekki fáist greiddur eða bættur með öðrum hætti. Heimilt sé að greiða uppbætur, til dæmis vegna lyfjakostnaðar, ef sýnt þyki að umsækjandi geti ekki framfleytt sér án þess en við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skuli taka tillit til eigna og tekna. Á árinu 2022 hafi ekki verið heimilt að greiða uppbætur ef eign í peningum/verðbréfum hafi verið hærri en 4.000.000 kr. og mánaðarlegar tekjur að meðtöldum bótum laga um almannatryggingar væru ekki hærri en 276.432 kr.

Allt árið 2022 hafi kærandi verið með örorkulífeyri, tekjutryggingu, aldurstengda örorkuuppbót og sérstaka uppbót til framfærslu. Fram til 1. júlí 2022 hafi kærandi einnig verið með sérstaka uppbót vegna lyfjakostnaðar.

Kæranda hafi verið tilkynnt um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2022 með bréfi, dags. 23. maí 2023, sem hafi leitt til 43.552 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Í kjölfar kæru hafi verið gerður nýr endurreikningur, sbr. bréf, dags. 22. ágúst 2023, sem hafi leitt til 11.773 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í þessum uppgjörum sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2023 vegna tekjuársins 2022, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst vera hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 28. janúar 2022. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að á árinu 2022 væri kærandi með 865.602 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 24 kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi kæranda verið greitt eftir henni allt árið 2022.

Við bótauppgjör ársins 2022 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með 890.586 kr. lífeyrissjóðstekjur og 256 kr. í vexti og verðbætur.

Í upphaflegum útreikningi uppgjörs, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 23. maí 2023, hafi kærandi fengið útreikning sérreglu tekjutryggingar í stað almennrar reglu. Hafi það leitt til þess að tekjutrygging kæranda hafi hækkað úr 1.677.944 kr. í 1.772.856 kr.

Við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fái greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2022 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2022 og hins vegar þeim reglum sem hafi verið í gildi á árinu 2013, með hliðsjón af hækkunum hennar. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna.

Þar sem útreikningur samkvæmt sérreglunni hafi haft í för með sér að tekjutrygging hafi hækkað hjá kæranda hafi það leitt þess að viðmiðunartekjur hafi hækkað vegna útreiknings sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Þess vegna hafi fyrra uppgjörið leitt til lækkunar á þeirri fjárhæð sem kærandi hafi fengið greidda í sérstaka uppbót til framfærslu, þ.e. úr 634.819 kr. í 528.260 kr. Einnig hafi lækkað réttur kæranda til uppbótar vegna lyfjakostnaðar, þ.e. úr 89.760 kr. í 51.354 kr., en sérstaka uppbótin hafi ekki áhrif á lyfjauppbótina ólíkt tekjutryggingunni.

Þegar réttindi kæranda hafi verið reiknuð í samræmi við almenna reglu, sbr. bréf Tryggingastofnunar, dags. 22. ágúst 2023, hafi það haft minni áhrif á bæði sérstöku uppbótina og lyfjauppbótina. Sérstaka uppbótin hafi lækkað úr 634.819 kr. í 626.683 kr. og lyfjauppbótin hafi lækkað úr 89.760 kr. í 88.608 kr.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eða hvernig þær séu skráðar á skattframtalið, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða fyrri endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 3.141.993 kr. en hefði átt að fá greitt 3.095.294 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 43.552 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Niðurstaða seinni endurreikningsins hafi verið að kærandi hafði fengið greitt á árinu 3.141.993 kr. en hefði átt að fá greitt 3.123.726 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 11.773 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Við að framkvæma nýtt uppgjör og beita almennu reglunni en ekki sérreglunni hafi réttindin hækkað úr 3.095.294 kr. í 3.123.726 kr. og því hafi krafa til innheimtu lækkað úr 43.552 kr. í 11.773 kr. Eins og áður hafi komið fram sé krafan tilkomin vegna þess að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar í skattframtali 2023 vegna tekjuársins 2022 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst vera hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun frá 22. ágúst 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðsla ársins 2022 verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli þágildandi 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt þágildandi 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Á grundvelli 3. mgr. 33.gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur allt árið 2022 og auk þess fékk hann uppbót vegna lyfjakostnaðar á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð frá 1. janúar til 1. júlí 2023.

Samkvæmt gögnum málsins útbjó Tryggingastofnun tekjuáætlun, dags. 28. janúar 2022, vegna ársins 2022 þar sem gert var ráð fyrir 865.602. kr. í lífeyrissjóðstekjur og 24 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði engar athugasemdir við þá áætlun. Bótaréttindi voru því reiknuð og bætur greiddar miðað við þær forsendur út árið 2022.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 890.586 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 256 kr. í fjármagnstekjur. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins var sú að kærandi hefði fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 43.552 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Samkvæmt framangreindu reyndust fjármagnstekjur og lífeyrissjóðstekjur kæranda á árinu 2022 vera hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og en einungis lífeyrissjóðstekjur leiddu til ofgreiðslukröfu. Lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Undir rekstri málsins kom í ljós að framangreindur endurreikningur var ekki rétt framkvæmdur. Nýr útreikningur var framkvæmdur í samræmi við þágildandi 18. tölul. bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar þar sem stofnunin gerði samanburðarútreikning við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta. Í ákvæðinu kemur fram að við útreikning tekjutryggingar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fái greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli Tryggingastofnun gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar, annars vegar samkvæmt reglum sem giltu á árinu 2022 og hins vegar á þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013, auk 54,55% hækkunar, að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 18. tölul. ákvæðis til bráðabirgða. Þá segir að beita skuli þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

Samkvæmt gögnum málsins var greiðsluréttur kæranda annars vegar 3.141.993 kr. samkvæmt útreikningi í samræmi við reglur ársins 2022 og hins vegar 3.123.726 kr. við samanburð samkvæmt reglum sem voru í gildi á árinu 2013. Ljóst er því að nýi endurreikningurinn sem tilkynntur var með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. ágúst 2023, er hagstæðari leið fyrir kæranda þar sem hann leiddi til lægri endurkröfu. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þann endurreikning.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda, dags. 22. ágúst 2023, vegna ársins 2022 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. ágúst 2023, um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta