Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 22/2010

Miðvikudaginn 28. júlí 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 28. maí 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 28. maí 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 3. júní 2010, um að synja kæranda um töku fæðingarorlofs og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eftir að barn hans náði 18 mánaða aldri.

Með bréfi, dags. 8. júní 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 9. júní 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. júní 2010, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 2. júlí 2010.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að þegar dóttir hans fæddist Y. september 2008 hafi hann fengið þrjá mánuði í fæðingarorlof. Hann hafi strax nýtt sér einn mánuð af orlofinu en geymt hina tvo. Í desember 2009 hafi hann kannað hjá Vinnumálastofnun hvenær hann þyrfti að vera búinn að nýta sér fæðingarorlofið. Kærandi kveðst hafa talað við starfsmann hjá Fæðingarorlofssjóði sem hafi sagt honum að hann gæti nýtt sér fæðingarorlofið þar til dóttir hans yrði tveggja ára, sem sé Y. september 2010.

Hinn 28. maí 2010 hafi kæranda verið tilkynnt að hann hefði einungis haft 18 mánuði til að nýta sér fæðingarorlofið. Kærandi kveðst hafa verið búinn að ákveða að taka fæðingarorlofið í janúar og febrúar 2010 en hann hafi seinkað því eftir að hafa ráðfært sig við starfsmann Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi kveðst ekki hafa lagt á minnið nafnið á starfsmanninum enda ekki séð tilgang með því á þeim tíma.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs tilgreinir hann hver hafi komið með honum á Vinnumálastofnun og heyrt þegar fyrrgreindur starfsmaður hafi tilkynnt honum að hann hefði tvö ár til að nýta sér fæðingarorlof með barni hans fæddu Y. september 2008.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn sinni, dags. 14. september 2008, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns sem fæddist Y. september 2008.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um fæðingarorlof, dags. 15. september 2008, breyting á tilhögun fæðingarorlofs, mótt. 3. nóvember 2008, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 2. júní 2008, fæðingarvottorð, dags. 22. október 2008, launaseðlar fyrir ágúst og september 2008, starfslokavottorð frá B, dags. 14. ágúst 2008, starfslokavottorð frá C, dags. 16. október 2008, og starfslokavottorð frá D ehf., dags. 19. október 2008. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að á tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs sem sé undirrituð af kæranda, dags. 15. september 2008, sé hakað í reit um að upphafsdagur fæðingarorlofs skuli miðast við fæðingardag barns og að orlofstíma verði skipt á fleiri tímabil en eitt. Kærandi hafi skrifað í reit um fæðingarorlofstíma „1 mánuður“ og í reit um tilhögun fæðingarorlofs sé orlofstími ekki samfelldur „óákveðið fyrst 1 mán eftir fæðingu“. Þann 3. nóvember 2008 hafi kærandi sent breytingu á tilhögun fæðingarorlofs þar sem fram komi að hann vilji breyta tímabili fæðingarorlofs í 1. til 28. október 2008. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáætlun, dags. 6. nóvember 2008, þar sem honum hafi verið tilkynnt um að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Þann 1. júní 2010 hafi borist tilkynning um fæðingarorlof frá kæranda, dags. 1. júní 2010, þar sem fram komi að kærandi vilji taka fæðingarorlof tímabilið 7. júní til 7. júlí 2010.

Kæranda hafi í kjölfarið verið synjað með bréfi, dags. 3. júní 2010, þar sem fram komi að ekki sé unnt að samþykkja greiðslur til hans fyrir framangreint tímabil þar sem réttur hans til töku fæðingarorlofs með barninu hafi fallið sjálfkrafa niður við 18 mánaða aldur þess þann Y. mars 2010. Þá ákvörðun hafi kærandi kært og telji jafnframt að hann hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs að unnt væri að taka fæðingarorlofið innan tveggja ára frá fæðingu barns í stað 18 mánaða. Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að af samskiptasögu sjóðsins við kæranda verði ekki séð að honum hafi verið gefnar slíkar upplýsingar.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004 sem var í gildi við fæðingu barns kæranda, hafi verið kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar falli niður er barn nái 18 mánaða aldri.

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að barn kæranda hafi fæðst Y. september 2008 og því hafi réttur kæranda til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði fallið sjálfkrafa niður er barn hans náði 18 mánaða aldri, þann Y. mars 2010, samkvæmt framangreindu lagaákvæði.

Fæðingarorlofssjóður greinir jafnframt frá því að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof sé ekki að finna neina undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. um að heimilt sé að greiða fæðingarorlof vegna fæðingar barns eftir að barn nær 18 mánaða aldri nema í þeim tilvikum þegar barn hafi verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 4. mgr. 8. gr. ffl, sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004. Ekki verði séð að sú undanþága eigi við í tilviki kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um fæðingarorlof, sbr. synjunarbréf til hans, dags. 3. júní 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 3. júní 2010, um að synja umsókn kæranda um töku fæðingarorlofs tímabilið 7. júní til 7. júlí 2010 og greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, með vísan til þess að meira en 18 mánuðir væru liðnir frá fæðingu barns hans.

Með umsókn, dags. 14. september 2008, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns síns sem fæddist Y. september 2008. Samkvæmt tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 15. september 2009, hafði kærandi tilkynnt að upphafsdagur fæðingarorlofs myndi miðast við fæðingardag barns, orlofstíma yrði skipt á fleiri en eitt tímabil sem væri óákveðið en fyrst yrði það í einn mánuð eftir fæðingu barnsins. Á ódagsettu eyðublaði um breytingu á tilhögun fæðingarorlofs, mótteknu 3. nóvember 2008 af Fæðingarorlofssjóði, kemur fram að kærandi hafi ætlað að taka fæðingarorlof fyrsta mánuðinn eftir að barn hans fæddist hinn Y. september 2008 en hann vilji breyta því í 1. til 28. október 2008. Samkvæmt greiðsluáætlun, dags. 6. nóvember 2008, fékk kærandi 93% greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði í októbermánuði 2008.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. ffl. i.f., eins og ákvæðið hljóðaði við fæðingu barns kæranda hinn Y. september 2008 féll réttur til fæðingarorlofs vegna fæðingar barns niður er barn náði 18 mánaða aldri. Í athugasemdum með ákvæðinu segir í greinargerð að hafi foreldrar ekki tekið út rétt sinn til fæðingarorlofs er barnið næði 18 mánaða aldri falli rétturinn sjálfkrafa niður. Ekki er að finna undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 8. gr. nema þegar um er að ræða barn sem hefur verið ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur, sbr. 4. mgr. 8. gr. ffl., sbr. 2. gr. laga nr. 90/2004.

Barn kæranda náði 18 mánaða aldri þann Y. mars 2010 og féll réttur kæranda því niður þann dag samkvæmt ofangreindu ákvæði 2. mgr. 8. gr. ffl.

Í kæru er því haldið fram að kærandi hafi fengið þær upplýsingar hjá Fæðingarorlofssjóði í desember 2009 að hann gæti tekið fæðingarorlof þar til barn hans næði tveggja ára aldri. Kærandi hafi af þeim sökum ákveðið að nýta sér rétt sinn til atvinnuleysisbóta frekar en að skrá sig í fæðingarorlof frá 1. janúar til 28. febrúar 2010 sem hann hafi annars ætlað að gera. Í samskiptasögu Fæðingarorlofssjóðs eru engar upplýsingar um þessi samskipti. Hins vegar kemur fram í tilkynningu kæranda um fæðingarorlof, undirritaðri af honum 15. september 2008, að réttur hans til fæðingarorlofs falli niður þegar barnið nær 18 mánaða aldri.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Foreldri getur ekki öðlast rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli ffl. vegna rangrar eða ófullnægjandi upplýsingagjafar þótt sönnuð væri. Ágreiningur um hugsanlegan rétt foreldris sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna rangrar upplýsingagjafar ræðst af almennum reglum skaðabótaréttarins og fellur því ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta