Hoppa yfir valmynd
25. júní 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. júní 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 42/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði tekið fyrir beiðni hans um frumkvöðlasamning skv. 8. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Beiðninni var synjað. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. mars 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kröfur kærenda og athugasemdir eru í nokkrum liðum. Hann krefst þess að niðurstöðu Vinnumálastofnunar verði hnekkt og réttur hans til þess að gera samning verði staðfestur. Hann telur ákvörðun Vinnumálastofnunar vera í mótsögn við reglugerð nr. 12/2009 þar sem stofnunin þrengi lögbundin réttindi skjólstæðinga sinna.

Kærandi gerir einnig athugasemdir við vinnulag stofnunarinnar. Hann telur að dregist hafi óeðlilega að svara erindum hans og gerir þá kröfu að stofnunin verði hæfilega mönnuð og skipulögð til að geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Þá gerir hann þá kröfu að stofnunin sæti rannsókn á starfsháttum sínum og hæfi stjórnenda og starfsmanna hennar.

Mál þetta snýst um beiðni kæranda um að gera frumkvöðlasamning á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Hann hafði áður gert samning við Vinnumálastofnun um þróun eigin viðskiptahugmyndar og þann 2. apríl 2009 var umsókn kæranda þar að lútandi samþykkt og honum veittur styrkur í sex mánuði. Hann sótti um framlengingu á samningnum þann 20. ágúst 2009 og var sú beiðni samþykkt og veittur styrkur í þrjá mánuði til viðbótar. Þann 19. nóvember 2009 sótti kærandi enn um framlengingu og í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. desember 2009, kemur fram að verkefnið framlengist aftur um þrjá mánuði, sbr. heimild í 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009.

Kærandi óskaði með bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 15. desember 2009, eftir áliti stofnunarinnar varðandi rétt hans til frumkvöðlasamnings á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Í kjölfarið var haldinn fundur með kæranda þann 15. janúar 2010 og með bréfi, dags. 7. mars 2010, var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að synja umsókn hans um gerð frumkvöðlasamnings á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr. 12/2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2010, er vitnað í það að í reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé mælt fyrir um frumkvöðlastarf innan fyrirtækja eða stofnana. Í 8. gr. reglugerðarinnar komi fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að styrkja fyrirtæki eða stofnanir til nýrra viðskiptahugmynda. Frumkvöðlasamningur samkvæmt greininni byggi á þríhliða samningi milli fyrirtækis, atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar. Fyrirtækið eða stofnunin skuldbindi sig þannig til að ráða atvinnuleitanda til starfa við þróun nýrrar viðskiptahugmyndar og Vinnumálastofnun greiði á móti til fyrirtækisins þær atvinnuleysisbætur sem atvinnuleitandi eigi rétt á. Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar sé svo nánar kveðið á um skilyrði þau er umsækjendur um frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða stofnunar þurfi að uppfylla. Af 7. og 8. gr. reglugerðarinnar megi almennt ráða að ekki sé ætlast til þess að þeir sem nýti sér styrk til þróunar eigin viðskiptahugmyndar á grundvelli 7. gr. sæki um samning um frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða stofnunar um sömu viðskiptahugmyndina á grundvelli 8. gr. reglugerðarinnar eftir að fyrri samningi skv. 7. gr. er lokið. Beri í því sambandi að nefna að 8. gr. heimili Vinnumálastofnun að gera frumkvöðlasamning við fyrirtæki sem ætli að ráðast í nýja viðskiptahugmynd og sé það skilyrði fyrir að Vinnumálastofnun geri slíkan samning við fyrirtæki eða stofnun skv. 2. mgr. greinarinnar að ráðning atvinnuleitandans feli í sér fjölgun starfsmanna hjá fyrirtækinu. Feli ofangreint skilyrði í sér að áður en samningur sé gerður við fyrirtæki þurfi að vera til staðar a.m.k. eitt stöðugildi hjá fyrirtækinu og að verkefni sem styrkt sé með frumkvöðlasamningi skv. 8. gr. reglugerðarinnar feli í sér aukin umsvif við venjubundna starfsemi fyrirtækisins. Telji Vinnumálastofnun sér því ekki heimilt að gera samning um frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða stofnunar um sömu viðskiptahugmynd er atvinnuleitandi hafi þegar þegið styrk fyrir á grundvelli 7. gr. reglugerðar nr. 12/2009.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. maí 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. maí 2010. Kærandi sendi athugasemdir og eru þær dagsettar 12. maí 2010.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta snýst um heimild Vinnumálastofnunar til að gera samning við atvinnuleitendur um úthlutun á sérstökum styrkjum úr atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli reglugerðar 12/2009. Markmið reglugerðarinnar er meðal annars að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um heimild til að gera samning við atvinnuleitanda um þróun eigin viðskipta­hugmyndar. Í 8. gr. er fjallað um heimild til að gera frumkvöðlasamning við fyrirtæki eða stofnun sem ætlar að ráðast í nýja viðskiptahugmynd, svo sem nýsköpunarverkefni eða vöruþróunarverkefni. Markmiðið með styrkveitingum þessum er að umræddum hugmyndum verði komið í framkvæmd og það er skilyrði styrkveitinga að þær séu taldar líklegar til að skapa atvinnuleitanda framtíðarstarf. Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir styrkveitingum í sex mánuði, en heimilt er að framlengja heimildina alls í sex mánuði til viðbótar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Samningur um þróun viðskiptahugmyndar skv. 7. gr. verður aðeins framlengdur ef mjög miklar líkur eru á að viðskiptahugmyndin skapi atvinnuleitandanum framtíðarstarf. Heimilt er að stöðva greiðslur samkvæmt frumkvöðla­samningi skv. 8. gr. ef ljóst þykir að viðskiptahugmyndin muni ekki skila þeim árangri sem vænst var í upphafi.

Af þessu er ljóst að það er forsenda styrkveitinga skv. 7. og 8. gr. að þær auki líkur á því að atvinnuleitandi verði virkur þátttakandi í atvinnulífinu að loknum samningi. Sá tilgangur er í samræmi við lög um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006, en reglugerð nr. 12/2009 byggist á þeim lögum. Markmið laganna er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Kærandi hafði fullnýtt heimild til samnings á grundvelli 7. gr. þegar hann óskaði eftir því að fá einnig samning á grundvelli 8. gr. um þróun sömu viðskiptahugmyndar. Forsenda samnings um þróun viðskiptahugmyndar skv. 7. gr. var sú að mjög miklar líkur væru á því að kærandi yrði virkur þátttakandi í atvinnulífinu að loknum samningnum. Það eru því engin rök fyrir því að hann geti að samningi loknum haldið áfram að þiggja styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði um þróun sömu viðskiptahugmyndar á grundvelli 8. gr. reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til rökstuðnings Vinnumálastofnunar er ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um frumkvöðlasamning skv. 8. gr. reglugerðar nr. 12/2009 staðfest.

Úrskurðarnefndin getur ekki tekið afstöðu til þeirra krafna kæranda er varða vinnulag og skipulag Vinnumálastofnunar, en hlutverk nefndarinnar er aðeins að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Kærandi verður því að beina slíkum kröfum til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. mars 2010 um synjun á beiðni A um frumkvöðlasamning er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta