Tímamótasamþykkt um vinnuskilyrði sjómanna á fiskiskipum
Nýja ILO-samþykktin um vinnuskilyrði sjómanna á fiskiskipum var samþykkt af hálfu fulltrúa ríkisstjórna, launafólks (sjómanna) og atvinnurekenda (útgerða) með 437 atkvæðum gegn tveimur, 22 atkvæði flokkuðust undir hjásetu við atkvæðagreiðslu. Samþykktin nefnist „Samþykkt um vinnu við fiskveiðar, 2007“ (The Work in Fishing Convention, 2007) og öðlast gildi þegar 10 aðildarríki (þar með talin átta strandríki) af 180 aðildarríkjum ILO hafa fullgilt hana.
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra lýsti yfir stuðningi Íslands við samþykktina þegar hún ávarpaði þingið í Genf. Hún fagnar niðurstöðunni.
„Ísland lagði sitt af mörkum til að þingið afgreiddi þessa samþykkt sem ekki náði fram að ganga fyrir tveimur árum“, segir Jóhanna Sigurðardóttir. „Við studdum breytingartillögur Japana sem urðu til þess að víðtæk samstaða tókst um afgreiðslu samþykktarinnar.“
Í samþykktinni eru ákvæði sem ætlað er að tryggja að starfsmenn á sviði fiskveiða njóti:
- Aukins öryggis og heilbrigðis við vinnu og læknishjálpar á sjó og að veikir eða slasaðir sjómenn á fiskiskipum fái umönnun í landi;
- Nægilegrar hvíldar þeim til heilsuverndar og öryggis;
- Verndar í krafti starfssamninga;
- Sömu almannatryggingaverndar og aðrir starfsmenn.
Ákvæðum samþykktarinnar er einnig ætlað að tryggja að fiskiskip séu smíðuð og þeim viðhaldið með hliðsjón af því að starfsmenn í greininni dvelja oft langdvölum um borð í skipum sínum og að þeir njóti lífsskilyrða í samræmi við það.
Samþykktin kveður jafnframt á um að stór fiskiskip í löngum sjóferðum geti sætt skoðunum í erlendum höfnum til að tryggja að sjómennirnir um borð starfi ekki við aðstæður sem stofna öryggi þeirra og heilsu í hættu.
Til að komast hjá því að ófullkomnar stofnanir eða grunnvirki tefji hugsanlega fyrir framkvæmd samþykktarinnar gerir hún ráð fyrir nýstárlegum lagalegum úrræðum sem gera ríkjum kleift að hrinda tilteknum ákvæðum hennar í framkvæmd í áföngum.
Eftir samþykkt alþjóðasamþykktarinnar af hálfu ILO er það í höndum stjórnvalda aðildarríkjanna að fullgilda hana.
Sjá nánar frétt Siglingastofnunar.
Fiskimannasamþykktin og skýrsla þingnefndar um samþykktina