Samstarf um rafrænan reikning í Evrópu
Rafrænir reikningar eiga að vera staðlaðir um alla Evrópu frá nóvember 2018. Staðlasamtök Evrópu (CEN) vinna að samræmingu rafrænna reikninga samkvæmt tilskipun 2014/55/EU. Staðallinn verður tilbúinn á næsta ári, en þá tekur við tími innleiðingar og umþóttunar.
Íslendingar taka þátt í smíði þessara staðla. Rafrænir reikningar eru nú þegar í notkun hérlendis og reynt er að tryggja að sú fjárfesting haldi sér sem best. Töluverð reynsla liggur fyrir nú þegar og margir kannast við skammstafanirnar CEN/BII og NES/UBL.
Í Evrópu er leitað leiða til að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum við að framfylgja tilskipun 2014/55/EU um rafrænan reikning. Í smíðum er forrit, sem yfirfer gögn og greinir hvort þau séu rétt. Forrit þetta er þróað í samvinnu við sem flesta notendur og hagsmunaaðila. Öllum er velkomið að taka þátt í þessari þróunarvinnu.
Sjóður fyrir samtengda Evrópu (CEF) auðveldar samræmingu og samtengingu á milli Evrópulanda. Stefnt er að hnökralausum rafrænum viðskiptum um alla álfuna. Sjóður þessi kostar þróun samræmingarforritsins, en Matthieu Mayerus frá Wavestone fyrirtækinu kemur fram sem fulltrúi CEF og býður til samstarfs um þróun forritsins.
CEF Digital nefnist sá armur sjóðsins, sem snýr að rafrænni auðkenningu, rafrænni afhendingu, rafrænum reikningum, rafrænni undiritun og rafrænni þýðingu. CEF Digital gefur þátttakendum kost á að skrá sig á öruggan hátt inn á ákveðið vinnusvæði, sem er í þróun. Svæðið nefnist ECAS (EC Access Services).
Nánar á: http://icepro.is/Pages/NewsInfo.aspx?id=224
ICEPRO veitir fúslega frekari upplýsingar um þetta samstarf.