Drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um nauðungarsölu til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá ráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu (nr. 90/1991) sem taka til réttarstöðu leigutaka og fyrningar krafna í kjölfar nauðungarsölu á húseign. Unnt er að veita ráðuneytinu umsögn um frumvarpsdrögin til og með 20. febrúar og skulu umsagnir sendar á netfangið [email protected].
Frumvarp þetta er samið á vegum réttarfarsnefndar að tilhlutan innanríkisráðherra. Með því eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um nauðungarsölu. Annars vegar er lagt til að réttarstaða leigutaka að íbúðarhúsnæði verði styrkt. Hafa Neytendasamtökin vakið athygli á því að réttarstaða leigjenda og eigenda fasteignar sem seld er nauðungarsölu sé ójöfn við þessar aðstæður. Hins vegar er lagt til að lögfestur verði skammur fyrningarfrestur þeirra krafna sem ekki verður fullnægt með söluandvirði eignar við nauðungarsölu.
Breytingin er lögð til í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila. Samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi var velferðarráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu falið að kanna hvernig gera mætti eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stendur ekki undir.