Hoppa yfir valmynd
21. september 2016 Innviðaráðuneytið

Framlög og gjöld Jöfnunarsjóðs rúmur 41 milljarður króna árið 2015

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fór fram í dag í Reykjavík og hófst með ávarpi Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Þá var flutt skýrsla um starfsemi sjóðsins á síðasta ári og reikningar kynntir. Þá kynnti Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um styrkingu sveitarstjórnarstigsins, verkefnið staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga og Þórunn M. Óðinsdóttir stjórnunarráðgjafi fjallaði um straumlínustjórnun.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra ávarpaði fundinn í upphafi minnti á að starfsemi Jöfnunarsjóðs væri mjögþýðingarmikil fyrir sveitarfélög landsins sem sæist best á því að framlög sjóðsins til sveitarfélaga hefðu á síðasta ári numið tæpum 39 milljörðum króna og sagði síðan: 

,,Þegar við horfum á þessa fjárhæð sjáum við líka að það er afar þýðingarmikið að reglur Jöfnunarsjóðs um jöfnun tekna sveitarfélaga og úthlutun framlaga til verkefna séu í senn réttlátar og jafni aðstöðumun sveitarfélaga. Við þurfum að ráðstafa þessum fjármunum eins skynsamlega og okkur er unnt – eins og á reyndar við um alla fjármuni sem við höndlum með hjá ríkissjóði.

Það er hins vegar ekkert sjálfgefið að við séum að öllu leyti sammála um allar reglur um úthlutun framlaga og hvaða verkefnum Jöfnunarsjóður á að sinna. Breytingar á regluverkinu hafa verið umfjöllunarefni hjá Jöfnunarsjóði og ráðgjafarnefndinni mörg undanfarin ár eins og þið þekkið og nefndir og starfshópar hafa unnið ómælt starf við að setja fram hugmyndir og reiknilíkön. Við höfum fengið ýmsar tillögur um breytt regluverk og nýja hugmyndafræði,“ sagði ráðherra og greindi frá skipan nefndar sem hefur það hlutverk að setja fram endanlegar tillögur um fyrirkomulag nýrra aðferða við jöfnun á útgjaldaþörf og tekjumöguleikum sveitarfélaga. Nefndin mun einkum vinna með drög að líkani sem síðasti starfshópur skilaði fyrir nokkru.

Þá minnti ráðherra á þann góða árangur sem verið hefði hjá sveitarfélögunum í þjónustu þeirra við fatlað fólk eftir að málaflokkurinn var fluttur til þeirra frá ríkinu 2011. Mat á árangri sýndi að bæði faglega og fjárhagslega hefðu sveitarfélögunum tekist að ná markmiðum um bætta og einstaklingsmiðaðri þjónustu við fatlað fólk og að þau hefðu lagt sig fram um að sinna þessari þjónustu af ábyrgð og fagmennsku.

Í lok ræðu sinnar þakkaði ráðherra Elínu Pálsdóttur, forstöðumanni Jöfnunarsjóðs frá árinu 1990, en hún hefur nú látið af því starfi og tóku fundarmenn undir þakkir hennar með því að rísa úr sætum og lófaklappi. Í framhaldinu þakkaði Elín fyrir sig með nokkrum orðum.

Guðni Geir Einarsson, sem tók við starfi Elínar Pálsdóttur, flutti skýrslu um starf Jöfnunarsjóðs á síðasta ár og fór yfir reikninga. Kom fram að alls hefðu framlög til sjóðsins numið rúmum 42 milljörðum á síðasta ári og framlög og gjöld sjóðsins numið 41,6 milljörðum króna.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um styrkingu sveitarstjórnarstigsins, kynnti verkefnið staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga sem innanríkisráðherra setti nýlega af stað með skipan vinnuhóps. Fjallaði hún meðal annars um hvort jarðvegur væri fyrir frekari sameiningar sveitarfélaga og nefndi dæmi um þreifingar milli nokkurra sveitarfélaga. Þá ræddi hún einnig mögulegt samstarf sveitarfélaga og varpaði því fram hvort íbúar hefðu minna um samstarf sveitarfélaga að segja heldur en mögulegar sameiningar. Boðaði hún að framundan væru heimsóknir til landshlutasamtaka sveitarfélaga til að ræða um þessi mál. Þórunn M. Óðinsdóttir stjórnunarráðgjafi fjallaði síðan um straumlínustjórnun og kynnti helstu atriði hugmyndafræði hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta