Ísland meðflutningsríki ályktunar um að Palestína fái stöðu áheyrnarríkis hjá SÞ
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að Ísland verði meðflutningsríki ályktunar um að Palestína fái stöðu áheyrnarríkis hjá Sameinuðu þjóðunum. Ályktunin verður lögð fram til atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi SÞ á morgun, 29. nóvember.
Utanríkisráðherra segir að með því að gerast meðflutningsríki undirstriki Ísland þá stefnu sem mörkuð hefur verið af ríkisstjórninni um að Ísland verði í fararbroddi þeirra ríkja sem styðja baráttu Palestínumanna fyrir sjálfstæði. Hann segir jafnframt að ákvörðunin sé rökrétt framhald af samhljóða viðurkenningu Alþingis á fullveldi Palestínu fyrir réttu ári. „Við styðjum ályktunina af fullum þunga, en teljum jafnframt að Palestína eigi að fá sæti við borðið sem fullgilt aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum. Meðflutningur okkar styrkir þennan málstað Palestínumanna enn frekar“ segir utanríkisráðherra.
Ályktunin er í takt við fyrri samþykktir Sameinuðu þjóðanna og mikilvægust þeirra er ákvörðun allsherjarþingsins frá 1947 sem kveður á um tveggja ríkja lausnina. Ísland hefur ávallt talað fyrir friði í Mið-Austurlöndum og styður tveggja ríkja lausnina. Með breiðum stuðningi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna geta orðið þáttaskil í friðarumleitunum. Sameinuðu þjóðirnar hafa þar lykilhlutverki að gegna.
Ísland viðurkenndi fullveldi og sjálfstæði Palestínu við hátíðlega athöfn hinn 15. desember 2011. Þingsályktun þess efnis var samþykkt af Alþingi á samstöðudegi Palestínumanna hinn 29. nóvember í fyrra. „Alþingi sýndi þessum málstað mikinn skilning og fullveldisviðurkenning Íslands var samþykkt með lofsverðri samstöðu. Stuðningur okkar við Palestínumenn núna er rökrétt framhald þeirrar sögulegu stundar þegar Alþingi samþykkti viðurkenninguna mótatkvæðalaust“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.