Hoppa yfir valmynd
14. mars 2008 Forsætisráðuneytið

A 277/2008 Úrskurður frá 11. mars 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 11. mars 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-277/2008.


Kæruefni og málsmeðferð

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál 3. desember 2007, kærði [...] synjun Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni hans um aðgang að upplýsingum um mánaðarlaun [X] og [Y] fyrir septembermánuð 2007.
Með bréfi, dags. 3. desember 2007, var kæran kynnt Ríkisútvarpinu ohf. Umsögn þess barst nefndinni með bréfi, dags. 17. sama mánaðar, ásamt afriti af launaseðlum áðurnefndra starfsmanna Ríkisútvarpsins, þeirra [X] og [Y], fyrir septembermánuð 2007. Kæranda var með bréfi, dags. 18. desember, veittur frestur til 8. janúar 2008 til að tjá sig um umsögn hlutafélagsins. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi innan þess frests. Úrskurðar¬nefndin ritaði Ríkisútvarpinu ohf. á ný bréf, dags. 12. febrúar 2008, þar sem óskað var eftir afstöðu fyrirtækisins til tveggja tilgreindra atriða. Svar Ríkisútvarpsins ohf. barst með bréfi, dags. 27. sama mánaðar. Með bréfi því fylgdu afrit af ráðningar¬samningum þeirra [X] og [Y] ásamt yfirlýsingum þeirra tveggja þar sem því var mótmælt að aðgangur yrði veittur að umbeðnum upplýsingum um laun þeirra og launakjör.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvupósti 14. nóvember 2007 til Ríkisútvarpsins ohf. fór kærandi fram á aðgang að upplýsingum um mánaðarlaun tveggja fyrrnefndra starfsmanna fyrirtækisins. Kæranda var synjað um þessa beiðni með tölvupósti útvarpsstjóra frá 19. nóvember. Kemur þar fram að beiðninni sé hafnað „m.a. á grundvelli 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga“.
Í fyrri umsögn Ríkisútvarpsins ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. desember 2007, er áréttað að synjunin hafi byggst á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, en í því ákvæði segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Í umsögninni kemur fram að yrðu umbeðnar upplýsingar um launakjör gerðar aðgengilegar almenningi hefðu samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins ohf. nákvæmar upplýsingar um þau kjör sem fyrirtækið veitir lykilstarfsmönnum. Segir í þessu sambandi að félagið „yrði bersýnilega sett í nánast ómögulega aðstöðu gagnvart samkeppnis¬aðilum í samkeppninni um hæfa starfsmenn“. Ríkisútvarpið ohf. vísar í umsögninni jafnframt til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli A-184/2004, þar sem staðfest var synjun Ríkisútvarpsins um aðgang að rekstrarreikningi vegna fyrsta ársfjórðungs 2004 og greinargerð frá forstöðumanni textavarps um spjallsíður textavarpsins, notkun síðnanna og tekjur af þeim. Byggðist sú niðurstaða á samkeppnishagsmunum stofnunarinnar.
Með bréfi, dags. 12. febrúar 2008, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari afstöðu Ríkisútvarpsins ohf. til tveggja tilgreindra atriða. Annars vegar óskaði nefndin eftir nánari skýringum á samkeppnislegri stöðu Ríkisútvarpsins ohf. og þá hvort þeir starfsmenn sem beiðni kæranda lyti að störfuðu við verkefni hjá fyrirtækinu sem teldust til samkeppnisreksturs. Hins vegar óskaði nefndin eftir afstöðu fyrirtækisins til þess hvort 5. gr. upplýsingalaga stæði í vegi fyrir því að veittur yrði aðgangur að umbeðnum upplýsingum, þ.e. á grundvelli einkahagsmuna viðkomandi starfsmanna, en að því atriði hafði ekki verið vikið í fyrri umsögn Ríkisútvarpsins ohf.
Í síðari umsögn Ríkisútvarpsins ohf., dags. 27. febrúar, kemur fram sú afstaða að það sé hafið yfir allan vafa að tiltekin starfsemi sem talin sé til útvarpsþjónustu í almannaþágu í skilningi 3. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., sé í beinni samkeppni við aðra aðila á markaði. Eigi það ekki síst við um almenna og hlutlæga fréttaþjónustu, sbr. 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna, og framleiðslu og dreifingu útvarpsefnis fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar, sbr. 3. tölul. sömu lagagreinar. Slík starfsemi teljist til samkeppnis¬reksturs í skilningi 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga og þeir starfsmenn sem upplýsinga¬beiðni kæranda lúti að starfi við slíka starfsemi, sbr. þá starfslýsingu sem fram komi í ráðningar¬samningum þeirra.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hér ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir atvikum málsins eða greina með ítarlegri hætti frá þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið af hálfu kæranda og kærða. 

 


Niðurstaða

1.
Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að þau taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að lögin taki til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Segir í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga að lögin gildi að öðru leyti ekki um einkaaðila, en undir það hugtak falli m.a. „félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu“.
Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í opinberri eigu samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2007.  Vegna sérákvæðis 12. gr. laganna, þar sem sérstaklega er tekið fram að upplýsingalög nr. 50/1996 gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., liggur þó fyrir að upplýsingalögin gilda engu að síður um aðgang almennings að gögnum í fórum Ríkisútvarpsins. Hið sama á við um ákvæði laganna um rétt þess sem upplýsinga óskar til að beina kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 14. gr. laganna. Í málinu liggur fyrir synjun Ríkisútvarpsins ohf. á beiðni um aðgang að upplýsingum. Með vísan til þess og atvika máls að öðru leyti er kæru því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Felur þetta ákvæði í sér meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda. Þær upplýsingar sem beiðni kæranda beinist að tengjast ekki sérstökum hagsmunum hans umfram aðra. Um rétt hans til upplýsinga fer því að umræddri reglu 3. gr. upplýsingalaganna um upplýsingarétt almennings.

 

2.
Í fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga kemur fram sú takmörkun á hinum almenna upplýsingarétti skv. 3. gr. laganna að óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.
Beiðni kæranda um upplýsingar beinist að launakjörum tiltekinna starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu ohf. Slíkar upplýsingar um málefni einstaklinga teljast eðli máls samkvæmt til upplýsinga um fjárhagsmálefni þeirra. Samkvæmt skýrri og fastmótaðri framkvæmd á upplýsingalögum, sem jafnframt á sér stoð í athugasemdum sem fylgdu umræddri grein í frumvarpi til upplýsingalaga, hafa 3. og 5. gr. laganna verið skýrðar svo að sé óskað aðgangs að gögnum um laun opinberra starfsmanna skuli veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum þar sem fram koma föst launakjör viðkomandi starfsmanna, þ.á m. að einstaklingsbundnum ráðningar¬samningum eða öðrum ákvörðunum eða samningum um föst launakjör þeirra. Á hinn bóginn er, vegna ákvæðis 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga, óheimilt að veita aðgang að upplýsingum um heildarlaun opinbers starfsmanns, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör, sem stöðu hans fylgja, t.d. vegna unninnar yfirvinnu eða þá lægri launa vegna frádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika. Vísast hér meðal annars til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-214/2005, A-183/2004, A-68/1997, A-27/1997 og A-10/1997. Jafnframt vísast til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5103/2007. Með vísan til framangreinds verður til að mynda að telja að oftast eigi almenningur ekki rétt til aðgangs að launaseðlum einstakra starfsmanna nema samþykki þeirra liggi fyrir, enda koma þar iðulega fram meiri upplýsingar um einkamálefni viðkomandi starfsmanna en þær sem beinlínis lúta að föstum launakjörum þeirra.
Í máli þessu hefur Ríkisútvarpið ohf. fyrst og fremst byggt synjun um aðgang að upplýsingum á samkeppnishagsmunum hlutafélagsins, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Í síðari umsögn fyrirtækisins í málinu, dags. 27. febrúar 2008, kemur þó einnig fram að það telji að umbeðnar upplýsingar um launakjör þeirra starfsmanna sem um ræðir teljist til einka- og fjárhagsmálefna þeirra sem eðlilegt sé að leynt fari, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Með vísan til þess verður hér fyrst leyst úr því hvort heimilt hafi verið að synja umræddri beiðni um upplýsingar á grundvelli samkeppnishagsmuna Ríkisútvarpsins ohf. Það fer eftir niðurstöðu þeirrar umfjöllunar hvort jafnframt er nauðsynlegt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort skylt sé að hafna umbeðnum aðgangi á grundvelli einkahagsmuna þeirra starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. sem um ræðir.

 

 3.
Í upphafi 6. gr. upplýsingalaga segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda geymi þau upplýsingar um eitthvert þeirra atriða sem upp eru talin í 1.-5. tölul. greinarinnar. Af ákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga leiðir að heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almanna¬hagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um: „viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra“.
Í athugasemdum sem fylgdu tilvitnaðri grein í frumvarpi til upplýsingalaga segir að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ sé vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Hver töluliður sæti sjálfstæðri skýringu með tilliti til eðlis þeirra upplýsinga sem um ræðir. Um skýringu á 3. tölul. sérstaklega segir að markmið frumvarpsins sé meðal annars að gefa almenningi og fjölmiðlum færi á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum sé varið. Óheftur réttur til upplýsinga geti á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum sé lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona hátti til. Síðan segir orðrétt: „Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar né heldur ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.“
Af framangreindu leiðir að til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 3. tölul. 6. gr. laganna verður a.m.k. þremur eftirtöldum skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 3. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umræddum upplýsingum.
Ekki er því nægjanlegt að samkeppnishagsmunir viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar hins opinbera kunni að skaðast við það að aðgangur sé veittur að þeim upplýsingum sem um ræðir. Mikilvægt er að einnig fari fram mat á slíkum hagsmunum andspænis þeim almennu hagsmunum og tilgangi upplýsingalaga að gefa m.a. almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um ráðstöfun opinberra fjármuna.

 

4.
Í athugasemdum Ríkisútvarpsins ohf. í máli þessu kemur fram sú afstaða að yrðu þær upplýsingar sem óskað hefur verið aðgangs að í máli þessu gerðar opinberar hefðu samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins ohf. nákvæmar upplýsingar um þau kjör sem fyrirtækið veiti lykilstarfsmönnum. Yrði félagið „bersýnilega sett í nánast ómögulega aðstöðu gagnvart samkeppnis¬aðilum í samkeppninni um hæfa starfsmenn“.
Um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. gilda ákvæði laga nr. 6/2007. Í 1. mgr. 3. gr. þeirra segir að hlutverk þess sé rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögunum. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er síðan upp talið í 13 töluliðum hver sú starfsemi sé sem teljist útvarpsþjónusta í almannaþágu. Er þar meðal annars upp talið að undir slíka þjónustu falli m.a. „senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring“, sbr. 2. tölul. ákvæðisins. Þá kemur fram í 3. tölul. að hér undir falli að „framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar.“ Um aðra starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. en útvarpsþjónustu í almannaþágu er fjallað í 4. gr. laganna. Þar kemur hins vegar ekki fram nákvæm útlistun á þeim verkefnum sem þar falli undir. Í 5. gr. laganna kemur fram að halda skuli „fjárreiðum alls reksturs, sem ekki fellur undir útvarp í almannaþágu, aðskildum frá fjárreiðum reksturs vegna útvarps í almannaþágu skv. 3. gr.“. Segir þar enn fremur að félaginu sé óheimilt að nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað vegna annarrar starfsemi, „þar á meðal starfsemi sem telst vera samkeppnisrekstur“.
Í almennum hluta athugasemda sem fylgdu frumvarpi því sem síðan var samþykkt sem lög nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., eru upp talin í nokkrum töluliðum svonefnd meginatriði frumvarpsins. Segir þar m.a.: „Mælt er fyrir um fjárhagslegan aðskilnað þess reksturs sem fellur undir útvarp í almannaþágu, sbr. 3. gr., og alls annars reksturs, þar á meðal nýrrar starfsemi sem félagið kann að fara út í eitt sér eða með öðrum og rekstur sem telja má samkeppnisrekstur og ekki fellur undir skilgreiningu um útvarp í almannaþágu.“ Í beinu framhaldi segir jafnframt svo: „Lögð er sú skylda á Ríkisútvarpið ohf. að gera grein fyrir því í ársskýrslu til aðalfundar hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur félagsins um útvarp í almannaþágu. Í ljósi þess að Ríkisútvarpinu ohf. er ætlað að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem er í eðli sínu opinber þjónusta, kveður frumvarpið á um að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Með því er tryggt að almenningur geti fengið aðgang að gögnum mála hjá því í samræmi við ákvæði laganna.“
Í tilvitnuðum athugasemdum er einnig fjallað stuttlega um formbreytingu á rekstri Ríkisútvarpsins og fjárhagslegan aðskilnað, eins  og það er nefnt. Segir þar m.a. um ástæðu þess að hlutafélagsformið hafi verið valið að það hafi þótt „henta mun betur til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um fjárhagslegan aðskilnað almannaútvarps frá samkeppnisrekstri.“ Stuttu síðar segir jafnframt svo í athugasemdunum: „Þá þarf hið nýja hlutafélag að skilja á milli fjárhags þess hluta starfseminnar sem fellur undir skilgreiningu 3. gr. um útvarp í almannaþágu og þess hluta starfseminnar sem fellur ekki undir þessa skilgreiningu og er jafnvel í beinni samkeppni við aðra aðila, sbr. 4. og 5. gr. Hins vegar getur sum starfsemi eða þjónusta verið þess eðlis að hún fellur undir skilgreininguna um útvarp í almannaþjónustu en er jafnframt í samkeppni við aðra aðila. Verður t.d. að telja netþjónustu Ríkisútvarpsins rúmast innan hugtaksins útvarp í almannaþágu skv. 3. gr. en sjálfsagt getur það breyst í tímans rás hvers konar rekstur verður almennt talinn geta flokkast undir útvarpsþjónustu í almannaþágu. Ekki má nota fjármuni frá rekstri skv. 3. gr. til þess að greiða niður kostnað af rekstri sem ekki flokkast undir útvarp í almannaþágu.“
Með vísan til framanrakinna ákvæða í lögum nr. 6/2007 og athugasemda sem fylgdu frumvarpi til þeirra laga verður ekki útilokað að rekstur og starfsemi sú sem fram fer á vegum Ríkisútvarpsins ohf. sé á margvíslegan hátt í samkeppni við aðra aðila í skilningi 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, t.d. þá aðila hér á landi sem reka útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar. Vísast hér m.a. til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A-183/2004.  Eiga þau sjónarmið sem þar eru rakin enn að mestu leyti við um stöðu Ríkisútvarpsins ohf. gagnvart upplýsingalögum, þrátt fyrir þá breytingu sem varð á hlutverki og rekstrarformi fyrirtækisins með gildistöku laga nr. 6/2007. Gildir þetta óháð því hvort sú starfsemi Ríkisútvarpsins sem um ræðir telst útvarpsþjónusta í almannþágu eða annars konar starfsemi. Það er á hinn bóginn nauðsynlegt að hafa hliðsjón af þeirri sérstöðu Ríkisútvarpsins ohf. sem leiðir af því lögbundna hlutverki þess að reka útvarpsþjónustu í almannaþágu þegar leyst er úr því hvort unnt sé að rökstyðja synjun um aðgang að gögnum í vörslum hlutafélagsins með vísun til 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaganna. Verður í því sambandi heldur ekki fram hjá því litið að rekstur Ríkisútvarpsins ohf. er ekki að öllu leyti sambærilegur rekstri annarra fjölvakamiðla að því leyti að tekjustofnar þess eru lögbundnir og byggja í grundvallaratriðum á heimildum hins opinbera til skatttöku.
Á grundvelli framangreinds verður að telja að upplýsingar um launakjör þeirra tveggja stjórnenda hjá Ríkisútvarpinu ohf. sem sú beiðni sem hér er til umfjöllunar beinist að séu upplýsingar sem tengjast starfsemi fyrirtækisins sem sé í samkeppni við aðra aðila, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Ekki verður á hinn bóginn talið að rekstrar- eða samkeppnislegir hagsmunir Ríkisútvarpsins ohf. af því að halda umræddum upplýsingum leyndum séu svo ríkir að þeir réttlæti undanþágu frá meginreglu 3. gr. upplýsingalaganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda og annarra aðila sem bundnir eru af ákvæðum upplýsingalaga. Verður hér einnig að líta til þess, m.a. með hliðsjón af þeim tekjustofnum sem starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. byggist á, að upplýsingar um launakjör starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. eru í eðli sínu upplýsingar um ráðstöfun opinberra fjármuna sem a.m.k. að stórum hluta eiga uppruna sinn í skatttekjum hins opinbera.
Með vísan til þessa verður aðgangi að umbeðnum upplýsingum ekki synjað á grundvelli samkeppnishagsmuna Ríkisútvarpsins ohf., sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

5.
Eins og áður er fram komið segir svo í 5. gr. upplýsingalaga: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Eins og nánar er rakið í kafla IV.2. í úrskurði þessum hefur úrskurðarnefnd skýrt ákvæðið svo, þegar óskað er eftir upplýsingum um laun opinberra starfsmanna, að aðgangur skuli veittur að upplýsingum um föst laun og launakjör þeirra, þ. á m. að einstaklings¬bundnum ráðningarsamningum og öðrum slíkum samningum. Á hinn bóginn eigi almenningur ekki rétt á að fá upplýsingar um það hverjar heildargreiðslur hver starfsmaður hafi fengið fyrir störf sín.
Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í þessu máli að aðgangi að umbeðnum upplýsingum um launakjör tveggja tilgreindra starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. verði ekki synjað á grundvelli samkeppnishagsmuna fyrirtækisins, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Á þeim grundvelli og með vísan til þess sem að framan er sagt um 5. gr. upplýsingalaga telur úrskurðarnefndin að Ríkisútvarpinu ohf. sé skylt að veita kæranda aðgang að ráðningarsamningum þeirra [X] og [Y], en í þeim koma fram upplýsingar um föst ráðningarkjör þessara tveggja starfsmanna. Samningur [X] er dags. 26. mars 2007 en samningur [Y] 2. apríl það sama ár. Ríkisútvarpinu ohf. ber þó, með vísan til 5. gr. upplýsingalaga, sbr. 7. gr. sömu laga, að afmá þær upplýsingar sem fram koma í grein 4 í umræddum samningum áður en afrit þeirra eru látin af hendi.

 


Úrskurðarorð

Ríkisútvarpið ohf. skal veita kæranda, [...], aðgang að ráðningarsamningi fyrirtækisins við [X], dags. 26. mars 2007, að undanskildum þeim upplýsingum sem fram koma í 4. grein samningsins.

Ríkisútvarpið ohf. skal jafnframt veita kæranda aðgang að ráðningarsamningi fyrirtækisins við [Y], dags. 2. apríl 2007, að undanskildum þeim upplýsingum sem fram koma í 4. grein samningsins.

 

 

 

 

Friðgeir Björnsson
formaður

 

 

 

 

                                               Sigurveig Jónsdóttir                                     Trausti Fannar Valsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta