Hoppa yfir valmynd
27. maí 2008 Forsætisráðuneytið

A-277/2008C Úrskurður frá 5. maí 2008

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 5. maí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-277/2008C.

 

Beiðni um endurupptöku

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst hinn 26. mars 2008 erindi [X] hrl. fyrir hönd þeirra [A] og [B]. Er þess þar krafist að mál nr. A-277/2008, sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar 11. mars, verði endurupptekið og að nýju kveðinn upp úrskurður í málinu að lokinni löglegri meðferð þess.

 

Samkvæmt úrskurðinum frá 11. mars er Ríkisútvarpinu ohf. skylt að veita [C] aðgang að ráðningarsamningum sem það gerði annars vegar við [B] 26. mars  2007 og hins vegar við [A] 2. apríl 2007, að undanskildum upplýsingum sem fram koma í 4. gr. samninganna. Tilefni úrskurðarins var kæra [C] á þeirri ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. að synja honum um aðgang að upplýsingum um laun nefndra starfsmanna í septembermánuði 2007.

 

Með úrskurði uppkveðnum 18. mars 2008 synjaði úrskurðarnefndin kröfu Ríkisútvarpsins ohf. frá 13. s.m. um að réttaráhrifum úrskurðarins frá 11. mars yrði frestað.

 

Í beiðni [X] hrl. um endurupptöku málsins kemur fram að efni umræddra ráðningarsamninga varði persónuleg réttindi umbjóðenda hans sem njóti verndar samkvæmt lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónu­upplýsinga, sbr. og ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Telur lögmaðurinn að úrskurðarnefndin hefði átt að gæta þess að eigin frumkvæði að umbjóðendur hans, starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf., hefðu aðilastöðu í málinu við úrlausn þess. Þetta hafi nefndin ekki gert og þar með ekki gætt „grundvallarreglna stjórnsýsluréttar um upplýsinga- og andmælarétt, svo og um leiðbeiningarskyldu og rannsókn máls“. Telur lögmaðurinn þetta fela í sér að úrskurður úrskurðar­nefndarinnar í máli A-277/2008 sé haldinn verulegum annmörkum og fullnægi ekki almennum stjórnsýslureglum. Séu því skilyrði til endurupptöku máls fyrir hendi, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

 

Málsmeðferð

Úrskurðarnefndin gaf [C] kost á að gera athugasemdir við ofangreinda endurupptökubeiðni. Athugasemdir hans bárust með bréfi [Y] hdl., dags. 31. mars 2008.

 

Með bréfi, dags. 3. apríl, veitti úrskurðarnefndin Ríkisútvarpinu ohf. færi á að láta í ljósi afstöðu til endurupptökubeiðninnar og athugasemda [Y] hdl. Athugasemdir Ríkisútvarpsins ohf. bárust með bréfi [Z] hrl., dags. 10. sama mánaðar.

 

Í athugasemdum lögmanns Ríkisútvarpsins ohf. er á það bent að við meðferð máls A-277/2008 hafi úrskurðarnefndin með bréfi, dags. 12. febrúar 2008, óskað eftir því að Ríkisútvarpið ohf. tjáði sig um það, með hliðsjón af einkahagsmunum þeirra starfsmanna sem um ræddi, hvort heimilt væri að láta af hendi upplýsingar um launakjör þeirra. Í framhaldinu hafi úrskurðarnefndinni verið sent bréf þar sem lýst var þeirri skoðun að umræddar upplýsingar teldust til einka- og fjárhagsmálefna sem  eðlilegt væri að leynt færu. Voru nefndinni jafnframt sendar yfirlýsingar þeirra starfsmanna sem í hlut áttu þar um. Lögmaður Ríkisútvarpsins ohf. áréttar í athugasemdum sínum að með umræddu bréfi hafi Ríkisútvarpið ohf. ekki gætt réttarhagsmuna umræddra starfsmanna sem slíkra. Ríkisútvarpið ohf. hafi þannig ekki verið í neinu fyrirsvari fyrir umrædda starfsmenn í málinu. Segir ennfremur að það sé mat Ríkisútvarpsins ohf. að nefndin hefði átt að snúa sér beint til umræddra starfsmanna og gefa þeim kost á að gæta réttar síns. Það sé hlutverk nefndarinnar en ekki Ríkisútvarpsins ohf.

 

Lögmaður Ríkisútvarpsins ohf. tekur jafnframt fram að hann telji að í máli A-277/2008B hefði jafnframt átt að veita umræddum starfsmönnum aðilastöðu, en eins og fyrr segir var kveðinn upp úrskurður í því máli 18. mars 2008, þar sem synjað var  frestun á réttaráhrifum úrskurðar í máli A-277/2008. Með vísan til þessara sjónarmiða tekur lögmaður Ríkisútvarpsins ohf. undir kröfu [X] hrl. um endurupptöku úrskurðarins frá 11. mars 2008.

 

Niðurstaða

Í upplýsingalögum nr. 50/1996 er á því byggt að ákvörðun stjórnvalds, eða annarra aðila sem falla undir lögin, um aðgang að gögnum á grundvelli II. kafla upplýsingalaga teljist ákvörðun um rétt og skyldu þess er óskað hefur aðgangs. Meðferð slíks máls lýtur því ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hið sama á við um meðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál á kærum og eftir atvikum öðrum erindum sem henni berast á grundvelli upplýsingalaga, s.s. eins og þess erindis sem hér er til meðferðar. Verður þetta meðal annars ráðið af ákvæðum 11. og 16. gr. laganna. Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá hefur verið talið að aðili máls geti átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum, s.s. ef fyrir liggja verulegir annmarkar á meðferð máls, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2485/1998 og máli nr. 2370/1998.

 

Í máli þessu liggur fyrir beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-277/2008. Þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að veita skyldi aðgang að tilteknum ráðningarsamningum Ríkisútvarpsins ohf. við tvo tilgreinda starfsmenn fyrirtækisins. Það eru þeir starfsmenn sem standa að endurupptökubeiðninni sem hér er til úrlausnar. 

 

Hvorki er í upplýsingalögunum sjálfum né greinargerð sem fylgdi frumvarpi til þeirra laga með beinum hætti fjallað um aðild að málum sem varða rétt almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt lögunum. Í stjórnsýslulögum er heldur ekki skilgreint hver telst aðili stjórnsýslumáls. Ekki virðist heldur um það að ræða að tæmandi skilgreiningu hugtaksins sé að finna í dómum eða álitum umboðsmanns Alþingis. Í dómi Hæstaréttar frá 14. mars 2008, í máli nr. 114/2008, var talið að sóknaraðilar hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta við að fá úr því skorið hvort tiltekinn úrskurður umhverfisráðherra væri gildur að lögum. Taldi Hæstiréttur að um aðild að dómsmálinu færi að almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti máli að lögum fyrir aðilana að fá dóm um það.

 

Þótt í upplýsingalögunum sjálfum sé ekki með beinum hætti fjallað um aðild að málum sem varða rétt almennings til aðgangs að gögnum, leiðir engu að síður af ákvæðum laganna að það er hlutverk stjórnvalda að taka afstöðu til þess að eigin frumkvæði hvort heimilt sé að afhenda gögn sem óskað hefur verið aðgangs að. Það ræðst af efni viðkomandi gagna og túlkun viðeigandi lagareglna hvort heimilt sé að láta þau af hendi. Skylda stjórnvalda að þessu leyti er lögbundin og breytist til að mynda ekki með því að stjórnvald heiti viðkomandi því að með upplýsingar verði farið í trúnaði. Lögin leggja samkvæmt efni sínu þær skyldur og þá ábyrgð á herðar stjórnvalda að framfylgja lögunum, þar á meðal að ekki sé veittur aðgangur að upplýsingum um einkamálefni einstaklinga sem eðlilegt er og sanngjarnt að leynt fari, sbr. 5. gr. laganna. Stjórnvöldum er hins vegar skylt að láta af hendi gögn er kunna að varða málefni einstaklinga sé réttur þeirra ekki varinn af ákvæðum 5. gr. laganna, enda falli þá viðkomandi gögn undir ákvæði laganna að öðru leyti. Afstaða þess einstaklings sem málefnið kann að varða með einhverjum hætti getur því ekki breytt lögbundinni skyldu stjórnvalda samkvæmt upplýsingalögunum. Ef synjun um aðgang að upplýsingum er síðan borin undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, er það hlutverk hennar að skera úr um það hvort hún sé lögmæt eða ekki.

 

Með vísan til þess sem að framan er sagt, verður ekki á það fallist að einstaklingar eða lögaðilar sem upplýsingar kunna að varða geti við meðferð þeirra mála sem undir upplýsingalögin falla átt aðild að ákvörðunum um það hvort stjórnvöldum sé lögskylt eða ekki að veita aðgang að gögnum í þeirra vörslu. Þetta breytir hins vegar ekki því að sá einstaklingur sem telur sig eiga lögvarða  hagsmuni af því að haldið sé leyndum gögnum sem stjórnvaldi er talið skylt að láta af hendi samkvæmt upplýsingalögunum getur, að fenginni niðurstöðu stjórnvalds eða úrskurðarnefndar um upplýsingamál, látið á þá hagsmuni reyna fyrir dómstólum, sbr. til hliðsjónar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í dómi í máli nr. 366/2007 sem kveðinn var upp 23. apríl sl.

 

 Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar er sú að [A] og [B], umbjóðendur [X] hrl. sem lagt hefur fram þá endurupptökubeiðni sem hér er til afgreiðslu, áttu samkvæmt framangreindu ekki aðild að máli úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-277/2008. Þau geta því heldur ekki átt aðild að endurupptökumáli vegna þess úrskurðar fyrir úrskurðarnefndinni. Ber því að vísa endurupptökubeiðninni frá.

 

Úrskurðarorð

Beiðni [X] hrl., frá 26. mars 2008, fyrir hönd þeirra [A] og [B], um endurupptöku á máli úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. úrskurð í máli A-277/2008, frá 11. mars 2008 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 Friðgeir Björnsson,

formaður,

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                    Trausti Fannar Valsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta