Hoppa yfir valmynd
27. maí 2008 Forsætisráðuneytið

A 278/2008 Úrskurður frá 5. maí 2008

ÚRSKURÐUR

Hinn 5. maí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-278/2008.

 

Kæruefni

Með kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 1. nóvember 2007, kærði [A] hrl., fyrir hönd [X], synjun Landspítala-háskólasjúkrahúss á beiðni um að fá afhent afrit af öllum samningum kærða við þrjár tilgreindar starfsmannaleigur og reikningum sem þær hefðu gert spítalanum. Í kærunni kom fram að kærði hefði svarað beiðni um aðgang að umræddum gögnum með bréfi, dags. 18. október 2007. Svarinu hefðu fylgt í ljósriti samningar við tvær af starfsmannaleigunum. Strikað hefði verið yfir öll tilgreind einingaverð í samningunum og bankanúmer fyrirtækjanna. Þá hefði verið hafnað að senda afrit af reikningum sem fyrirtækin hefðu gert spítalanum.

 

Telur kærandi að með því að honum hafi aðeins verið veittur takmarkaður aðgangur að samningunum og enginn aðgangur að umbeðnum reikningum hafi verið brotið gegn rétti hans til aðgangs að gögnum skv. upplýsingalögum nr. 50/1996. Krafa kæranda er sú að kærða verði gert að veita honum aðgang að umræddum samningum án þess að strikað sé yfir efni þeirra, með þeirri undantekningu að kærandi gerir ekki athugasemdir við að strikað verði yfir upplýsingar um bankareikningsnúmer samningsaðila spítalans. Jafnframt verði kærða gert að veita kæranda aðgang að reikningum sem þær starfsmannaleigur sem um ræðir hafi gert kærða.

 

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins fór lögmaður [X] þess á leit við kærða með bréfi, dags. 11. september 2007, að félaginu yrðu afhent afrit af öllum samningum spítalans við þrjár tilgreindar starfsmannaleigur, sem og aðrar leigur ef um þær væri að ræða, og öllum reikningum sem téðar starfsmannaleigur hefðu gert kærða. Með bréfi, dags. 17. september, tilkynnti Landspítali-háskólasjúkrahús kæranda að verið væri að kanna hvort einhverjir samningar hefðu verið gerðir beint af sviðsstjórum spítalans og yrðu þeir þá innkallaðir til yfirstjórnar. Að því loknu yrði tekin afstaða til erindisins.

 

Í bréfi spítalans til kæranda, dags. 28. september, kemur fram að í samningum við þær starfsmannaleigur sem um ræðir séu ákvæði um að þeim verði ekki dreift til utanaðkomandi aðila. Samningarnir geymi auk þess mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni hlutaðeigandi fyrirtækja sem óheimilt sé að veita aðgang að skv. 5. gr. upplýsingalaga. Þrátt fyrir þetta komi til greina að veita aðgang að samningum um sjúkraliðaþjónustu ef fallist verði á að strikað yrði yfir þann hluta samningsins sem tilgreini umsamið tímagjald.

 

Í svari lögmanns kæranda til kærða, dags. 3. október, er tillögunni hafnað og þess krafist að umræddir samningar verði afhentir án þess að strikað verði yfir upplýsingar um tímagjald.

 

Í bréfi kærða til kæranda, dags. 18. október, kemur fram að spítalinn hafi aðeins gert samninga við tvö af þeim þremur fyrirtækjum sem tilgreind voru í upphaflegri beiðni kæranda, nánar tiltekið við fyrirtækin [Y] ehf. og [Z] ehf. Í gildi séu sex samningar við annað þessara fyrirtækja en einn við hitt. Umræddir samningar fylgdu bréfinu, en með vísan til 5. gr. upplýsingalaga hafði þó verið strikað yfir upplýsingar um tímagjald sem fram komu í þeim. Á sömu forsendum var því hafnað að afhenda afrit þeirra reikninga sem umrædd fyrirtæki hefðu gert kærða. Í svarinu kemur enn fremur fram að samkvæmt bókhaldi Landspítala-háskólasjúkrahúss hafi verið gjaldfært á tímabilinu janúar til september 2007 kr. 23.974.956 vegna [Y] ehf. en kr. 78.872.353 vegna [Z] ehf.

 

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 5. nóvember, var kæran kynnt kærða, Landspítala-háskólasjúkrahúsi, og honum veittur frestur til 14. sama mánaðar til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að spítalinn léti úrskurðarnefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að. Bréf úrskurðarnefndar barst spítalanum ekki fyrr en 19. nóvember. Var því veittur lengri frestur til að bregðast við erindi nefndarinnar.

 

Umsögn kærða barst úrskurðarnefnd með bréfi, dags. 29. nóvember 2007. Kemur þar fram að beiðni kæranda hafi verið synjað á grundvelli síðari málsliðar 5. gr. upplýsingalaga. Upplýsingar um einingaverð veittrar þjónustu starfsmannaleiganna við kærða geti tvímælalaust orðið skaðlegar fyrirtækjunum samkeppnis- og rekstrarlega séð. Verði að telja að hagsmunir fyrirtækjanna vegi þyngra en hagsmunir kæranda þar sem samkeppnishæfni þeirra sé í húfi og þar sem ekki sé um að ræða grundvallarupplýsingar sem varði starfsemi kæranda og sem félagsmenn á hans vegum hafi mikla hagsmuni af að hafa undir höndum. Þá kemur fram í athugasemdum kærða að þess hafi að auki verið heitið að upplýsingar sem fyrirtækin hafi látið spítalanum í té verði ekki gerðar opinberar og séu trúnaðarmál sem aðeins varði kærða og þau fyrirtæki sem um ræðir. Umsögninni fylgdi afrit þeirra samninga sem beiðni kæranda lýtur að.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gaf kæranda kost á því með bréfi, dags. 3. desember, að gera athugasemdir við umsögn kærða. Bárust þær með bréfi, dags. 12. s.m. Eru þar áréttuð fyrri sjónarmið kæranda og til stuðnings kærunni vísað til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum A-206/2006 og A-268/2007.

 

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2008, fór úrskurðarnefndin þess á leit við kærða að veittar yrðu skýringar á því að fyrra bréfi til nefndarinnar, dags. 29. nóvember, hefðu ekki fylgt afrit þeirra reikninga sem kæranda hefði verið synjað um aðgang að. Þá óskaði nefndin einnig nánari rökstuðnings þess að kærði hefði synjað kæranda um aðgang að umræddum reikningum. Með vísan til 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 10. gr. sömu laga, og einnig með vísan til úrskurðarframkvæmdar nefndarinnar, sbr. m.a. úrskurð í máli A-260/2007, fór nefndin þess sérstaklega á leit við kærða að upplýst yrði hvort þeir reikningar sem um ræddi hefðu verið teknir til umfjöllunar eða meðferðar stofnunarinnar sem sérstakt mál eða í tengslum við önnur mál.

 

Svar kærða barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 13. mars. Bréfi því fylgdu afrit umbeðinna reikninga. Í bréfinu kemur ennfremur fram að auk áðurnefndra röksemda vísi kærði til þess að utan gildissviðs upplýsingalaga nr. 50/1996 falli m.a. upplýsingar sem skráðar séu með kerfisbundnum hætti í bókhaldi stjórnvalds eða upplýsingar sem sé að finna í afmörkuðum hluta bókhalds eða einstökum fylgiskjölum þess, þ.á m. reikninga vegna kaupa á vöru eða þjónustu, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar í málum A-69/1998, A75/1999 og A-260/2007. Umræddir reikningar hafi ekki verið til sérstakrar skoðunar eða meðferðar, hvorki sem einstakt mál né í tengslum við önnur mál. Beri því að staðfesta synjun um aðgang að reikningunum.

 

Úrskurðarnefndin veitti kæranda kost á að setja fram athugasemdir sínar í tilefni af síðastgreindu bréfi kærða til nefndarinnar. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 27. mars. Segir þar að kærandi sé ósammála þeim sjónarmiðum sem kærði haldi fram. Í málinu hafi verið óskað afrits af tilteknum reikningum. Þeir séu tiltækir hjá kærða og þá þurfi ekki að vinna upp úr bókhaldi. Þá segir m.a. svo í bréfi lögmannsins:

 

„Reikningarnir, sem umbjóðandi minn krefst aðgangs að, varða tiltekið mál hjá LSH. Nánar tiltekið hvernig LSH ráðstafaði rúmum 100 milljónum króna á níu mánuðum síðasta árs. Óumdeilt er að rammasamningar, sem lagðir hafa verið fram með yfirstrikunum, varða málið. Þeir hafa hins vegar ekki að geyma upplýsingar um undirsamninga á grundvelli rammasamninganna. Grundvallaratriði málsins fást því ekki upplýst nema með reikningunum. Í reikningunum koma fram upplýsingar um hvað raunverulega var samið, þ.e. þjónustutegundir, magn og verð. Það færi gegn meginreglu upplýsingalaganna um upplýsingarétt ef synjað yrði um aðgang að reikningunum á þeim grundvelli að þeir varði ekki málið.

 

Af sömu ástæðum er mótmælt sjónarmiðum LSH [...]. Reikningarnir hafa þegar verið notaðir í því skyni að veita tilteknar upplýsingar um málið. Þannig varða þeir einnig málið.“

 

Með vísan til þess að aðgangur að þeim samningum sem um ræðir hefur þegar verið veittur kæranda, að undanskildum upplýsingum um einingaverð sem þar koma fram, sem og með vísan til efnis og stöðu þeirra reikninga sem kæra málsins beinist var með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki talin nauðsyn á að leita sérstaklega eftir afstöðu þeirra tveggja starfsmannaleiga, sem samningar kærða eru við, til kæruefnisins.

 

Niðurstaða

1.

Eins og atvikum máls þessa er háttað verður hér annars vegar tekin afstaða til réttar kæranda til aðgangs að sjö samningum kærða við tvær tilteknar starfsmannaleigur. Hins vegar til réttar hans til afrita af reikningum sem téðar starfsmannaleigur hafa gert kærða á grundvelli samninganna.

 

2.

Landspítali-háskólasjúkrahús hefur í máli þessu afhent kæranda sjö samninga spítalans við tvær tilteknar starfssmannaleigur en með þeirri takmörkun að strikað hefur verið yfir upplýsingar um bankareikningsnúmer fyrirtækjanna og öll einingaverð. Krafa kæranda er sú að honum verði veittur aðgangur að umræddum samningum án þess að strikað sé yfir efni þeirra, með þeirri undantekningu að hann gerir ekki athugasemdir við að strikað verði yfir upplýsingar um bankareikningsnúmer samningsaðila spítalans. Landspítali-háskólasjúkrahús hefur hafnað þessari kröfu kæranda með vísan til síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga.

 

Landspítali-háskólasjúkrahús hefur í málinu einnig vísað til þess að í þeim samningum sem um ræðir séu sérstök trúnaðarákvæði. Úrskurðarnefndin tekur fram að slík ákvæði geta ekki komið í veg fyrir aðgang kæranda að samningunum á grundvelli upplýsingalaga. Stjórnvöld geta ekki samið sig undan skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt upplýsingalögum og umrædd trúnaðarákvæði hafa því enga þýðingu í máli þessu að því er skyldur stjórnvaldsins varðar.

 

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“ Með vísan til þess að nefnt ákvæði upplýsinglaga felur í sér takmörkun á upplýsingarétti almennings, sbr. 3. gr. laganna, ber að túlka það þröngt.

 

Upplýsingalögin gera ráð fyrir að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði veittur aðgangur að þeim. Við það mat verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Hér verður ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ. á m. hvort um er að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geta samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344). Koma þessi sjónarmið m.a. fram í úrskurðum nefndarinnar í málum A-233/2006, A-220/2005, A-206/2005 og A-234/2006.

 

Í framkvæmd hefur verið litið svo á að upplýsingar um það hvernig viðsemjendur hins opinbera efni samningsskyldur sínar, svo sem með samstarfi við aðra aðila og með kaupum á vörum og þjónustu, séu almennt þess eðlis að sanngjarnt og eðlilegt sé að þær fari leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga. Hið sama getur átt við ef slíkar aðferðir eru byggðar á rannsóknum og þróun sem kostað hafa umtalsverða fjármuni, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-74/1999 og A-192/2004 og ennfremur um fjármögnun einstakra liða. Sama niðurstaða hefur á hinn bóginn almennt ekki orðið um þær upplýsingar er lúta að umsömdu endurgjaldi stjórnvalds og einkaaðila fyrir tiltekin verk eða þjónustu. Við því má vissulega búast að almenn vitneskja um slíkt endurgjald geti skaðað samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja og annarra lögaðila sem taka að sér slík verkefni fyrir stjórnvöld. Það sjónarmið, að upplýsingar um umsamið endurgjald skuli fara leynt, verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.

 

Við mat á hagsmunum almennings af því að fá aðgang að umræddum samningum verður jafnframt að hafa í huga að með þeim er Landspítali-háskólasjúkrahús að ráðstafa opinberum hagsmunum og fjármunum. Almenningur á ríkari rétt til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinberra fjármuna og gæða heldur en upplýsingum um viðskipti milli einkaaðila, sbr. t.d. úrskurði í málum A-222/2005 og A-224/2006. Skiptir þá ekki máli þótt samningsbundnar fjárhæðir geti gefið vísbendingar um fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækis eða haft áhrif á samkeppnislega stöðu þess. Við úrlausn málsins verður þannig að ganga út frá því að síðari málsliður 5. gr. upplýsingalaga sé því ekki til fyrirstöðu að kæranda sé veittur aðgangur að upplýsingum um þau einingaverð sem tilgreind eru í samningum Landspítala-háskólasjúkrahúss og þeirra tveggja starfsmannaleiga sem um ræðir nema sýnt hafi verið fram á eða leiddar verulegar líkur að því að þær hafi sérstaka fjárhags- eða viðskiptalega þýðingu fyrir fyrirtækin.

 

Eins og áður er komið fram hefur Landspítali-háskólasjúkrahús bent á að í þeim samningum sem um ræðir séu sérstök trúnaðarákvæði samningsaðila. Af þeim ákvæðum má leiða þá afstöðu umræddra starfsmannaleiga að líklegt sé að þær myndu leggjast gegn afhendingu samninganna til utanaðkomandi aðila, yrði eftir afstöðu  þeirra leitað. Landspítali-háskólasjúkrahús hefur engu að síður afhent lögmanni kæranda afrit samninganna, að undanskildum upplýsingum um einingaverð sem þar koma fram og upplýsingum um bankareikningsnúmer. Eins og kærandi hefur afmarkað beiðni sína um aðgang að gögnum stendur því aðeins eftir spurning um aðgang að þeim einingaverðum sem samið hefur verið um. Af umræddum einingaverðum verða ekki dregnar ályktanir um sérstakar aðferðir eða tækni sem fyrirtækin beita við framkvæmd umsaminnar þjónustu. Þar koma heldur ekki fram upplýsingar um viðsemjendur fyrirtækjanna eða starfsmenn þeirra eða beinar upplýsingar sem lúta að fyrirtækjunum að öðru leyti, s.s. um getu þeirra til að veita þjónustu eða þ.u.l. Þegar það er virt sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Landspítala-háskólasjúkrahúsi beri að veita kæranda aðgang að samningum sínum við þær tvær starfsmannaleigur sem um ræðir. Nánar tiltekið skal kærði veita kæranda aðgang að eftirtöldum samningum í heild sinni, þó að því gættu að strikað skal yfir bankareikningsnúmer þeirra fyrirtækja sem eru aðilar samninganna.

 

1) Framahald á samstarfssamningi [Y] ehf. og LSH, dags. 11. janúar 2006.

2) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Skurðlækningasviðs LSH, dags. 29. maí 2007.

3) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusvið LSH, dags. 29. maí 2007.

4) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Endurhæfingarsviðs LSH, dags. 29. maí 2007.

5) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Lyflækningasviðs LSH, dags. 29. maí 2007.

6) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Lyflækningasviðs I á LSH, dags. 29. maí 2007.

7) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Öldrunarsviðs á LSH, dags. 29. janúar 2007.

 

3.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nær réttur almennings til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum til: „ - 1. allra skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum sem stjórnvald hefur sent, enda megi ætla að það hafi borist viðtakanda; - 2. allra annarra gagna sem mál varða, svo sem teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og gagna sem vistuð eru í tölvu; - 3. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn.“ Af þessari afmörkun á gildissviði upplýsingalaga leiðir að ákvæði þeirra eiga einungis við þegar farið er fram á aðgang að upplýsingum, sem er að finna í afmörkuðum skjölum eða öðrum sambærilegum gögnum, sem tilheyrt geta máli. Í samræmi við þetta og ákvæði 1. mgr. 3. gr., eins og því var breytt með 1. gr. laga nr. 161/2006, um breytingu á upplýsingalögum, tekur upplýsingaréttur almennings einvörðungu til gagna sem fyrir liggja, þegar um þau er beðið og tilheyrt geta ákveðnu máli, en leggur ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim er leitað, sbr. ennfremur úrskurði nefndarinnar í málum A-129/2001, A-181/2004 og A-230/2006.

 

Af framangreindu leiðir ennfremur að litið hefur verið svo á að aðgangur að upplýsingum sem er að finna í skrám sem færðar eru með kerfisbundnum hætti falli utan gildissviðs upplýsingalaga. Í þessu felst m.a. að utan laganna falla upplýsingar sem skráðar eru með kerfisbundnum hætti í bókhaldi stjórnvalds og það sama á ennfremur við sé upplýsingarnar að finna í afmörkuðum hluta bókhalds eða einstökum fylgiskjölum þess, þ.á m. reikningum vegna kaupa á vöru eða þjónustu, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum A-69/2008 og A-75/1999. Á hinn bóginn geta lögin átt við um sérstök yfirlit sem unnin hafa verið upp úr viðokmandi bókhaldi, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum A-35/1997, A-44/1998 og A-245/2007. Hafi gagn sem fært hefur verið í skrá eða er ætlað að vera hluti hennar verið tekið til sérstakrar umfjöllunar eða meðferðar stjórnvalds fellur það jafnframt undir upplýsingarétt, sbr. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, enda tilheyrir skjalið þá sérstöku máli.

 

Af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss er staðhæft að þeir reikningar sem starfsmannaleigur hafa gert spítalanum á grundvelli þeirra samninga sem rætt er um hér að framan hafi ekki verið teknir til umfjöllunar eða meðferðar við stofnunina sem sérstakt mál eða í tengslum við önnur mál að öðru leyti en því að reiknuð var samtala greiddra reikninga úr bókhaldskerfi stofnunarinnar og þær upplýsingar veittar kæranda málsins. Sú meðferð sem reikningarnir hafi hlotið að öðru leyti hafi aðeins verið í tengslum við færslu bókhalds og gerð yfirlita yfir kostnað stofnunarinnar.

 

Ekkert er fram komið í máli þessu sem gefur tilefni til að efast um staðhæfingu Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þá kemur fram í svörum spítalans að umræddir reikningar hafi ekki verið til sérstakrar skoðunar eða meðferðar sem sérstakt mál eða í tengslum við önnur mál. Upplýsingar um samtölur umræddra reikninga, sundurliðaðar eftir því til hvaða fyrirtækis þær runnu, voru unnar upp úr umræddum upplýsingum. Kæranda hefur þegar verið afhent það yfirlit. Að því leyti sem reikningarnir kunna að hafa verið teknir til skoðunar eða umfjöllunar eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hóf meðferð máls þessa skal tekið fram að upplýsingaréttur almennings samkvæmt upplýsingalögum tekur einvörðungu til gagna sem fyrir liggja þegar um þau er beðið, sbr. 1. mgr. 3. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006.

 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri synjun Landspítala-háskólasjúkrahúss á afhendingu afrita af reikningum sem starfsmanna­leigur hafi gert spítalanum á grundvelli samninga við spítalann.

 

Úrskurðarorð

Landspítala-háskólasjúkrahúsi ber að veita kæranda, [X], eða eftir atvikum lögmanni þess, [A] hrl., aðgang að eftirtöldum samningum í heild sinni, þó að því gættu að strikað skal yfir bankareikningsnúmer þeirra fyrirtækja sem eru aðilar að samningunum:

 

1) Framahald á samstarfssamningi [Y] ehf. og LSH, dags. 11. janúar 2006.

2) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Skurðlækningasviðs LSH, dags. 29. maí 2007.

3) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Svæðinga-, gjörgæslu- og skurðstofusvið LSH, dags. 29. maí 2007.

4) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Endurhæfingarsviðs LSH, dags. 29. maí 2007.

5) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Lyflækningasviðs LSH, dags. 29. maí 2007.

6) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Lyflækningasviðs I á LSH, dags. 29. maí 2007.

7) Samstarfssamningur [Z] ehf. og Öldrunarsviðs á LSH, dags. 29. janúar 2007.

 

Staðfest er synjun Landspítala-háskólasjúkrahúss á afhendingu afrita af reikningum sem [Y] ehf. og [Z] ehf. hafa gert spítalanum á grundvelli ofangreindra sjö samninga.

 

 

Friðgeir Björnsson,

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                     Trausti Fannar Valsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta