A 285/2008 Úrskurður frá 29. júlí 2008
ÚRSKURÐUR
Hinn 29. júlí 2008 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. 285/2008.
Kæruefni og málsatvik
Hinn 21. maí 2008 kærði [...], synjun Flugstoða ohf. á beiðni um afhendingu samnings sem Flugstoðir ohf. og [A] undirrituðu 1. febrúar 2008 um rekstur flugvélar Flugstoða og framkvæmd flugverkefna sem henni fylgja.
Samkvæmt framlögðum gögnum eru atvik málsins í stuttu máli þau að í tilefni af samningi Flugstoða ohf. við [A] um leigu á flugvél óskaði lögmaður kæranda eftir afriti af samningnum. Þeirri beiðni hafa Flugstoðir ohf. hafnað.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál aflaði afstöðu Flugstoða ohf. við fram komna kæru með bréfi, dags. 23. maí. Athugasemdir félagsins bárust með bréfi, dags. 4. júní. Kæranda var með bréfi, dags. 18. júní 2008, veittur frestur til 3. júlí til að koma á framfæri frekari athugasemdum, m.a. í ljósi fram kominna athugasemda Flugstoða ohf. Erindi þetta var ítrekað með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 10. júlí, og honum þá veittur frestur til 18. sama mánaðar til að koma þeim á framfæri. Frekari athugasemdir hafa ekki borist.
Niðurstaða
Kæra þessi er tekin til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga taka ákvæði þeirra til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins taka lögin enn fremur til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í skýringum við 1. gr. frumvarps þess sem varð að upplýsingalögum er rakið að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyri undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Þá er tekið fram að lögin taki einnig til þeirrar starfsemi einkaaðila sem lýtur að því að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Síðan segir í skýringunum: „Að öðru leyti gilda lögin ekki um einkaaðila, en undir hugtakið „einkaaðilar“ falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu. Ef rekstrarformi opinberrar stofnunar hefur t.d. verið breytt í hlutafélagsform fellur hlutafélagið sem slíkt utan gildissviðs laganna, jafnvel þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags, nema því hafi verið falið sérstakt stjórnsýsluhlutverk, þ.e. að taka ákvarðanir, í skjóli stjórnsýsluvalds, um rétt eða skyldu manna.“
Með lögum nr. 102/2006 var ríkisstjórninni veitt heimild til að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands og tengda starfsemi. Á grundvelli heimildarinnar var fyrirtækið Flugstoðir ohf. sett á stofn. Tók félagið til starfa 1. janúar 2007. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 102/2006 er tilgangur félagsins að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, að annast rekstur og uppbyggingu flugvalla, svo og aðra skylda starfsemi. Segir í ákvæðinu að félaginu skuli vera heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Þá skal félaginu vera heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.
Beiðni kæranda um aðgang að gögnum í fórum Flugstoða ohf. beinist að leigusamningi gerðum 1. febrúar 2008 um rekstur á flugvél Flugstoða ohf. Samningurinn var gerður eftir að hið opinbera hlutafélag tók til starfa. Ekki verður séð að samningurinn tengist á neinn hátt opinberu valdi sem félaginu kann mögulega að hafa verið falið til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. upplýsinglaga. Þá er ekki að finna í þeim lögum sem um starfsemi Flugstoða ohf. gilda sérstök fyrirmæli um að ákvæði upplýsingalaga eigi við um hlutafélagið, líkt og ákveðið er í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.
Samkvæmt framansögðu fellur úrlausn kæruefnisins utan gildissviðs upplýsingalaga og ber því að vísa kæru þessari frá nefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru [...], er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Friðgeir Björnsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Trausti Fannar Valsson