Úthlutun úr Fjarskiptasjóði vegna ljósleiðaravæðingar
Sveitarfélög sem tóku þátt í forvali Fjarskiptasjóðs vegna átaksverkefnisins Ísland ljóstengt hafa fengið tilboð um samtals 450 milljón króna styrki vegna ársins 2019, ásamt vilyrði um frekari styrki vegna áranna 2020 og 2021 eftir atvikum, með fyrirvara um fjárlög. Fjórtán sveitarfélög eiga nú jafnframt kost á sérstökum byggðastyrk, samtals 150 milljónum króna.
Úthlutun Fjarskiptasjóðs
Fjarskiptasjóður auglýsti forval í nóvember síðastliðnum vegna átaksverkefnisins Ísland ljóstengt fyrir árið 2019. Verkefnið er eitt af lykilverkefnum í stjórnarsáttmála og byggðaáætlun stjórnvalda. Markmið þess er að byggja upp ljósleiðarakerfi utan markaðssvæða í dreifbýli um allt land. Gögn bárust frá eftirtöldum sveitarfélögum.
- Vesturland: Borgarbyggð og Dalabyggð.
- Vestfirðir: Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
- Norðurland vestra: Húnaþing vestra og Sveitarfélagið Skagafjörður.
- Norðurland eystra: Langanesbyggð og Norðurþing.
- Austurland: Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað.
- Suðurland: Bláskógabyggð, Flóahreppur, Hrunamannahreppur, Skaftárhreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Hornafjörður.
- Höfuðborgarsvæðið: Mosfellsbær og Reykjavíkurborg.
Ekki er þörf fyrir samkeppnisfyrirkomulag nú líkt og í fyrri úthlutunum sjóðsins. Þess í stað verður tekið mið af samvinnuleið við úthlutun styrkja sem kynnt var í upphafi þessa úthlutunarferlis. Forsenda þess er að áætlanir sveitarfélaganna liggja þegar fyrir um umfang, verktíma, kostnað, samlegð með öðrum framkvæmdum o.fl. Sveitarfélögum gefst nú færi á styrkjum á sambærilegum forsendum þegar að styttist í verklok Ísland ljóstengt. Ráðstöfun fjármuna sjóðsins vegna 2019 miðast í heild við 450 m.kr. líkt og í fyrri úthlutunum.
Fyrirkomulag styrkja
Í stuttu máli felst fyrirkomulag/tilboð fjarskiptasjóðs í eftirfarandi: Sveitarfélögin eiga kost á 80% af þeirri upphæð sem þau hafa tilgreint sem æskilega framlag fjarskiptasjóðs fyrir tiltekna verkáfanga að frádregnu öðru framlagi, þó aldrei meira en svo að styrkir frá ríkinu greiði fyrir meira en 60% af raunkostnaði, að frádregnum 500.000 kr. án vsk. fyrir hvern styrkhæfan stað.
Viðkomandi sveitarfélög fá send tilboðsgögn frá sjóðnum í dag. Líkt og áður fá sveitarfélög tíma til að ákveða hvort þau vilji ganga að tilboði sjóðsins um styrk. Endanlegar styrkupphæðir liggja því ekki fyrir að svo komnu. Lokafrestur til að þiggja tilboð sjóðsins er til kl. 12:00, föstudaginn 8. mars nk. Tímasetning undirritunar samninga verður tilkynnt síðar.
Ísland ljóstengt 2019 - forsendur og fyrirkomulag styrkja
Fjórtán sveitarfélög fá byggðastyrki
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur jafnframt ákveðið úthlutun sérstakra byggðastyrkja til valinna sveitarfélaga í tengslum við áform þeirra um ljósleiðarauppbyggingu. Áður hefur ráðuneytið þegar veitt samtals 200 m.kr. í byggðastyrki árin 2017 og 2018. Við skiptingu byggðastyrkja var horft til meðalkostnaðar fyrir hvern stað, þéttleika byggðar, meðalfjarlægð frá þjónustukjarna, hlutfall 4G tenginga, fjárhagsstöðu og meðaltekjur. Hámarksstyrkur til sveitarfélags var ákveðinn 20 m.kr.
Að þessu sinni stendur eftirfarandi sveitarfélögum til boða samningar um samtals 150 m.kr. í sérstaka byggðastyrki (100 m.kr. 2019 og 50 m.kr. 2020) sem skiptast þannig í m.kr:
- Bláskógabyggð - 14 m.kr.
- Borgarbyggð - 20 m.kr.
- Dalabyggð - 12 m.kr.
- Fjarðabyggð - 13 m.kr.
- Fljótsdalshérað - 20 m.kr.
- Sveitarfélagið Hornafjörður - 17 m.kr.
- Húnaþing vestra - 10 m.kr.
- Ísafjarðarbær - 10 m.kr.
- Langanesbyggð - 6 m.kr.
- Skaftárhreppur - 8 m.kr.
- Sveitarfélagið Skagafjörður - 10 m.kr.
- Strandabyggð - 2 m.kr.
- Súðavíkurhreppur - 3 m.kr.
- Vesturbyggð - 5 m.kr.
Þessir byggðastyrkir verða hluti af samþættri fjármögnun ríkisins í verkefninu kjósi sveitarfélög að gera um þá samning á grundvelli Ísland ljóstengt. Tilteknir byggðastyrkir eru eyrnamerkir ákveðnum svæðum eða verkefnum, s.s. lagningu ljósleiðara milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar 2019 sem er fyrri áfangi ljósleiðarahringtengingar til Neskaupstaðar. Ráðuneytið hefur jafnframt eyrnamerkt allt að 50 m.kr. í sérstaka byggðastyrki árið 2020 til viðbótar í tengslum við lokaúthlutun vegna átaksverkefnisins Ísland ljóstengt.