Mál nr. 8/2009
Mál nr. 8/2009:
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ráðning í starf. Hæfnismat. Kynjahlutfall. Jafnréttisstefna.
Vinnumálastofnun auglýsti eftir forstöðumanni hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra. Kærandi, sem er karl, telur að hann hafi verið hæfari en kona sú sem ráðin var, bæði hvað varðar menntun og reynslu, eða að minnsta kosti jafn hæfur. Því hafi með vísan til jafnréttisstefnu Vinnumálastofnunar og 18. gr. laga nr. 10/2008 átt að ráða hann enda færri forstöðumenn karlar en konur á vegum stofnunarinnar. Vinnumálastofnun telur konuna sem ráðin var í starfið vera hæfari en kærandi og þess vegna hafi hún verið ráðin. Á þeim tíma er ráðningin átti sér stað hafi starfsmenn í stjórnunar- og áhrifastöðum verið 13, sjö konur og sex karlar og kynjahlutfallið því eins jafnt og unnt var. Af hálfu kærunefndar var fallist á að mat Vinnumálastofnunar á hæfni umsækjenda hafi ekki verið ómálefnalegt. Ekki hafi því verið um að ræða brot á ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf forstöðumanns hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra.
Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. september 2009 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli þessu:
I.
Inngangur
Með kæru dagsettri 13. maí 2009 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Vinnumálastofnun hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er stofnunin réði konu í starf forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra 1. desember 2008.
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Vinnumálastofnun með bréfi dagsettu 15. maí 2009. Umsögn Vinnumálastofnunar barst með bréfi dagsettu 26. maí 2009 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 29. maí 2009.
Með tölvubréfi kæranda, dagsettu 12. júní 2009, var óskað eftir viðbótarfresti til að koma á framfæri athugasemdum við umsögnina og var veittur frestur til 19. júní 2009. Kærunefnd upplýsti Vinnumálastofnun um frestinn með bréfi dagsettu 12. júní 2009.
Hinn 22. júní 2009 bárust athugasemdir kæranda, dagsettar 19. júní 2009, og voru sendar Vinnumálastofnun með bréfi nefndarinnar, dagsettu 22. júní 2009.
Hinn 6. júlí 2009 barst bréf Vinnumálastofnunar, dagsett 26. júní 2009, þar sem athugasemdum var komið á framfæri og voru þær sendar kæranda með bréfi til kynningar, dagsettu 6. júlí 2009.
Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II.
Sjónarmið kæranda
Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er kona var ráðin sem forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra. Vinnumálastofnun hafi auglýst starfið í Morgunblaðinu 2. nóvember 2008 og hafi umsóknarfrestur verið til 16. nóvember 2008. Umsækjendur um umrætt starf hafi verið 47. Kærandi og fimm aðrir umsækjendur hafi verið boðaðir í viðtal hjá forstjóra og starfsmannastjóra Vinnumálastofnunar. Með bréfi, dagsettu 1. desember 2008, hafi kæranda verið tilkynnt að búið væri að ráða í starfið. Valið hefði staðið um marga hæfa umsækjendur og ákveðið að ráða konu í starfið. Kærandi telur að hann sé hæfari en sú sem ráðin var, bæði hvað varðar menntun og reynslu, og augljóst að kærandi sé að minnsta kosti jafn hæfur og sú sem ráðin var. Kærandi telur að með því hafi verið brotið gegn lögum um nr. 10/2008 sem og dómvenju Hæstaréttar.
Bendir kærandi á að í auglýsingu Vinnumálastofnunar eftir forstöðumanni Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra hafi komið fram um menntunar- og hæfniskröfur að auglýst væri eftir manneskju með háskólanám á sviði félagsvísinda eða rekstrarfræða, starfsreynslu í stjórnunarstörfum, góða þekkingu og kunnáttu í framkvæmd stjórnsýslulaga, persónuverndarlaga, upplýsingalaga og annarra laga sem varða opinberan rekstur. Einnig hafi verið krafist góðrar þekkingar og reynslu af vinnumarkaðsmálum og góðrar kunnáttu í ensku og einu Norðurlandamáli. Þá hafi verið gerð krafa um samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði.
Um starfssviðið segi í auglýsingunni að það sé dagleg stjórnun og rekstur þjónustuskrifstofunnar á Akureyri, skipulag vinnumarkaðsúrræða og þjónusta við atvinnuleitendur, sem og gerð starfsáætlana og stefnumótun í samráði við vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra og yfirstjórn stofnunarinnar.
Með bréfi, dagsettu 1. desember 2008, hafi kæranda verið tilkynnt að búið væri að ráða í starf forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra. Í bréfinu hafi sagt að ákveðið hafi verið að ráða konu í starfið. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun með bréfi dagsettu 14. desember 2008. Svar hafi borist með bréfi frá Vinnumálastofnun dagsettu 22. desember 2008. Í framhaldinu hafi kærandi óskað eftir afriti af þeim gögnum sem Vinnumálastofnun hafði byggt á varðandi ráðningu konunnar. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að fá afrit af gögnunum og skýran rétt til þess að fá slík afrit samkvæmt stjórnsýslulögum hafi Vinnumálastofnun ekki afhent kæranda þau gögn. Kærandi hafi leitað til Jafnréttisstofu um aðstoð varðandi það að fá þessar upplýsingar og það hafi ekki verið fyrr en lögfræðingur Jafnréttisstofu hafði óskað eftir gögnunum að þau voru afhent. Rétt sé þó að taka það fram að kæranda hefur enn ekki borist svar frá Vinnumálastofnun vegna erindis hans.
Í áður tilvitnuðu bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu 1. desember 2008, þar sem kæranda var tilkynnt að búið væri að ráða í starfið, hafi komið fram að valið hafi staðið um „marga hæfa umsækjendur“. Í rökstuðningi fyrir ráðningu konu í starfið hafi komið fram að 47 umsóknir hafi borist um starfið og að rætt hafi verið við sex umsækjendur. Kærandi sé einn af þessum sex sem hafi verið boðaðir í viðtal.
Af framangreindu telur kærandi augljóst að hann hafi verið metinn hæfur til að gegna starfinu. Það veki athygli að ekki sé minnst á það í rökstuðningi að konan hafi, þegar hún hafi verið ráðin, verið starfsmaður í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Kærandi bendir á að í auglýsingunni hafi verið gerð krafa um háskólanám á sviði félagsvísinda eða rekstrarfræða. Sú sem ráðin var sé með B.A.-próf í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Einnig sé hún með kennsluréttindi. Kærandi sé með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands og B.S.-gráðu í byggingaverkfræði frá sama skóla. Kærandi sé með meistaragráðu í rekstrarfræðum en sú sem ráðin var sé ekki með meistarapróf. Ljóst sé því að kærandi sé með meiri menntun sem nýtist í starfi hjá Vinnumálastofnun en sú sem ráðin var.
Þá hafi í auglýsingunni verið gerð krafa um starfsreynslu í stjórnunarstörfum. Stjórnunarreynsla þeirrar sem ráðin var sé frá maí 1995 til 2005 sem framkvæmdastjóri Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga og sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar 2005–2008. Kærandi sé með yfir 20 ára fjölbreytta stjórnunarreynslu. Frá 1988 hafi hann unnið við stjórnun yleiningaverksmiðju hjá Sæplasti og síðar Yleiningu ehf. Í júlí 1991 hafi kærandi tekið við starfi sveitarstjóra í Hrísey og gegnt því til þar til í maí 1996, en þá hafi hann tekið við starfi sveitarstjóra og byggingarfulltrúa á Kjalarnesi. Eftir kosningarnar 1998 sameinuðust Kjalarnes og Reykjavík. Þá hafi kærandi tekið við starfi sem þjónustufulltrúi hjá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík. Þar hafi kærandi starfað náið með borgarverkfræðingi og setið fundi stjórnenda hjá embættinu og víðar í borgarkerfinu. Frá 2001 hafi kærandi starfað sem verkefnastjóri gatna-, fráveitu- og hreinlætismála á framkvæmdadeild Akureyrarbæjar. Í byrjun árs 2005 hafi kærandi tekið við sem deildarstjóri framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar og gegnt því starfi þar til hann hafi tekið við starfi sem staðarverkfræðingur Loftorku ehf. í Borgarnesi í nýrri verksmiðju þeirra á Akureyri. Í starfsstöð Loftorku á Akureyri hafi starfað um 30 starfsmenn þegar mest var og hafi kærandi verið æðsti yfirmaður á staðnum. Kærandi hafi gegnt starfi staðarverkfræðings þangað til undir lok árs 2008 er starfið hafi verið lagt niður vegna samdráttar. Af þessu sé ljóst að kærandi hafi mun breiðari og mun lengri stjórnunarreynslu en sú sem ráðin var.
Jafnframt hafi verið gerð krafa um góða þekkingu og kunnáttu í framkvæmd stjórnsýslulaga, persónuverndarlaga, upplýsingalaga og annarra laga er varða opinberan rekstur í auglýsingunni. Sú sem hafi fengið starfið hafi alla sína starfsreynslu frá sveitarfélögum, því sé starfsreynslan afmörkuð við stjórnsýsluna. Kærandi hafi hins vegar starfsreynslu bæði úr stjórnsýslunni og af einkamarkaði, því sé reynsla kæranda mun fjölbreyttari en hennar. Stjórnsýslulög og upplýsingalög hafi verið sett meðan kærandi starfaði sem sveitarstjóri og hafi hann sótt kynningar og námskeið um þau lög og öðlast yfirgripsmikla þekkingu á þeim í störfum sínum. Eitt af verkefnum kæranda sem þjónustufulltrúi borgarverkfræðings hafi verið að sitja í nefnd sem skoðaði hópvinnukerfi og kom með tillögu um kaup á slíku kerfi. Tilgangurinn hafi meðal annars verið að halda utan um skráningarmál embættisins í samræmi við upplýsingalög. Í þeirri vinnu hafi þurft að taka tillit til laga á sviði persónuverndar og verið haft samband við Persónuvernd í því sambandi. Síðan hafi kærandi unnið við innleiðingu þessa hópvinnukerfis hjá borgarverkfræðingi og einnig með sama kerfi hjá Akureyrarbæ. Ljóst sé því að kærandi uppfylli tilgreind skilyrði mjög vel.
Í auglýsingunni hafi síðan verið gerð krafa um góða þekkingu og reynslu af vinnumarkaðsmálum. Reynsla þeirrar sem ráðin var sé mjög afmörkuð samkvæmt þeim gögnum sem fylgi kærunni og tengist sveitarfélögum. Kærandi hafi breiða reynslu og þekkingu af vinnumarkaðsmálum. Hann þekki vinnumarkaðinn vel, sem byggingarverkfræðingur, í gegnum stjórnun fyrirtækja á einkamarkaði og sem sveitarstjóri, en meðal þess sem kærandi hafi sinnt sem sveitarstjóri hafi verið að sjá um atvinnuskráningar. Í störfum kæranda á vegum fyrirtækja og einnig hjá sveitarfélögum hafi hann haft samskipti við marga og stóra hópa aðila á vinnumarkaði, til dæmis við verktaka, hönnuði og húsbyggjendur svo dæmi séu nefnd. Kærandi hafi því bæði góða þekkingu og reynslu af vinnumarkaðsmálum.
Gerð hafi verið krafa í auglýsingunni um kunnáttu í ensku og einu Norðurlandamáli. Sú sem ráðin var sagðist hafa gott vald á ensku en ekki eins góða þekkingu á Norðurlandamálum. Kærandi hafi gott vald á ensku og dönsku.
Að lokum hafi í auglýsingunni verið gerð krafa um samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði. Varðandi þennan lið telur kærandi rétt að vísa til ferilskrár þeirrar sem ráðin var í starfið og til ferilskrár sinnar. Eina leiðin fyrir ráðningaraðila til að meta samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði sé að gera það í viðtali við umsækjendur eða með fyrirspurnum til þeirra sem til þekkja. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal, sú sem ráðin var og fjórir aðrir umsækjendur. Þau sem tóku viðtalið við kæranda hafi verið forstjóri og starfsmannastjóri Vinnumálastofnunar. Rétt sé að geta þess að ekki hafi neinn verið viðstaddur frá ráðningarstofu og ekki að sjá að aðstoðar slíkra aðila nyti við. Kærandi hafi verið spurður út í það hversu vanur hann væri að vera boðberi válegra tíðinda. Kærandi hafi verið spurður um það hvað hann myndi vilja leggja áherslu á ef hann yrði ráðinn í þetta starf. Kærandi hafi greint frá því að hann myndi vilja efla vinnumiðlunarþáttinn og kalla fleiri að borðinu, sveitarstjórnarmenn og aðila vinnumarkaðarins til dæmis, varðandi lausnir. Kærandi telur einnig rétt að geta þess að hann viti ekki til þess að samband hafi verið haft við þá meðmælendur sem hann hafi upplýst um í starfsviðtalinu.
Kærandi vísar til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008 og bendir svo á að samkvæmt athugun kæranda á vef Vinnumálastofnunar sé 141 starfsmaður hjá stofnuninni, 31 karl og 110 konur. Þegar skoðuð séu þau sem hafi starfsheitið „forstöðumaður“ þá séu það níu manns, sjö konur og tveir karlar. Hjá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra starfi samkvæmt því sem fram kemur á vefnum níu manns, þ.e. þrír karlar og sex konur.
Í jafnréttisstefnu Vinnumálastofnunar, sem samþykkt hafi verið 26. janúar 2001, segi orðrétt: „Þess skal gætt að laus störf hjá Vinnumálastofnun séu auglýst í samræmi við reglur þar um og jafnréttissjónarmiða skal gætt þegar ráðið er í stöður. Það kyn sem er í minnihluta í viðkomandi starfshópi skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjendur eru jafnhæfir.“ Með því að ráða kæranda ekki í starf forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Akureyri heldur konu hafi verið brotið gegn þessu ákvæði í jafnréttisstefnunni.
Miðað við stöðu kynjahlutfalls hjá Vinnumálastofnun sem blasi við þá verði ekki annað séð en það að ráða kæranda ekki í starf forstöðumanns þjónustuskrifstofunnar á Norðurlandi eystra heldur konu hafi verið gengið þvert gegn ákvæðum í jafnréttislögum, sbr. 18. gr., og einnig hafi verið farið gegn jafnréttisstefnu Vinnumálastofnunar. Ljóst sé því að bæði jafnréttislög og jafnréttisstefna Vinnumálastofnunar hafi verið brotin með því að ráða konu í starf forstöðumanns og ganga fram hjá kæranda.
Kærandi telur að hann sé hæfari en sú sem var ráðin, bæði hvað varðar menntun og reynslu. Kærandi uppfylli betur en hún öll skilyrðin sem sett hafi verið fram í auglýsingu eftir forstöðumanni og því séu engin málefnaleg rök fyrir því að ráða konuna frekar en kæranda í starf forstöðumanns þjónustuskrifstofunnar á Norðurlandi eystra. Kærandi telur því að jafnréttislög hafi verið gróflega brotin og fer fram á að kærunefnd jafnréttismála taki mál þetta til úrskurðar.
Í athugasemdum kæranda ítrekar hann afstöðu sína varðandi kynjahlutföll og bendir á að í afstöðu Vinnumálastofnunar hafi stofnunin bætt við sviðsstjórum og forstjóra og fái þannig út hagstæðara kynjahlutfall. Telur kærandi þetta ekki málefnaleg rök því forstjóri sé hærra settur og sviðsstjórar væntanlega einnig, í það minnsta sé verksvið þeirra varla sambærilegt við verksvið forstöðumanna. Á grundvelli þessa hafi kærandi talið nægjanlegt að karlmaður væri jafnhæfur konu til þess að stofnuninni bæri að ráða hann.
Vinnumálastofnun hafi sagt að ekki væri gerð krafa um meistaragráðu á háskólastigi, en það hljóti að vega þegar hæfi umsækjenda sé borið saman.
Vinnumálastofnun hafi talið einsleita reynslu þeirrar sem ráðin var meira virði en fjölbreytta reynslu kæranda víða í atvinnulífinu. Ef aðeins eigi að meta reynslu í opinbera kerfinu þá hafi kærandi reynslu sem sveitarstjóri í sjö ár og sem þjónustufulltrúi borgarverkfræðings í þrjú ár. Þá hafi kærandi starfað á framkvæmdadeild Akureyrarbæjar í fjögur og hálft ár.
Þekkingu kæranda á vinnumarkaðsmálum telur hann ekki minna virði fyrir Vinnumálastofnun heldur en þeirrar sem ráðin var því auk þess að þekkja mjög vel til sveitarstjórnarmála á Norðurlandi eystra þá þekki kærandi einnig vel til byggingaraðila hafandi starfað sem verkfræðingur á svæðinu til fjölda ára. Telur kærandi tengslanet sitt ekki minna virði en þeirrar sem ráðin var, ekki síst vegna þekkingar sinnar á byggingamarkaðinum þar sem mestar uppsagnir hafi verið á seinustu misserum.
III
Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Vinnumálastofnun telur að kæran lúti að tveimur meginatriðum sem tekin verði afstaða til af hálfu stofnunarinnar, þ.e. annars vegar vegna menntunar- og hæfniskrafna fyrir starf forstöðumanns og hins vegar vegna kynferðis.
Stofnunin hafi í auglýsingunni gert kröfu um háskólanám á sviði félagsvísinda eða rekstrarfræða. Sú sem ráðin var í starfið hafi B.A.-próf í uppeldis- og menntunarfræði auk kennsluréttinda. Í auglýsingunni hafi ekki verið tiltekið að viðkomandi þurfi að hafa lengra háskólanám, svo sem meistaragráðu eða að það komi umsækjanda til sérstakra tekna við hæfnismat. Sú fullyrðing kæranda að telja sig hæfari umsækjanda vegna meistaragráðu í rekstrarfræðum sem hann hafi aflað sér standist því ekki.
Þá gerði Vinnumálastofnun kröfu um starfsreynslu í stjórnunarstörfum. Við mat stofnunarinnar á hæfni vegna stjórnunarstarfa vegi vitaskuld þungt hvers konar stjórnunarstörf sé um að ræða vegna eðlis þess starfs hjá stofnuninni sem hér um ræði. Reynsla konunnar sem ráðin var sem framkvæmdastjóri Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga um tíu ára skeið, þriggja ára starf hennar sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar og verkefnisstjórastarf hennar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í tæpt ár hafi vegið langtum þyngra en löng stjórnunarreynsla kæranda við rekstur yleiningaverksmiðju, sem sveitarstjóri í Hrísey, sveitarstjóri og byggingarfulltrúi á Kjalarnesi og verkefnisstjóri gatna-, fráveitu- og hreinlætismála hjá Akureyrarbæ.
Stofnunin hafi jafnframt gert kröfu um góða þekkingu og kunnáttu í framkvæmd stjórnsýslulaga, persónuverndarlaga, upplýsingalaga og annarra laga er opinberan rekstur varði. Hér hafi verið að óska eftir að viðkomandi hafi þekkingu og kunnáttu gagnvart því laga- og regluverki sem snúi að opinberum rekstri. Í samtölum við konuna sem ráðin var hafi komið skýrt fram að hún hefði góða þekkingu á stjórnsýslulögum og málsmeðferð hjá opinberum stofnunum hliðstæðra mála og séu á verksviði þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar.
Hvað varði kröfu Vinnumálastofnunar í auglýsingunni um góða þekkingu og reynslu af vinnumarkaðsmálum þá hafi konan í fyrri störfum sínum, meðal annars sem félagsmálastjóri Þingeyinga og sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar, öðlast góða þekkingu og reynslu af vinnumarkaðsmálum og byggt upp tengslanet við fjölmarga samstarfsaðila Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra sem stofnuninni sé mjög mikill akkur í. Hún hafi meðal annars starfað að fræðslumálum fyrir fjölmörg fyrirtæki á Norðurlandi eystra og þekki hún því vel til starfsumhverfis þeirra, starfshæfniskrafna þeirra til framtíðar, starfsfólks o.fl. Falli sú þekking afar vel að starfssviði forstöðumanns þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra.
Hinn 4. mars 2009 hafi Jafnréttisstofa óskað eftir gögnum varðandi umrædda ráðningu sem veitt voru 10. mars 2009. Um hafi verið að ræða ferilskrá og umsókn þeirrar sem ráðin var. Enn fremur hafi önnur beiðni borist frá Jafnréttisstofu 5. maí 2009 þar sem beðið hafi verið um upplýsingar um kynjahlutföll allra starfsmanna í lok nóvember 2008 ásamt kynjahlutföllum í stjórnunar- og/eða áhrifastöðum á sama tíma. Vinnumálastofnun veitti þær upplýsingar 11. maí 2009.
Í 18. gr. laga nr. 10/2008 segi að sérstök áhersla skuli lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Í lok nóvember 2008 hafi 13 starfsmenn starfað í stjórnunar- og áhrifastöðum hjá Vinnumálastofnun. Forstjóri, sviðsstjórar og forstöðumenn, þ.e. sjö konur (54%) og sex karlar (46%). Fyrrverandi forstöðumaður þjónustuskrifstofunnar á Norðurlandi eystra hafi verið kona og hér talin með. Með því að ráða konu í starfið hafi hlutur kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum haldist óbreyttur.
Í jafnréttisstefnu Vinnumálastofnunar, sem samþykkt hafi verið 26. janúar 2001, sé sagt að það kyn sem sé í minnihluta í viðkomandi starfshópi skuli að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjendur séu jafnhæfir. Starfshópurinn hér standi á oddatölu og kynjahlutfallið eins jafnt og mögulegt sé og því hæpið að meta karla i minnihluta og konur í meirihluta. Undirstrikar Vinnumálastofnun að þetta ákvæði jafnréttisstefnunnar eigi við þegar umsækjendur séu metnir jafnhæfir.
Af framansögðu megi vera ljóst að stofnunin hafi metið konuna sem ráðin var langtum hæfari umsækjanda en kæranda. Þótt það sé ekki orðað á þann veg í tilkynningu sem kærandi hafi fengið senda í kjölfar ráðningar konunnar sé í ljósi eftirmála nauðsynlegt að geta þess. Í aðdraganda ráðningarinnar hafi verið rætt við sex hæfa umsækjendur og hafi komið á daginn að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi skarað algerlega fram úr.
Vinnumálastofnun vekur sérstaka athygli á því að í 18. gr. laga nr. 10/2008 segi að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skuli lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Hjá Vinnumálastofnun sé forstjóri, sviðsstjórar og forstöðumenn í stjórnunar- og áhrifastöðum og þar af leiðandi og samkvæmt framangreindri lagagrein sé kynjahlutfall metið út frá þeim hópi starfsmanna.
Þá er bent á að skv. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, geti umsækjandi sem ekki hljóti starf krafist rökstuðnings fyrir ráðningu í starfið. Í rökstuðningi skuli koma fram af hverju sá sem varð fyrir valinu var ráðinn, en ekki ástæður þess að sá sem krefst rökstuðnings fékk ekki starfið. Rökstuðningur Vinnumálastofnunar fyrir vali í starf forstöðumanns hafi þar af leiðandi falist í upplýsingum um þá konu sem ráðin var en ekki hvers vegna kærandi hafi ekki verið ráðinn.
IV.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.
Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar gengið var fram hjá kæranda við ráðningu í starf forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og kona ráðin í starfið. Kærandi telur sig vera hæfari en sú kona sem ráðin var. Jafnframt hafi mun færri karlar starfað hjá stofnuninni er ráðningin átti sér stað.
Samkvæmt auglýsingu vegna starfs forstöðumanns hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra felst starf forstöðumanns í daglegri stjórnun og rekstri þjónustuskrifstofunnar á Akureyri, skipulagi vinnumarkaðsúrræða og þjónustu við atvinnuleitendur, gerð starfsáætlana og stefnumótunar í samráði við vinnumarkaðsráð Norðurlands eystra og yfirstjórn stofnunarinnar.
Í auglýsingu var gerð krafa um háskólanám á sviði félagsvísinda eða rekstrarfræða, starfsreynslu í stjórnunarstörfum, góða þekkingu og kunnáttu í framkvæmd stjórnsýslulaga, persónuverndarlaga, upplýsingalaga og annarra laga sem varða opinberan rekstur. Einnig var krafist góðrar þekkingar og reynslu af vinnumarkaðsmálum og góðrar kunnáttu í ensku og einu Norðurlandamáli. Þá var gerð krafa um samskiptahæfni, frumkvæði og sjálfstæði.
Fyrir liggur að kærandi var með B.S.-gráðu í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá sama skóla. Telur kærandi ljóst að hann hafi verið með meiri menntun sem nýttist í starfi hjá Vinnumálastofnun en sú sem ráðin var, sem hafi verið með B.A.-próf í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands og einnig svonefnd kennsluréttindi. Af hálfu kærunefndar er fallist á það með kæranda að hann hafi haft meiri menntun en sú sem ráðin var. Á hinn bóginn verður að líta til þess að nám kæranda og þeirrar sem ráðin var fellur að hluta til utan við starfslýsingu forstöðumannsins.
Að því er starfsreynslu varðar þá var gerð krafa um starfsreynslu í stjórnunarstörfum. Við mat Vinnumálastofnunar á hæfni vegna stjórnunarstarfa var litið til þess hvers konar stjórnunarstörf var um að ræða hjá umsækjendum. Reynsla þeirrar sem ráðin var sem framkvæmdastjóri hjá Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga um tíu ára skeið og þriggja ára starf hennar sem framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar og verkefnisstjórastarf hennar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í tæpt ár var talin vega þyngra en löng stjórnunarreynsla kæranda við rekstur yleiningaverksmiðju, sem sveitarstjóri í Hrísey, sveitarstjóri og byggingarfulltrúi á Kjalarnesi og verkefnisstjóri gatna-, fráveitu- og hreinlætismála hjá Akureyrarbæ. Af hálfu kærunefndar er ekki talið tilefni til að draga í efa að umrætt mat hafi, eins og hér stóð á, talist málefnalegt. Þá verður fallist á með stofnuninni að vegna starfa sinna á framangreindum sviðum félagsþjónustu hafi sú sem ráðin var mátt teljast hafa hagnýtari reynslu og meiri þekkingu á vinnumarkaðsmálum og starfsendurhæfingarúrræðum svo og framkvæmd laga á þeim sviðum sem hér verða talin skipta máli.
Þrátt fyrir víðtæka reynslu kæranda af ýmsum málaflokkum sem telja má að fallið hafi getað að nokkru að starfi því sem hér um ræðir, má fallast á að mat Vinnumálastofnunar, svo sem rakið var hér að framan, að reynsla konu þeirrar sem ráðin var hafi, eins og hér stóð á, gert hana hæfari en kæranda. Af þessari ástæðu lítur kærunefnd jafnréttismála svo á að Vinnumálastofnun hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf forstöðumanns hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra.
Með vísan til kynjahlutfalls í stjórnunarstöðum hjá Vinnumálastofnun og almenns markmiðs 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að því leyti til, svo og með vísan til framangreindrar niðurstöðu um hæfni þeirrar konu sem ráðin var, er ekki fallist á með kæranda að ráðningin hafi farið gegn umræddu ákvæði laganna.
Vinnumálastofnun telst því ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf forstöðumanns hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun í málinu og sumarleyfa.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Vinnumálastofnun telst ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf forstöðumanns hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra.
Andri Árnason
Ingibjörg Rafnar
Þórey S. Þórðardóttir