Hoppa yfir valmynd
1. október 2003 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 11/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 11/2002:

 

A

gegn

Reykjanesbæ vegna Holtaskóla

 

--------------------------------------------------------------

           

Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 1. október 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 2. desember 2002, óskaði kærandi A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort það að henni var ekki boðinn áframhaldandi starfssamningur um leiðbeinandastöðu við Holtaskóla í Keflavík hafi falið í sér brot gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Reykjanesbæ með bréfi dags. 4. apríl 2003. Var með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir upplýsingum um fjölda leiðbeinenda sem ráðnir voru til starfa haustið 2001 hjá Holtaskóla og í hvaða stöður þeir voru ráðnir, afriti af umsóknum framangreindra leiðbeinenda, svo og upplýsingum um menntun þeirra, reynslu og fyrri störf. Jafnframt var óskað eftir skýringum á því hvaða ástæður lágu að baki höfnun á umsókn kæranda um starf leiðbeinenda skólaárið 2001-2002.

Bréf barst frá Reykjanesbæ, dags. 29. apríl 2003, þar sem fram kom m.a. afstaða Reykjanesbæjar til erindis kæranda.

Athugasemdir kæranda við bréf Reykjanesbæjar bárust með bréfi dags. 12. maí 2003.

Með bréfi, dags. 20. maí 2003 óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum frá Reykjanesbæ og óskaði jafnframt eftir afriti af umsóknum svo og upplýsingum um menntun, reynslu og fyrri störf þeirra fjögurra karlmanna sem sóttu um stöðu leiðbeinenda við Holtaskóla haustið 2001 og voru ráðnir til starfa það haust.

Með bréfi, dags. 11. september 2003 óskaði kærunefnd enn eftir frekari upplýsingum frá Reykjanesbæ. Óskað var eftir upplýsingum um menntun karlmanns sem hafði sótt um stöðu leiðbeinanda við Holtaskóla haustið 2001. Einnig var þeirri fyrirspurn beint til Reykjanesbæjar hvort bærinn teldi ástæðu til þess að gera nánar grein fyrir þeirri staðhæfingu í bréfi sínu, dags. 23. júní 2003, um að ástæðan að baki höfnun við umsókn kæranda um starf leiðbeinanda væri meðal annars sú að aðrir umsækjendur hefðu þótt hæfari.

Svör bárust frá Reykjanesbæ með bréfi dags. 22. september 2003.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina. 

 

II

Málavextir

Mál þetta barst kærunefnd jafnréttismála upphaflega með bréfi dags. 19. febrúar 2002. Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 15. mars 2002 var ákveðið að vísa málinu til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála vísaði málinu frá með úrskurði dags. 12. nóvember 2002, þar sem málið var talið falla utan valdsviðs nefndarinnar. Málið barst síðan kærunefnd jafnréttismála að nýju með bréfi dags. 2. desember 2002, þar sem óskað var eftir því að nefndin tæki málið til meðferðar.

Kærandi starfaði sem leiðbeinandi hjá Holtaskóla í Reykjanesbæ skólaárin 1999 til 2001. Starf hennar fólst í umsjónarkennslu með 4. bekk og tónmenntakennslu. Vorið 2001 tilkynnti hún skólastjóra um væntanlegt fæðingarorlof, þ.e. að hún ætti von á barni í október sama ár. Kærandi sótti formlega um starf leiðbeinanda við Holtaskóla með bréfi dags. í maí 2001, sem móttekið var 6. júní 2001. Kærandi var ekki ráðin sem leiðbeinandi í áframhaldandi starf sem leiðbeinandi við skólann. Taldi kærandi það að rekja til fyrirsjáanlegrar töku hennar á fæðingarorlofi.

Með bréfi dags. 6. júní 2001 óskaði kærandi eftir skriflegu svari frá skólastjórnendum Holtaskóla um hvers vegna umsókn hennar um áframhaldandi ráðningu sem leiðbeinanda hafi verið hafnað. Kæranda barst bréf dags. 9. júlí 2001 þar sem sú skýring var gefin að kærandi hefði ekki verið ráðin sem leiðbeinandi til tónmenntakennslu þar sem tónmennta­kennari hefði verið ráðinn við Holtaskóla. Kærandi sættir sig ekki við umræddar skýringar kærða.

 

III

Sjónarmið kæranda

Í bréfi kæranda, dags. 18. febrúar 2001 kemur fram að hún telji að 22.–24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin þar sem henni hafi verið synjað um áframhaldandi stöðu sem leiðbeinandi við Holtaskóla í Reykjanesbæ.

Kærandi greinir frá því að hún hafi hafið störf hjá Holtaskóla í Reykjanesbæ haustið 1999 og starfað þar til vorsins 2001. Í starfi hennar hafi falist tónmenntakennsla og umsjónarkennsla með 4. bekk. Fyrsta árið kveðst hún hafa kennt 31 kennslustund á viku sem skiptist í 11 tíma tónmenntakennslu og 20 stundir í umsjónarkennslu í 4. bekk. Seinna árið kveðst hún hafa kennt 29 kennslustundir á viku og skiptust þær þannig að 21 kennslustund var fyrir 4. bekk en 8 kennslustundir voru fyrir tónmennt. Hún kveðst hafa beðið skólastjórann um að leysa sig undan kennslu í tónmennt seinna árið og var það gert að hluta. Hún getur þess að við upphaf kennslu sé kennsluskylda einungis 27 kennslustundir. Í apríl 2001 bað skólastjóri alla sem störfuðu við kennslu að tilkynna hvort þeir hygðust starfa áfram við skólann. Af því tilefni hafi allir fengið eyðublað til að fylla út. Á þeim tíma hafi kærandi fengið staðfestingu um þungun en á umræddu eyðublaði hafi meðal annars verið leitað eftir því hvort viðkomandi hygði á fæðingarorlof á næsta skólaári. Í framhaldi af þessu hafi kærandi ákveðið að ræða einslega við skólastjóra um ástand sitt en að hún hefði engu að síður haft áhuga á að starfa áfram við skólann. Fram kemur hjá kæranda að skólastjóri hafi vakið athygli á að hún sem leiðbeinandi ætti engan rétt á fæðingarorlofi og hann gæti að öllum líkindum ekki ráðið hana til áframhaldandi starfa. Kærandi kveðst af þessu tilefni hafa óskað eftir því að afstaða þessi yrði endurskoðuð. Fyrir liggur að kærandi var ekki ráðin í áframhaldandi starf sem leiðbeinandi. Kærandi kveður skólastjóra Holtaskóla hafa haldið því fram að eina ástæðan fyrir ráðningu hennar þau tvö ár sem hún hafi kennt við skólann hafi verið tónmenntakennsla. Skólastjórinn hafi hins vegar tilkynnt sér áður en lærður tónmenntakennari hafi ráðið sig til starfa að hún fengi ekki áframhaldandi stöðu.  

Kærandi kveður Holtaskóla hafa auglýst lausar stöður eftir að henni hafi verið tilkynnt um að ekki væri hægt að verða við umsókn hennar.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hún hafi haft meiri menntun og starfsreynslu en tilteknir karlkyns umsækjendur sem ráðnir hafi verið sem leiðbeinendur við Holtaskóla skólaárið 2001 til 2002. Í því sambandi bendir kærandi á að hún hafi meðal annars stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands (1993) og hafi útskrifast sem iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands (1999).  Þá hafi hún á þessum tíma verið langt komin með nám í viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Af því er starfsreynslu varðar hafi kærandi meðal annars starfað sem leiðbeinandi frá árinu 1999.

 

IV

Sjónarmið kærða

Í bréfi kærða, dags. 29. apríl 2003, kemur fram að haustið 2001 hafi verið ráðnir 16 leiðbeinendur til starfa við Holtaskóla, þar af voru 4 karlmenn og 12 konur. Þeir hafi verið ráðnir til kennslu í 1.-10. bekk til að sinna bekkjarkennslu, greinabundinni kennslu, sérkennslu og/eða verkmenntakennslu. Þar er frá því greint að menntun viðkomandi leiðbeinenda hafi verið allt frá stúdentsprófi og upp í sérhæfða háskólamenntun. Starfsreynsla þeirra hafi verið allt frá einu ári í kennslu við grunnskóla og upp í margra ára reynslu á því sviði, auk þess hafi sumir þeirra unnið við annars konar uppeldisstörf.

Í framangreindu bréfi er greint frá því haustið 2000 hafi kærandi verið ráðin til að kenna í 4. bekk og tónmennt. Haustið 2001 hafi verið ráðnir nokkrir menntaðir kennarar og þar á meðal menntaður tónmenntakennari til að sinna tónmenntakennslu. Reykjanesbær kveður ástæðuna fyrir því að kæranda var hafnað meðal annars vera þá að aðrir umsækjendur hafi þótt hæfari.

Í fylgigögnum með bréfi kærða, dags. 23. júní 2003, koma fram upplýsingar um menntun og kennsluferil þeirra karlkyns leiðbeinenda sem ráðnir voru til Holtaskóla haustið 2001, og til hvers konar kennslu þeir voru ráðnir. Kærði ítrekar í bréfi sínu að aðrir umsækjendur hafi þótt hæfari. Einnig kemur fram í bréfinu að hæfni felist ekki eingöngu í reynslu og menntun, heldur verði einnig að líta til hæfni til að sinna viðkomandi starfi við þá stofnun sem um ræðir.

 

V

Niðurstaða

Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti. Með hliðsjón af því skal stuðlað að því að jafna tækifæri kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Atvinnurekendur gegna þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra, sbr. III. kafla laga nr. 96/2000. 

Kærandi heldur því fram að hún hafi ekki verið ráðin til starfa sem leiðbeinandi við Holtaskóla skólaárið 2001-2002 vegna fyrirhugaðrar fæðingarorlofstöku, en hún átti von á barni í október 2001.

Kærandi byggir kæru sína á því að henni hafi þannig verið mismunað á grundvelli kynferðis. Telur kærandi að með því að ganga framhjá henni og ráða karlmenn í störf leiðbeinenda hafi jafnréttislög verið brotin, þar sem karlarnir sem ráðnir hafi verið hafi haft mun minni menntun en hún, auk þess sem reynsla þeirra hafi verið minni. Vísar kærandi til 22.–24. gr. laga nr. 96/2000.

Af hálfu kærða hefur verið á því byggt, að kærandi hafi ekki verið ráðin að Holtaskóla vegna skólaársins 2001-2002, þar sem tekist hafi að ráða tónmenntakennara við skólann. Kærði bendir á að kærandi hafi í upphafi verið ráðin fyrst og fremst til að kenna tónmenntir við skólann.

Að mati kærunefndar jafnréttismála verður að líta svo á að í umsókn kæranda um leiðbeinandastarf skólaárið 2001-2002 hafi falist að kærandi falaðist eftir almennu kennslustarfi en ekki starfi sem tónmenntakennari. Fyrir liggur að hlutdeild tónmenntakennslu í starfi kæranda var veigaminni síðara starfsár hennar sem leiðbeinanda, en meginhluti starfa hennar laut þá að umsjónarkennslu 4. bekkjar. Verður því ekki fallist á það sjónarmið kærða að ráðning tónmenntakennara til skólans hafi getað haft þá úrslitaþýðingu í málinu sem upphaflega var byggt á af hálfu kærða.

Í kæru kæranda til kærunefndar jafnréttismála er til þess vísað að kæranda hafi verið synjað um áframhaldandi ráðningu með vísan til fyrirhugaðrar fæðingarorlofstöku. Af gögnum þeim sem kærði hefur lagt fram í málinu verður ekki séð að kærði fallist á framangreinda fullyrðingu kæranda. Af því leiðir að af hálfu kærða er ekki á því byggt fyrir kærunefnd jafnréttismála að fyrirhuguð fæðingarorlofstaka kæranda hafi haft þýðingu við ákvörðun um það hvort kærandi yrði ráðin til áframhaldandi starfa.

Í máli þessu er fjallað um ráðningu til tímabundins starfs. Fyrirhuguð fæðingarorlofstaka hefði að sönnu raskað að nokkru marki áætlunum um fyrirkomulag skólastarfsins á skólaárinu 2001-2002, þar sem starfsmaðurinn hefði verið frá störfum verulegan hluta ráðningartímans. Með vísan til þess sem að framan greinir, þ.e. að umrædd sjónarmið virðast ekki hafa haft þýðingu við töku ákvörðunar af hálfu kærða, verður ekki tekin frekari afstaða til þessa atriðis af hálfu kærunefndar jafnréttismála, sbr. og það sem greinir hér að neðan.

Holtaskóli auglýsti eftir grunnskólakennurum til kennslustarfa við skólann vegna skólaársins 2001-2002.  Ráðnir voru 16 leiðbeinendur, þar af fjórir karlmenn. Vegna sérkunnáttu sinnar var einn karlmannanna ráðinn til að kenna smíðar og annar var ráðinn til að kenna við unglingadeild. Framangreindir leiðbeinendur voru því ráðnir til annarra starfa en kærandi sóttist eftir. 

Tveir karlmenn, til viðbótar við framangreinda karlkyns leiðbeinendur, voru að auki ráðnir að skólanum skólaárið 2001-2002. Með vísan til þess sem að framan greinir kemur til athugunar hvort þeir teljist hafa verið hæfari en kærandi, en á því er byggt af hálfu kærða að svo hafi verið, og það hafi ráðið úrslitum við umrædda ráðningu, sbr. bréf kærða dags. 29. apríl 2003 og 23. júní sl. 

Kærandi lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1993. Þá hafði kærandi lokið prófi sem iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands árið 1999. Jafnframt liggur fyrir, að á þeim tíma sem um ræðir hafi kærandi verið langt komin með nám í viðskiptafræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Að því er starfsreynslu varðar liggur fyrir að kærandi hafði verið leiðbeinandi um tveggja ára skeið við grunnskóla.

Fyrir liggur í máli þessu að tveir karlmenn voru ráðnir sem leiðbeinendur á því skólastigi sem telja verður að kærandi hafi sóst eftir með umsókn sinni um áframhaldandi starf. Af gögnum málsins má ráða að hvorugur tilvísaðra karlkyns leiðbeinenda hafi haft jafn mikla menntun og kærandi, auk þess sem telja verður að annar þeirra hafi haft minni starfsreynslu en kærandi á sviði leiðbeinendastarfa.

Af hálfu kærða er til þess vísað að við mat á hæfi umsækjenda sem ráðnir voru sem leiðbeinendur að Holtaskóla í umrætt sinn hafi verið litið til hæfni umsækjenda til að gegna starfi í viðkomandi skóla. Með hæfni hafi þar ekki eingöngu verið átt við menntun og starfsreynslu. Framangreint sjónarmið var ekki rökstutt sérstaklega í umsögnum kærða til nefndarinnar, en rétt er að benda á að kærunefnd jafnréttismála óskaði þess í bréfi sínu til kærða dags., 11. september sl. að framangreind staðhæfing yrði rökstudd nánar. Að mati kærunefndar jafnréttismála verður því ekki á því byggt í máli þessu að umrædd sjónarmið kærða geti ráðið úrslitum í máli þessu.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærandi hafi haft meiri menntun og starfsreynslu sem leiðbeinandi en karlmaður sem ráðinn var til starfa umrætt skólaár, 2001-2002.

Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 skal atvinnurekandi, ef leiddar eru líkur af mismunun vegna kynferðis við ráðningu, sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að kærði hafi sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði kæranda hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að Reykjanesbær hafi við ráðningu í stöðu leiðbeinanda við Holtaskóla skólaárið 2001-2002 brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Reykjanesbæjar að viðunandi lausn verði fundin á  málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

 

Andri Árnason 

Erla S. Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta