Hoppa yfir valmynd
12. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2003: Dómur frá 12. desember 2003

Ár 2003, föstudaginn 12. desember, er í Félagsdómi í málinu nr. 8/2003:

                                                           

Vélstjórafélag Íslands

(Friðrik Á. Hermannsson hdl.) 

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Norðurlands vegna

Samherja hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r :

Mál þetta var dómtekið 19. nóvember síðastliðinn að afloknum munnlegum málfutningi.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, Borgartúni 18, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands, Fiskitanga, Akureyri, vegna Samherja hf., Glerárgötu 30, Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda:

Að viðurkennt verði að Samherji hf. hafi brotið gegn ákvæði 4. mgr. gr. 7.03. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki Arnari Oddssyni, kt. 241265-3909, Borgarhlíð 9d, Akureyri, Sigurði Gunnari Oddssyni, kt. 261261-2869, Vestursíðu 4a, Akureyri, og Inga Guðna Guðmundssyni, kt. 280675-3699, Reynivöllum 4, Akureyri, félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands, frí dagana 20. desember 2002 til 22. desember 2002.

Að Samherja hf. verði gert að greiða stefnanda févíti að fjárhæð 342.110 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 23. desember 2002 til greiðsludags.

Að Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Samherja hf., verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað.

 

Dómkröfur stefnda: 

Aðallega að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að stefnukrafa verði lækkuð. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Málavextir:

Stefndi, Samherji hf., gerir út skipið Þorstein EA-810 en þar er um að ræða 1086 brúttórúmlesta nóta- og togveiðiskip. Eftir miðjan desember 2002 voru stundaðar á skipinu loðnuveiðar í flotvörpu og meðal annars var 960 tonnum af loðnu landað á Þórshöfn 21. desember 2002. Þá var 252 tonnum af loðnu landað í heimahöfn skipsins, Akureyri, 22. sama mánaðar. Fram er komið í málinu að Sigurður Gunnar Oddsson gegndi stöðu yfirvélstjóra á skipinu er landað var úr því í greind skipti. Þá gegndi Arnar Oddsson stöðu 1. vélstjóra við landanirnar og enn fremur gegndi Ingi Guðni Guðmundsson þá stöðu 2. vélstjóra. Allir eru mennirnar félagsmenn stefnanda.

Í 4. mgr. gr. 7.03. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands segir að skipverjum skuli tryggt frí í heimahöfn á tímabilinu frá og með 20. desember til og með 2. janúar. Telur stefnandi að brotið hafi verið gegn ofangreindu ákvæði með áðurnefndum löndunum. Krafði hann stefnda, Samherja hf., um greiðslu févítis samkvæmt gr. 1.56. í kjarasamningnum en ekki var orðið við þeirri kröfu. Er það tilefni málshöfðunar stefnanda.

       

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að umræddar landanir úr Þorsteini EA-810 á loðnu séu skýlaust brot á ákvæði 4. mgr. gr. 7.03. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands en þar komi fram að tryggja skuli vélstjórum á loðnuskipum frí í heimahöfn á tímabilinu frá og með 20. desember til og með 2. janúar. Hafi brotin leitt til þess að framangreindir skipstjórnarmenn hafi ekki fengið frí dagana 21. og 22. desember 2002 eins og þeim beri réttur til samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins en ákvæði hans feli í sér reglur um lágmarksfrítöku skipstjórnarmanna. Af þeim sökum krefjist stefnandi þess að Samherji hf. verði dæmdur til greiðslu févítis að fjárhæð 342.110 krónur samkvæmt ákvæði gr. 1.56. í kjarasamningnum.

Krafist er að stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af 342.110 krónum frá 23. desember 2002 til greiðsludags. Teljist síðara brot Samherja hf. fullframið 22. desember 2002 og þyki því ekki óeðlilegt að dráttarvextirnir miðist við næsta dag.

 

Málsástæður og lagarök stefnda:

Af hálfu stefnda er í greinargerð á því byggt að í desember 2002 hafi staðið til að Þorsteinn EA-810 færi annað hvort til síldar- eða loðnuveiða. Meiri tekjuvon hafi verið í loðnunni og áhöfnin því samþykkt að fara til loðnuveiða og nota til þess tímann fram til 22. desember. Á þessum tíma hafi verið stutt í miðin og því góð tekjuvon fyrir áhöfnina. Skipið hafi í samræmi við ofangreinda ákvörðun komið til Akureyrar, sem sé heimahöfn skipsins, og landað þar þann 22. desember. Skipið sé nánast mannað tveimur áhöfnum þannig að skipverjar eruu í fríi að minnsta kosti þriðja hvern túr. Þeir hafi því engan hag af því að skipið liggi sem lengst í höfn. Hafi skipið ekki farið aftur til veiða fyrr en 3. janúar 2003.

Sýknukrafa er reist á því að útgerðin hafi ekki brotið gegn ákvæðum gr. 7.04. (sic) í kjarasamningi aðila. Sú grein banni ekki að skip séu á veiðum á umræddu tímabili. Samkvæmt orðalagi greinarinnar feli hún eingöngu í sér að skipverjum skuli tryggt frí í heimahöfn. Vilji áhafnarinnar skipti þannig máli. Í máli þessu sé krafist févítis sökum þess að útgerðin hafi ekki tryggt vélstjórum skipsins frí dagana 20. - 22. desember 2002. Hafi upphafi jólafrís verið frestað á þeim forsendum að það væri vilji áhafnarinnar. Möguleiki hafi verið á mjög góðum afla og áhöfnin því getað orðið af umtalsverðum hlut við að hefja töku jólafrísins þegar þann 20. desember. Þá liggi ekkert fyrir um það að mál þetta sé höfðað með vilja og í umboði skipverja.

Telji dómurinn að brotið hafi verið gegn kjarasamningi á þann veg að varði við gr. 7.04. (sic) í kjarasamningi aðila er gerð krafa um lækkun á stefnukröfu. Stefndi byggi þá kröfu á því að umrætt ákvæði tilgreini hámarksfjárhæð og verði því að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé. Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir, sem eiga að njóta frísins, eru samþykkir því að fresta upphafi frítöku.

 

Niðurstaða:

Auk kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu févítis krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða dráttarvexti af févítinu frá 23. desember 2002 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Ákvörðun um vexti á ekki undir valdsvið Félagsdóms eins og það er markað samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með áorðnum breytingum. Ber því að vísa þessum þætti í kröfugerð stefnanda sjálfkrafa frá dómi. Að öðru leyti fellur sakarefnið undir valdsvið dómsins samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Við aðalmeðferð málsins kom fram í yfirheyrslum að Þorsteini EA-810 hafi í desember 2002 verið ætlað að veiða loðnu í frystingu en ekki hafi orðið úr því vegna þess að loðnan hafi ekki uppfyllt gæðaskilyrði. Var í munnlegum málflutningi byggt á því af hálfu stefnda að þar með hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum 4. mgr. gr. 7.03. um hafnarfrí heldur ættu hér við önnur nánar tiltekin ákvæði kjarasamningsins. Þessari málsástæðu var mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram kominni.

Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til en að öðrum kosti má ekki taka slíka yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Stefnda var í lófa lagið að koma ofangreindri málsástæðu að í greinargerð en lét það undir höfuð leggjast. Verður hún því ekki tekin til greina gegn mótmælum stefnanda.

Ákvæði 4. mgr. gr. 7.03. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem er að finna í VII. kafla kjarasamningsins um loðnuveiðar, er afdráttarlaust um að skipverjum skuli tryggt frí í heimahöfn á tímabilinu frá og með 20. desember til og með 2. janúar. Óumdeilt er að Þorsteinn EA-810 var á veiðum til 22. desember 2002 en þá var landað úr skipinu á Akureyri. Er það útgerðar skipsins að sjá til þess að ákvæði þetta sé virt. Með vísan til framanskráðs hefur stefndi brotið gegn 4. mgr. gr. 7.03. í kjarasamningi aðila og ber því að dæma stefnda, Samherja hf., til greiðslu févítis samkvæmt gr. 1.56. í kjarasamningnum er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands. Ekki er um tölulegan ágreining um fjárhæð févítis að ræða með aðilum. Stefndi hefur á hinn bóginn krafist lækkunar þess á þeim grundvelli að vega verði og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé. Geti það vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir, sem eiga að njóta frísins, eru samþykkir því að fresta upphafi frítöku. Að mati dómsins þykja ekki vera næg efni til að verða við lækkunarkröfu stefnda. Verður hann því dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð sem krafist er.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

 

Dómsorð:

Stefndi, Samherji hf., braut gegn ákvæði 4. mgr. gr. 7.03. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og  Vélstjórafélags Íslands.

Stefndi, Samherji hf., greiði 342.110 krónur í févíti, er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands, en kröfu um dráttarvexti er vísað sjálfkrafa frá dómi.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Samherja hf., greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.

 

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Gunnar Sæmundsson

Valgeir Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta