Mál nr. 9/2003: Dómur frá 22. desember 2003
Ár 2003, mánudaginn 22. desember er í Félagsdómi í málinu nr. 9/2003.
Vélstjórafélag Íslands
(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.
Útvegsmannafélags Norðurlands vegna
Samherja hf.
(Jón H. Magnússon hdl.)
kveðinn upp svofelldur
dómur:
Mál þetta var dómtekið 25. nóvember síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, Borgartúni 18, Reykjavík
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands, Fiskitanga, Akureyri, vegna Samherja hf., Glerárgötu 30, Akureyri.
Dómkröfur stefnanda:
Að viðurkennt verði að Samherji hf. hafi brotið gegn ákvæði 1. mgr. gr. 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki Kolbeini Sigmundssyni, kt. 031261-2369, Rituhöfða 13, Mosfellsbæ, Brynjari Sigurðssyni, kt. 250466-3159, Grundargerði 2f, Akureyri, og Sigurði G. Vilmundarsyni, kt. 060352-4459, Mávahlíð 5, Akureyri, félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands, frí við löndun úr frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni, EA-10, skipaskrárnúmer 2212, miðvikudaginn 18. júní 2003.
Að Samherja hf. verði gert að greiða stefnanda févíti að fjárhæð 342.110 krónur samkvæmt gr. 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna brots á ákvæði gr. 5.12. í kjarasamningnum, með því að tryggja ekki vélstjórunum Kolbeini Sigmundssyni, kt. 031261-2369, Rituhöfða 13, Mosfellsbæ, Brynjari Sigurðssyni, kt. 250466-3159, Grundargerði 2f, Akureyri, og Sigurði G. Vilmundarsyni, kt. 060352-4459, Mávahlíð 5, Akureyri, félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands, frí við löndun úr frystitogaranum Baldvin Þorsteinssyni EA-10, skipaskrárnúmer 2212, miðvikudaginn 18. júní 2003.
Að Samherja hf. verði gert að greiða dráttarvexti af 342.110 krónum frá 18. júní 2003 til greiðsludags.
Að Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Samherja hf., verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda:
Aðallega að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að stefnukrafa verði lækkuð. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Málavextir:
Stefndi, Samherji hf., gerir út skipið Baldvin Þorsteinsson EA-10 sem er 2968 brúttórúmlesta frystitogari. Landað var úr skipinu 18. júní 2003 í Reykjavíkurhöfn 491 tonni af frystum karfa. Þann dag gegndi Kolbeinn Sigmundsson, Rituhöfða 13, Mosfellsbæ, stöðu yfirvélstjóra, Brynjar Sigurðsson, Grundargerði 2f, Akureyri, gegndi stöðu 1. vélstjóra og stöðu 2. vélstjóra gegndi Sigurður G. Vilmundarson. Allir eru mennirnir félagsmenn stefnanda.
Stefnandi krafðist févítis úr hendi stefnda, Samherja hf., með bréfi 4. september 2003, auk dráttarvaxta og málskostnaðar, en kröfunni var hafnað. Hefur stefnandi því höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda:
Samkvæmt ákvæði 1. mgr. gr. 5.12. í kjarasamningi milli stefnda, Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna, og stefnanda skuli vélstjórar á togurum eiga frí við löndun. Ákvæði þetta sé að finna í kafla 5.10. í kjarasamningnum en sá kafli beri fyrirsögnina „Togarar”. Í kafla 5.20. kjarasamningsins, sem beri fyrirsögnina „Frystitogarar”, sé ekki fjallað um skyldur vélstjóra til að landa afla úr frystitogurum. Baldvin Þorsteinsson EA-10 sé frystitogari en framangreint ákvæði um löndunarfrí vélstjóra taki einnig til hans enda segi svo í ákvæði gr. 5.25. í kjarasamningi aðila, sem beri yfirskriftina „Vinna vélstjóra og gildissvið”:
„Þurfi vélstjórar að hafa eftirlit með skipum skal þeim greitt kaup samkvæmt launatöflu samningsaðila. - Að öðru leyti en því er hér greinir um frystitogara gilda ákvæði hinna almennu bátakjarasamninga eins og við á um togara”.
Framangreint ákvæði sé afdráttarlaust og sé með því meðal annars vísað til ákvæðis 1. mgr. gr. 5.12. í kjarasamningnum um löndunarfrí vélstjóra. Þá sé annað sambærilegt ákvæði að finna í frystitogarakaflanum þar sem vísað sé til ákvæðanna í togarakaflanum, sbr. ákvæði 8. mgr. gr. 5.26., en þar segi: „Að öðru leyti gilda öll almenn ákvæði eins og við á um skip samsvarandi stærðar á togveiðum”.
Framkvæmdastjóri stefnda, Landssambands íslenskra útvegsmanna, hafi haldið því fram að ekkert hafi verið athugavert við þær fyrirskipanir framkvæmdastjóra stefnda, Samherja hf., þann 18. júní 2003 að vélstjórar skipsins skyldu vera að vinnu er landað var úr skipinu. Í þeim efnum vísi framkvæmdastjórinn til ákvæðis gr. 13.04. í kjarasamningnum en þar segi: „Skipverjum skal ekki skylt að landa frystum afla, en geri þeir það skal það greitt sérstaklega”.
Ákvæði gr. 13.04. sé að finna í XIII. kafla kjarasamningsins sem beri yfirskriftina „Uppsjávarveiðar þar sem afli er frystur um borð”. Síðan segi í ákvæði gr. 13.01. sem beri yfirskriftina „Gildissvið”:
„Ákvæði þessa kafla eiga við um veiðar á uppsjávarfiski á Vilhelm Þorsteinssyni EA-11, skipaskrárnúmer 2410, þ.m.t. loðnu, síld, kolmunna og makríl, með nót- og flotvörpu þar sem afli er að hluta eða öllu leyti frystur um borð. Þegar veitt er eingöngu í bræðslu gilda ákvæði kjarasamningsins”.
Eins og framangreind ákvæði beri skýrlega með sér þá sé um sérákvæði að ræða en sérákvæði beri ávallt að skýra þröngt. Gildissvið þessara sérákvæða sé eingöngu uppsjávarveiðar. Þau taki með öðrum orðum ekki til bolfiskveiða og þar með ekki til karfaveiða en sá afli, sem landað hafi verið úr Baldvini Þorsteinssyni EA-10 þann 18. júní 2003, hafi samanstaðið af djúpkarfa annars vegar og úthafskarfa hins vegar. Hingað til hafi karfi ekki verið talinn uppsjávarfiskur og djúpkarfinn alls ekki.
Févítiskrafa stefnanda byggi á ákvæði gr. 1.56. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands en í ákvæðinu segi:
„Kjarasamningsbrot varðar útgerðarmann févíti allt að kr. 342.110,00 er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands”.
Líta verði til þess að fyrirsvarsmenn stefnda, Samherja hf., hafi brotið gegn áskilnaði ákvæðis gr. 5.12. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands af ásetningi og látið mótmæli talsmanna sjómannasamtakanna eins og vind um eyru þjóta.
Krafist er að stefnda, Samherja hf., verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti af 342.110 krónum frá 18. júní 2003 til greiðsludags en ætluð brot stefnda hafi átt sér stað þann dag.
Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð upp með þeim hætti sem Félagsdómur hafi þegar dæmt í máli nr. F-15/2001: Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Bervíkur ehf.
Málsástæður og lagarök stefnda:
Stefndi byggir á því að frystitogarinn Baldvin Þorsteinsson EA-10 hafi gert hlé á veiðiferð og komið til löndunar í Reykjavík 18. júní 2003 og haldið aftur til veiða strax að löndun lokinni. Skipið hafi haft viðdvöl í Reykjavíkurhöfn frá því kl. 11 miðvikudaginn 18. júní til kl. 8 fimmtudaginn 19. júní. Landað hafi verið 491 tonni af frystum karfa úr skipinu samkvæmt aflayfirliti Fiskistofu. Afli skipsins hafi allur verið á brettum í lest skipsins sem sé nýlunda frá því um vorið 2003. Væri því einkum um stjórnun tækja að ræða í vinnu við löndun úr skipinu en ekki líkamlega áreynslu við burð á fiskikössum um lestina eins og á öðrum skipum.
Ákvörðun um að skipverjar ynnu við að landa aflanum hafi verið tekin um borð í skipinu en ekki hafi verið um fyrirmæli frá útgerðinni að ræða. Þar sem allur aflinn hafi verið á brettum í lest skipsins hafi verið um tækjavinnu að ræða og einungis 5-6 skipverjar unnið í senn að lönduninni eftir því hvort notaðir voru einn eða tveir lyftarar. Við löndunina hafi verið notaðir lyftarar í lest og híft á krana skipsins svo að ekki hafi þurft á tækjum úr landi að halda. Vöktum hafi ekki verið slitið og vakthafandi menn unnið við löndun á vakt sinni auk skipverja sem hafi verið að fara í frí og koma úr fríi. Á skipinu séu nánast tvær áhafnir þar sem flestir skipverja séu í fríi aðra hverja veiðiferð í stað þriðju eða fjórðu hverja veiðiferð samkvæmt gr. 5.24. og 5.12. Umrædd veiðiferð hafi staðið yfir frá 3. júní til 8. júlí en þann dag hafi áhöfnin farið flugleiðis til Akureyrar til að taka heimahafnarfrí samkvæmt kjarasamningi og hún farið aftur á sjó þann 12. júlí. Skipverjar og útgerð skipti með sér söluverði aflans og ráðist því launatekjur skipverja af verðmæti þess sem þeir dragi úr sjó. Það sé því ótvíræður hagur þeirra að eyða sem minnstum tíma í höfn og vera á sjó þegar veiðivon sé og afla sem mest. Aflayfirlit sýni að skipið hafi komið hálfum mánuði seinna með enn meiri afla eða rösklega 500 tonn af frystum karfa. Sé málshöfðunin illskiljanleg þar sem enginn félagsmanna Vélstjórafélags Íslands hafi unnið við umrædda löndun.
Stefndi byggir sýknukröfu á því að útgerðin hafi ekki brotið gegn ákvæðum gr. 5.12. í kjarasamningi aðila. Mótmælt er sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum í stefnu um að vélstjórum skipsins hafi verið skipað að landa afla skipsins í Reykjavíkurhöfn 18. júní 2003. Vélstjórar skipsins hafi ekki unnið við löndunina heldur sinnt öðrum störfum í inniverunni svo sem olíutöku og ýmsu öðru sem þeir hafi sinnt á skipum stefnda undanfarin ár.
Skipstjórinn og áhöfn hans hafi ákveðið að landa úr skipinu í Reykjavík 18. júní. Hefði aflanum hins vegar verið landað á Akureyri mætti búast við að skipverjar hefðu frekar kosið að skreppa heim til sín og hitta fjölskylduna á meðan á löndun stóð þar sem þeir eigi samkvæmt kjarasamningi rétt á fríi við löndun. Þá hafi stefndi, til viðbótar við aflahlut, greitt skipshöfninni samtals 423.000 krónur fyrir löndunina í stað þess að kaupa vinnuna af aðilum í landi. Þá skipti vilji skipverja máli en ekkert liggi fyrir um það að mál þetta sé höfðað með vilja og í umboði félagsmanna stefnanda.
Stefndi byggir lækkunarkröfu sína á því að gr. 1.56. tilgreini hámarksfjárhæð og verði því að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé. Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir ákveða sjálfir eða eru samþykkir því að flýta fyrir og landa úr skipinu til að komast sem fyrst á veiðar aftur hvað þá ef þeir hafa sjálfir tekið þá ákvörðun eða átt þátt í henni.
Niðurstaða:
Auk kröfu um að stefndi verði dæmdur til greiðslu févítis krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða dráttarvexti af févítinu frá 18. júní 2003 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Ákvörðun um vexti á ekki undir valdsvið Félagsdóms eins og það er markað samkvæmt 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með áorðnum breytingum. Ber því að vísa þessum þætti í kröfugerð stefnanda sjálfkrafa frá dómi. Að öðru leyti fellur sakarefnið undir valdsvið dómsins samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.
Í málinu er um það deilt hvort vinna tilgreindra félagsmanna stefnanda við þá löndun úr skipi stefnda, Samherja hf., Baldvin Þorsteinssyni EA-10, sem fram fór í Reykjavíkurhöfn 18. júní 2003, hafi falið í sér brot á því ákvæði kjarasamnings aðila sem kveður á um að vélstjórar skuli eiga frí við löndun. Stefnandi telur að svo sé og vísar til samningsákvæða þar að lútandi er séu skyldubundin og ófrávíkjanleg. Af hálfu stefnda er því á hinn bóginn haldið fram að engu broti á ákvæðum kjarasamnings hafi verið fyrir að fara enda hafi áhöfnin tekið að sér löndun gegn greiðslu samkvæmt eigin ákvörðun án fyrirmæla útgerðar þar um en það hafi skipverjum verið fyllilega heimilt. Þá hafi enginn félagsmanna stefnanda unnið við umrædda löndun.
Það skip hins stefnda útgerðarfélags, sem hér um ræðir, er frystitogari og hafði verið á karfaveiðum. Umrætt sinn var landað úr skipinu frystum karfa, djúpkarfa og úthafskarfa og var um svonefnda „millilöndun” að ræða en í því tilviki rýfur löndun ekki veiðiferð. Fram er komið að um nýlundu var að ræða við löndunina þar sem áður hafði verið gengið frá aflanum á bretti í lest skipsins.
Í 1. mgr. gr. 5.12. í kjarasamningi aðila er mælt svo fyrir að á togurum skuli vélstjórar hafa frí við löndun. Í þeim kafla kjarasamningsins (5.2.), sem fjallar um frystitogara, er ekki mælt sérstaklega fyrir um frí skipverja við löndun en í gr. 5.25., er um gildissvið eftirfarandi tekið fram: „Að öðru leyti en því er hér greinir um frystitogara gilda ákvæði hinna almennu bátakjarasamninga eins og við á um togara”. Samkvæmt þessu verður að telja að greint ákvæði gr. 5.12. um frí við löndun gildi í greindu tilviki og verður ekki séð að um það sé ágreiningur.
Fram er komið í málinu að þegar löndunin fór fram var notaður skipskrani til að hífa bretti úr lest og þá voru lyftarar brúkaðir til að færa bretti til svo að unnt yrði að hífa þau. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þar sem það sé hluti af vinnuskyldu vélstjóra að sjá um að gera við bæði krana og lyftara, bili búnaður þeirra, hafi þátttaka þeirra í lönduninn verið rökbundin nauðsyn þess að hún gæti farið fram. Þykir verða að leggja til grundvallar að svo hafi verið og verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á hið gagnstæða.
Svo sem áður greinir er það álit dómsins að umrætt ákvæði gr. 5.12. um frí við löndun gildi í því tilviki sem mál þetta tekur til. Að virtu orðalagi ákvæðisins og samanburði við önnur ákvæði kjarasamningsins, sem kveða á um frí við löndun, verður og að telja að um sé að ræða skyldubundið og ófrávíkjanlegt ákvæði. Er það útgerðar skipsins að sjá til þess að ákvæði þetta sé virt. Samkvæmt því er fallist á með stefnanda að stefndi, Samherji hf., hafi brotið gegn þessu ákvæði kjarasamningsins greint sinn. Af því leiðir að dæma ber stefnda, Samherja hf., til greiðslu févítis samkvæmt gr. 1.56. í kjarasamningi aðila er renni í félagssjóð stefnanda.
Ekki er um tölulegan ágreining um fjárhæð févítisins að ræða með aðilum. Stefndi hefur á hinn bóginn krafist lækkunar þess á þeim grundvelli að vega verði og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé. Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir ákveða sjálfir eða eru samþykkir því að flýta fyrir og landa úr skipinu til að komast sem fyrst á veiðar aftur hvað þá ef þeir hafa sjálfir tekið þá ákvörðun eða átt þátt í henni. Að mati dómsins þykja ekki vera næg efni til að verða við lækkunarkröfu stefnda. Verður hann því dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð sem krafist er.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Dómsorð:
Stefndi, Samherji hf., braut gegn ákvæði 1. mgr. gr. 5.12. í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.
Stefndi, Samherji hf. greiði 342.110 krónur í févíti, er renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands, en kröfu um dráttarvexti er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Samherja hf., greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.
Helgi I. Jónsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Gunnar Sæmundsson
Sératkvæði Valgeirs Pálssonar
Í kafla 5.20 í gildandi kjarasamningi stefnanda við stefnda Samtök atvinnulífsins vegna aðildarfélaga LÍÚ er fjallað um kjör vélstjóra á frystitogurum. Í grein 5.25 eru ákvæði um vinnu vélstjóra og gildissvið. Þar segir í 1. mgr. að vélstjórum skuli greitt kaup samkvæmt launatöflu samningsaðila þurfi þeir að hafa eftirlit með skipum. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að öðru leyti en því sem greinir í þessum kafla um frystitogara “gilda ákvæði hinna almennu bátakjarasamninga eins og við á um togara.”
Í grein 5.13 í kafla 5.10 í kjarasamningnum, sem á almennt við um togara, segir í 1. málslið 1. mgr. að við komu skips úr veiðiferð skuli vaktmaður úr landi taka við gæslu í vélarúmi. Í 3. mgr. þessarar sömu greinar segir að sú aðalregla skuli gilda að útgerðarmaður sjái um að vélstjórar þurfi ekki að hafa eftirlit með skipi, þegar hafnarfrí eru gefin.
Framangreind ákvæði ber að hafa í huga, þegar metið er hvort Samherji hf. hafi brotið gegn 1. mgr. greinar 5.12 í kjarasamningnum, sbr. 2. mgr. greinar 5.25, með því að hafa ekki tryggt þremur tilgreindum vélstjórum frí við löndun úr frystitogaranum Baldvini Þorsteinssyni EA-10 þann 18. júní 2003.
Einn vélstjóranna, Kolbeinn Sigmundsson, kom fyrir dóm. Hann bar að um svokallaða “millilöndun” hafi verið að ræða og í því hafi falist að skipið hafi komið til hafnar einungis í því skyni að landa afla úr skipinu og halda svo yfirstandandi veiðiferð áfram. Vélstjórarnir hafi unnið venjubundin störf um borð í skipinu meðan á löndun stóð. Í þeim efnum hafi engin breyting orðið á störfum þeirra frá því sem að jafnaði hefur tíðkast, þegar unnið er við löndun úr skipinu. Þeir hafi ekki tekið beinan þátt í sjálfri löndunarvinnunni.
Eins og hér stóð á var því ekki um það að tefla að skipið hafi verið að koma úr veiðiferð og ekki heldur að hafnarfrí hafi verið gefið meðan á viðdvöl skipsins stóð í Reykjavíkurhöfn. Af málflutningi aðila verður ekki annað skilið en þetta sé ágreiningslaust með þeim. Sú staða var því ekki uppi umrætt sinn að vaktmaður úr landi skyldi taka við gæslu í vélarúmi eða útgerðarmaður hafi átt að sjá um að vélstjórar þyrftu ekki að hafa eftirlit með skipinu, sbr. 1. og 3. mgr. greinar 5.13. Ekkert liggur fyrir í málinu að ráðnir vélstjórar á Baldvini Þorsteinssyni EA í umræddri veiðiferð hafi meðan á lönduninni stóð sinnt öðrum störfum en venjulegu eftirliti með skipinu eins og þeir kunna að þurfa að sinna, sbr. m.a. 1. mgr. greinar 5.25. Ákvæði 1. mgr. greinar 5.12., um að á togurum skulu vélstjórar hafa frí við löndun, verður ekki skilið svo að við þessar aðstæður sé vélstjórum á frystitogurum gert ókleift að sinna störfum sínum um borð í skipinu jafnvel þótt samtímis sé unnið við löndun úr því. Þá eru ákvæði kjarasamningsins, sem hér eru til skoðunar, alls ekki svo skýr og afdráttarlaus að Samherja hf. verði gert að greiða févíti í félagssjóð stefnanda samkvæmt grein 1.56 í kjarasamningnum. Að framangreindu virtu verður að telja að ekki sé unnt að taka kröfur stefnanda til greina.
Atkvæði mitt verður því að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og eftir atvikum sé rétt að stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.
Valgeir Pálsson.