Nýmæli í þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri
Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, fjallaði um ýmis nýmæli í þjónustu sjúkrahússins í ávarpi á ársfundi þess í liðinni viku. Hann sagði frá bættu vinnulagi sem hefur gert kleift að fjölga gerviliðaaðgerðum til muna og gerði einnig rafrænar lausnir og fjarþjónustu að umtalsefni.
Ársfundurinn var haldinn undir yfirskriftinni Áfram veginn. Eðli málsins samkvæmt var fjallað um starfsemi sjúkrahússins á liðnu ári, en einnig um þær vörður sem vísa veginn fram á við. Dag- og göngudeildarþjónusta sjúkrahússins eykst ár frá ári og voru komur á dagdeildina 5% fleiri í fyrra en árið áður. Bjarni segir að þrátt fyrir að meginverkefni sjúkrahússins séu áþekk milli ára en vaxi í takt við íbúaþróun sé sífellt verið að huga að frekari þróun starfseminnar, endurbótum á meðferðum og vinnulagi og að innleiða nýja þjónustu.
Þjónusta við brjóstarannsóknir og sjúklinga eftir brjóstnám hefur aukist verulega og klínískar brjóstarannsóknir við sjúkrahúsið hafa aukist um 40%. Sett hefur verið á fót ný þjónusta sem felst í móttöku og ráðgjöf hjúkrunarfræðinga fyrir sjúklinga eftir brjóstanám, ýmist með viðtölum á göngudeild, vitjunum til inniliggjandi sjúklinga eða með símaráðgjöf. Síma- eða fjarráðgjöf er vaxandi þáttur í ráðgjöf eða undirbúningi sjúklinga fyrir aðgerð og á almennu göngudeildinni fer sífellt meiri tími í símaráðgjöf.
Af nýmælum nefnir forstjóri sérhæft eftirlit mikilla fyrirbura í samstarfi við Landspítala, starsfemi sérstaks ökumatsteymis sem hefur það meginhlutverk að meta aksturshæfni einstaklinga með heilabilun og þeirra sem hafa fengið heilaáföll og í lok síðasta árs var unnið að undirbúningi göngudeildar endurhæfingardeildar sem hóf starfsemi á þessu ári. Á þessu ári verður unnið að samþættingu á starfsemi Heimahlynningar við starfsemi sjúkrahússins ásamt uppbyggingu þjónustu líknar- og lífslokameðferðar á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
Gerviliðaaðgerðum fjölgað úr 200 – 430 á þremur árum
Fram kom í máli Bjarna að átak sem hafið var til að stytta bið eftir völdum aðgerðum hefur bætt vinnulag og stytt legutíma á sama tíma og bið eftir aðgerð hefur styst verulega. Árið 2015 var farið að rýna betur vinnulag vegna gerviliðsaðgerða undir vinnuheitinu flýtibati með það að leiðarljósi að bæta árangur og líðan sjúklinga og getu þeirra til að útskrifast fyrr. Þetta hefur skilað þeim árangri að á síðasta ársfjórðungi 2018 útskrifuðust tveir af hverjum þremur sjúklingum daginn eftir aðgerð og yfir 90% hafa útskrifast á öðrum degi eftir aðgerð. Áður var algengast að sjúklingar lægju inni í 4 daga vegna gerviliðsaðgerða.
„Flýtibataferlið hefur gagnast öðrum einstaklingum sem koma í gerviliðsaðgerðir og stytt legutíma. Styttri legutími hefur gert okkur kleift að auka fjölda aðgerða með tiltölulega takmarkaðri aukningu á fjölda legurýma. Þetta verkefni hefur styrkt starfsemi bæklunarskurðlækninga verulega“ sagði Bjarni meðal annars í ávarpi sínu.
„Ég hef nefnt hér nokkra nýja þætti í starfseminni og aðra sem hafa verið að vaxa í takt við þarfir íbúanna. Við viljum og ætlum okkur að sinna sem mestu af þörfum íbúa sem á svæðinu búa og þekkingarlega og heilsuhagfræðilega er skynsamlegt að gera. Þess vegna er m.a. verið að skoða fýsileika þess að bjóða hér upp á hjartaþræðingar“ sagði Bjarni Jónasson meðal annars.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu sótti ársfundinn og flutti ávarp fyrir hönd Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Í ávarpi ráðherra var fjallað um mikilvægi skýrrar stefnu í heilbrigðismálum, forgangsröðun verkefna og trygga fjármögnun þeirra. Einnig að nauðsynlegt sé að standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið til að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar: „Við sjáum það hér á Sjúkrahúsinu á Akureyri að það skilar árangri að styrkja stoðir hins opinbera heilbrigðiskerfis. Við sjáum líka að stofnanirnar eru sterkari saman og samvinna þeirra skilar árangri, sagði meðal annars í ávarpi ráðherra.