Hoppa yfir valmynd
3. október 2016 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

„List fyrir alla“ verkefnið hafið

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Grunnskólann í Hveragerði í morgun þegar verkefnið „List fyrir alla“ hóf för sína um landið með tónleikunum Suður um höfin.

Tónleikunum Suður um höfin er á heimasíðu List fyrir alla lýst svona:

"Ber hugurinn mann virkilega hálfa leið?

Við skulum skoða málið. Ferðumst saman suður um höfin til framandi landa í Suður-Ameríku. Á þessu ímyndaða ferðalagi kynnumst við tónlist frá svæðinu og komumst að því að það er af nógu að taka. Þarna er hafsjór af skemmtilegri tónlist með fjörugum trommu- og hljóðfæraslætti.

Til að hjálpa okkur að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn enn frekar sjáum við svipmyndir frá stöðum eins og Mexíkó, Kólumbíu, Perú, Chile, Argentínu og Brasilíu og fræðumst lítillega um löndin í leiðinni. Þarna er víðfemt og fjölbreytileikinn gríðarlegur og svo ótrúlega margt að sjá og skoða".

List fyrir alla er nýtt barnamenningarverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem nú er hafið. Verkefnið á að tryggja að öll börn og ungmenni á Íslandi fái aðgang að listum  í hæsta gæðaflokki óháð búsetu og efnahag.

List fyrir alla mun leggja höfuðáherslu á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Markmiðið er að fyrir tilstuðlan verkefnisins eigi öll grunnskólabörn á Íslandi þess kost að njóta reglulegra heimsókna listafólks.

Stefnt er að því að á þeim tíu árum sem nemendur stunda nám í grunnskóla  öðlist þeir góða yfirsýn og kynnist fjölbreyttum listformum og stílum frá mismunandi tímabilum, ólíkum menningarheimum og íslenskum menningararfi.

Á þessu ári munu átta listverkefni fara um landið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta