Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 616/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 616/2021

Fimmtudaginn 24. febrúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á árinu 2021 samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá B. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2021, var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir maímánuð 2021, að fjárhæð 152.566 kr., á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. nóvember 2021, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 28. desember 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. janúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta 152.566 kr. vegna minnkaðs starfshlutfalls. Eins og sjá megi af launaseðli fyrir þann mánuð sem um ræði sé ástæðan fyrir þessari háu upphæð útborgun á orlofi. Það sé vegna þess fyrirtækið hafi ekki lagt orlof hans inn á reikning og hann hafi farið fram á útborgun þess við starfslok. Að mati kæranda sé það fáránlegt að hann sé látinn gjalda fyrir það að fyrirtækið hafi verið að reyna að komast upp með að borga ekki launatengd gjöld. Í stað þess að allt hafi verið uppi á borðum sé hann látinn greiða 152.566 kr. í sekt. Fyrir þennan mánuð hafi kærandi fengið sömu laun frá fyrirtækinu eins og alla mánuði áður eins og fyrirkomulag hlutabótaleiðar hafi verið. Orlofið sem sé skráð á hina launaseðla hans hafi aldrei verið greitt og þess vegna sé þetta greitt allt í einu fyrir þann mánuð. Að mati kæranda sé ósanngjarnt og óréttlátt að hann sé látinn gjalda fyrir mistök atvinnurekanda.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 19. september 2020, sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan hann starfaði í minnkuðu starfshlutfalli, eða á svokallaðri hlutabótaleið, sbr. þágildandi XVI. ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi starfað í 100% starfi hjá B en í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafi fyrirtækið og kærandi sótt um greiðslu hlutabóta. Með erindi, dags. 22. september 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt. Á áðurnefndu tímabili hafi kærandi fengið greiddar 50% atvinnuleysisbætur á móti 50% launagreiðslu frá atvinnurekanda. Með greiðsluseðli, gefnum út þann 10. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að skuld hefði myndast við Vinnumálastofnun að fjárhæð 152.566 kr. Þann 8. nóvember 2021 hafi verið farið þess á leit við kæranda að umrædd skuld yrði greidd. Áður hafi myndast skuld að fjárhæð 26.486 kr. vegna tilfallandi tekna í júlí 2020. Sú skuldamyndun sé ekki kæruefni í máli þessu.

Skuld hafi myndast við Vinnumálastofnun vegna þess að kærandi hafi fengið greidd laun vegna maímánaðar 2021 sem hafi verið umfram hámarksfjárhæð hlutabóta samkvæmt XVI. ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Meðal gagna í málinu sé launaseðill kæranda frá B vegna maímánaðar 2021. Þar komi til dæmis fram að kærandi hafi fengið greitt orlof að fjárhæð 518.709 kr. Samtals hafi þau laun sem kærandi hafi fengið greidd frá atvinnurekanda sínum í apríl verið 1.007.512 kr.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort skerða hefði átt greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli, sbr. XVI. ákvæði til bráðabirgða, vegna þeirra orlofslauna sem kærandi hafi fengið greidd frá atvinnurekanda sínum í maí 2021.

Eins og rakið hafi verið í málsatvikum hafi kærandi þegið greiðslur frá Vinnumálastofnun á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um hafi verið að ræða svokallaða hlutabótaleið samkvæmt þágildandi XVI. ákvæði til bráðabirgða. Svohljóðandi hafi 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins verið:

„Við greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 30. júní 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 17. gr., vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Hið sama gildir á tímabilinu 1. júlí 2020 til og með 31. maí 2021 enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Vinnuveitanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.“

Í 5. mgr. XVI. ákvæðisins sé kveðið á um greiðslur atvinnuleysisbóta til þeirra sem starfi á hlutabótaleið. Þar segi orðrétt:

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.“

Líkt og segi í síðasta málslið 5. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir til launa og skuli í því samhengi horfa til laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um tryggingagjald teljist til gjaldstofns tryggingagjalds hvers konar laun og þóknanir, þar með talið orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof. Samkvæmt launaseðli kæranda vegna [maímánaðar 2021] hafi hann jafnframt fengið greidda orlofsuppbót, desemberuppbót og fleiri þess konar greiðslur. Slíkar greiðslur teljist jafnframt til launa samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um tryggingagjald. Með vísan til 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins og laga um tryggingagjald skerði orlofsgreiðslur því hlutabætur til jafns við aðrar skattskyldar tekjur. Í ljósi framangreinds telji Vinnumálastofnun að áunnin orlofslaun kæranda, sem hann hafi fengið greidd út í maí 2021, skuli telja með þegar reiknuð séu laun hans frá vinnuveitanda í samræmi við XVI. ákvæði til bráðabirgða.

Meðaltal heildarlauna kæranda, sbr. 3. málsl. 2. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða, hafi verið 784.968 kr. Heildarlaun kæranda vegna maímánaðar 2021 frá atvinnurekanda hafi eins og áður segi verið 1.007.512 kr. Þá hafi kærandi fengið greiddar 236.417 kr. frá Vinnumálastofnun. Því liggi fyrir að laun kæranda hafi verið yfir því marki sem kveðið sé á um í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Því hafi komið til skerðingar samkvæmt ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna þeirra atvinnuleysisbóta sem kærandi hafi fengið greiddar í maímánuði sem síðar hafi leitt til þess að skuld hafi myndast við Vinnumálastofnun að fjárhæð 152.566 kr.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem hafi fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum, endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Með vísan til alls framangreinds beri kæranda því að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2021, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir maímánuð 2021, að fjárhæð 152.566 kr., vegna uppsafnaðs orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar sem kærandi fékk greitt í þeim mánuði en hann þáði atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Í 1. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að við greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. júní 2020 til og með 30. júní 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skuli föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr., enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Hið sama gildi á tímabilinu 1. júlí 2020 til og með 31. maí 2021, enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli.

Þá segir í 5. mgr. ákvæðisins: 

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.“

Í 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald kemur fram að til gjaldstofns samkvæmt 6. gr. sömu laga teljist hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt framansögðu fellur því áunnið og uppsafnað orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót undir laun í skilningi 5. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006.

Ágreiningur málsins lýtur að þeirri túlkun Vinnumálastofnunar að áunnið og uppsafnað orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót sem kærandi fékk greitt samhliða launum í maímánuði 2021 séu laun í þeim mánuði og komi því til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta.

Í grein 1.7.1. í kjarasamningi á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og MATVÍS kemur fram að starfsmaður í 100% starfshlutfalli fái greidda persónuuppbót 1. maí og 1. desember ár hvert. Greitt skuli hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag. Persónuuppbót sé föst fjárhæð og taki ekki breytingum samkvæmt öðrum ákvæðum samningsins. Þá segir að áunnin persónuuppbót skuli gerð upp við starfslok starfsmanns. Af framangreindu er ljóst að um áunnin réttindi er að ræða í samræmi við starfshlutfall og starfstíma viðkomandi sem greitt er út eftir að ávinnslutímabili lýkur eða við starfslok. Í 4. gr. kjarasamningsins er fjallað um orlof. Þar segir í grein 4.1. að lágmarksorlof skuli vera 240 vinnuskyldustundir (30 dagar) miðað við fullt ársstarf. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd út áunnin orlofslaun frá vinnuveitanda sínum vegna starfsloka í maí 2021. Úrskurðarnefndin telur ljóst að þar hafi einnig verið um áunnin réttindi að ræða sem reiknuð voru út frá starfstíma kæranda.

Að framangreindu virtu fellst úrskurðarnefndin ekki á að sú greiðsla sem kærandi fékk í maímánuði 2021 fyrir áunnið og uppsafnað orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót teljist sem laun fyrir þann mánuð. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi verið óheimilt að skerða atvinnuleysisbætur kæranda í maí 2021 vegna þeirrar greiðslu. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2021, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta