Ársfjórðungsuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins
Heildarútgjöld ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins námu 472,4 ma.kr. að því er fram kemur í ársfjórðungsuppgjöri sem sýnir stöðu fjármála innan ársins hjá einstökum ríkisaðilum í A-hluta ríkissjóðs með hliðsjón af veittum fjárheimildum. Meirihluti fjárlagaliða er innan fjárheimilda á tímabilinu.
Heildarútgjöld fyrir janúar-september námu 472,4 ma.kr. og voru 1,9 ma.kr. umfram fjárheimildir tímabilsins en eru 3,5 ma.kr. innan heildarheimilda þegar tekið er tillit til fjárheimildastöðu frá fyrra ári.
Samtals eru 227 fjárlagaliðir með útgjöld innan heimilda ársins, sem nema samtals 13,1 ma.kr. 134 fjárlagaliðir eru með útgjöld umfram fjárheimildir ársins. Þar af eru 53 þar sem hallinn er undir 10 m.kr. og samtals um 180 m.kr. en gert er ráð fyrir að flestir þessara liða verði innan heimilda í árslok. Fáir liðir skýra stærstan hluta umframútgjalda en af 15 stærstu umframútgjaldaliðum fara fimm um 8.ma.kr. fram úr heimildum. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir 2015 gerir ráð fyrir að 10 af 15 stærstu hallaliðunum fái viðbótarfjárheimildir sem eiga að tryggja að staða þeirra verði innan heimilda.
Ráðuneyti bera hvert um sig ábyrgð á því að dreifing fjárheimilda innan ársins sé sem næst áætlaðri dreifingu raunútgjalda og er lögð áhersla á að ráðuneyti yfirfari vandlega dreifingu fjárheimilda innan ársins á þeim liðum sem undir þau heyra.