Hoppa yfir valmynd
30. maí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kærð ákvörðun tollstjóra um endurgreiðslu dráttarvaxta

[…]
[…]
[…]

 

Reykjavík 30. maí 2012
Tilv.: FJR12030005/16.2.2

Efni: Úrskurður tollstjóra, dags. 13. febrúar 2012.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 1. mars 2012, þar sem kærð er til ráðuneytisins sú ákvörðun tollstjóra, dags. 13. febrúar 2012, að synja yður um endurgreiðslu dráttarvaxta.

Málavextir og málsástæður
Málavextir eru þeir að þann 30. desember 2011 greiddi kærandi skattkröfu að fjárhæð 2.447.873 kr. Krafan var greidd í netbanka Íslandsbanka kl. 22:13 að kvöldi föstudagsins 30. desember 2011. Í framhaldi krafðist tollstjóri dráttarvaxta vegna þess að greiðsla barst ekki innan tilskilins frests en greiðslan barst tollstjóraembættinu mánudaginn 2. janúar 2012. Kærandi óskaði eftir með bréfi, dags. 29. janúar 2012, við tollstjóra að felldir yrðu niður umræddir dráttarvextir með þeim rökstuðningi að í 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skuli greiða dráttarvexti og að fyrrnefnd greiðsla kæranda hafi átt stað þann 30. desember 2011 en ekki þann 2. janúar 2012 líkt og bókun tollstjóra kvað á um. Af þessum sökum taldi kærandi að greitt hafi verið í almanaksmánuði, sbr. 114. gr. laga nr. 90/2003, og væri tollstjóra þar af leiðandi óheimilt að reikna dráttarvexti vegna greiðsludráttar. Með bréfi, dags. 13. febrúar 2012, hafnaði tollstjóri kröfu kæranda um niðurfellingu dráttarvaxta á þeim grundvelli að allar greiðslur sem greiddar væru í netbanka eftir kl. 21:00 færu yfir á næsta virka dag og í tilviki kæranda hafi næsti virki dagur eftir 30. desember 2011 verið 2. janúar 2012. Af þeim sökum hafi verið reiknaðir dráttarvextir. Ekki væri heimild til að fella niður dráttarvextina og yrði því að synja erindi kæranda.

Kærandi krafðist endurupptöku málsins með bréfi, dags. 15. febrúar 2012, á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í beiðninni um endurupptöku rakti kærandi málavexti og þá forsendur tollstjóra að hafna bæri niðurfellingu dráttarvaxta á þeim grundvelli að ekki væri lagaheimild til þess. Þá kveður kærandi það óumdeilt að hann hafi greitt umrædda kröfu þann 30. desember 2011 og sé það svo að hún færist yfir á næsta dag, þ.e. þann 31. desember, þá sé það samt innan mánaðar frá gjalddaga líkt og ákvæði 114. gr. laga nr. 90/2003 kvæði á um. Með vísan til þessa væri óheimilt af tollstjóra að reikna vexti og gerði kærandi kröfu um endurgreiðslu. Þá var jafnframt óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir synjun tollstjóra. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2012, vísaði tollstjóri til 114. gr. laga nr. 90/2003 til frekari rökstuðnings fyrir niðurstöðu sinni og þar sem greiða skuli þing- og sveitasjóðsgjöld innan þess mánaðar sem þau gjaldfalla sé eindagi kröfunnar síðasti virki dagur mánaðarins. Þá skuli rafræn skil samkvæmt tollstjóra gerð eigi síðar en kl. 21:00 á eindaga kröfunnar.

Með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga var með bréfi til ráðuneytisins þann 1. mars 2012 kærð sú ákvörðun tollstjóra að synja um endurgreiðslu meintra ofgreiddra dráttarvaxta. Í kærunni var ítrekað að greiðsla sem innt væri af hendi þann 31. desember 2011 væri „innan mánaðar“ frá gjalddaga líkt og lög kvæðu á um. Kærandi taldi það vera óumdeilt að greiðslan hafi verið innt af hendi þann 31. desember 2011 ef ekki væri fallist á það að greitt hafi verið þann 30. desember. Slíkt væri þar af leiðandi innan mánaðar enda væri almanaksmánuðurinn desember alls 31 dagar og hefði því verið því óheimilt að reikna vexti og bæri þar af leiðandi að endurgreiða þá.
Með bréfi, dags. 2. mars 2012, óskaði ráðuneytið með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga eftir umsögn tollstjóra um málið ásamt því að þau gögn sem málið kynni að varða og hefðu ekki verið lögð fram yrðu send ráðuneytinu. Umsögn tollstjóra barst síðan með bréfi, dags. 30. mars 2012. Í umsögn tollstjóra kemur fram að ekki væri ágreiningur um að kærandi hafi greitt kröfu sína í netbanka Íslandsbanka föstudaginn 30. desember 2011 eftir kl. 21:00. Næsti virki bankadagur hafi hins vegar verið 2. janúar 2012 og greiðslan hafi því bókast þann dag inn á reikning tollstjóra samkvæmt hreyfingaryfirliti Tekjubókhaldskerfis ríkisins. Tollstjóri vísar til meginreglna kröfuréttar um að krafa teljist vera greidd þegar greiðslan er komin í hendur kröfuhafa. Krafan teljist þannig vera greidd þegar kröfuhafi hafi aðgang að greiðslunni og geti ráðstafað henni. Af þessum sökum sé það tímamarkið hvenær greiðslan berst kröfuhafa er ræður því hvort krafa sé greidd á tilteknum tíma eður ei og sé það á ábyrgð og forræði skuldara að greiðsla berist kröfuhafa á réttum tíma. Eins og fyrr segi þá hafi umrædd greiðsla ekki borist tollstjóra fyrr en 2. janúar 2012 og þar af leiðandi hafi reiknast lögvarðir dráttarvextir á kröfuna enda hefði greiðslan þurft á bókast inn á reikning tollstjóra í síðasta lagi 30. desember 2011 til að forðast álagningu dráttarvaxta. Máli sínu til stuðnings vísaði tollstjóri til úrskurðar yfirskattanefndar, nr. 321/2004.

Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt kröfuréttarlegum sjónarmiðum leiðir greiðsla skuldara til kröfuhafa til brottfalls skyldu skuldara og þar með til loka kröfuréttindanna að greitt sé í samræmi við ákvæði samnings eða almennra lagareglna. Inni skuldari ekki greiðslu sína af hendi á réttum tíma og réttum stað er um vanefnd af hans hálfu að ræða sem heimilar kröfuhafa að beita vanefndarúrræðum til að mynda í formi dráttarvaxta.

Í vissum skuldarasamböndum er það svo að skuldari hefur ákveðinn frest til þess að greiða eftir gjalddaga og af þeim fresti leiðir að kröfuhafi á ekki rétt til dráttarvaxta. Ef skuldari greiðir hins vegar eftir að fresturinn er útrunninn reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Þegar slíkur greiðsludráttur verður, þ.e. umsamin greiðsla er annað hvort greidd of seint eða ekki innt af hendi, öðlast kröfuhafi tiltekið úrræði eða heimildir af því tilefni á hendur skuldara. Þegar um er að ræða dráttarvexti er átt við þá vexti sem falla á kröfu eftir gjalddaga, það er það tímamark þegar kröfuhafa er fyrst heimilt að krefjast þess að skuldari inni greiðslu sína af hendi, eða eindaga. Má þannig segja að með dráttarvöxtum sé átt við bætur fyrir vanefnd greiðslu höfuðstóls án tillits til þess hvernig á drættinum stóð.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er, sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Með gjalddaga í þessu sambandi er átt við reglulega gjalddaga samkvæmt 1.-4. og 6.-8. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003 og dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Ein af meginreglum kröfuréttar felst í því að tímamarkið þegar greiðslan kemur til kröfuhafa ræður því hvort greiðslan var innt af hendi á réttum tíma eða ekki. Greiðsla er talin hafa átt sér stað og skuldari þar með laus undan skuldbindingum sínum á því tímamarki þegar greiðslan er komin til kröfuhafa. Ef litið er til þess hvað átt sé við með „komin til“ vísast til almennra athugasemda við 2. og 7. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þar segir meðal annars að samþykkjanda tilboðs er ekki nóg að hafa sent svarið af stað áður en fresturinn er liðinn. Hið sama er talið eiga við í tilviki skuldara og kröfuhafa.

Þá segir ennfremur í lokamálslið ákvæðis 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 13/2003, um skil á staðgreiðslu útsvars, tekjuskatts og tryggingargjalds, að rafræn skil skuli gerð eigi síðar en kl. 21:00 á eindaga kröfu en óumdeilt er að kærandi greiddi skattkröfu að fjárhæð 2.447.873 kr. í netbanka Íslandsbanka eftir kl. 21:00 eða kl. 22:13 að kvöldi þess 30. desember 2011. Þar sem 30. desember var á föstudegi barst greiðslan ekki fyrr en á mánudeginum 2. janúar 2012 í ríkissjóð. Ráðuneytið telur að líta verði til meginreglna kröfuréttar um að skuldari beri hallann af því að greiðslan berist ekki til kröfuhafa innan tilskilins frest og með vísan til þess sem að framan er rakið fellst ráðuneytið á það með tollstjóra að synja beri beiðni kæranda um endurgreiðslu dráttarvaxta.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 13. febrúar 2012, um að synja kæranda um endurgreiðslu dráttarvaxta er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta