Ólafur Darri Andrason skipaður skrifstofustjóri á skrifstofu eftirfylgni og fjármála
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa Ólaf Darra Andrason í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu eftirfylgni og fjármála til næstu fimm ára.
Ólafur Darri hefur starfað sem sérfræðingur og deildarstjóri fjárhagsdeildar í menntamálaráðuneytinu og sem forstöðumaður fjármálasviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Hann var fjárreiðustjóri Reykjavíkurborgar og síðan aðalhagfræðingur ASÍ og deildarstjóri hagdeildar. Ólafur Darri gegndi embætti skrifstofustjóra skrifstofu hagmála og fjárlaga í velferðarráðuneytinu í þrjú ár og var settur ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu á árinu 2019 þar til hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjármála á Landspítala sama ár og gegndi hann því starfi til loka árs í fyrra. Ólafur Darri er í dag sjálfstætt starfandi ráðgjafi.
Ólafur Darri er með BS gráðu í hagfræði og MS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands.
Alls bárust 23 umsóknir um embættið sem auglýst var laust til umsóknar í desember sl. Hæfnisnefnd sem skipuð var af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að meta hæfni og hæfi umsækjenda skilaði greinargerð sinni til ráðherra í samræmi við reglur nr. 393/2012.