Hoppa yfir valmynd
5. maí 2022 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Einn milljarður króna í aðstoð til Úkraínu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, og Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í framlagaráðstefnu til stuðnings Úkraínu sem fram fór í Varsjá í Póllandi.

Á ráðstefnunni tilkynnti forsætisráðherra um verulega aukin framlög Íslands til mannúðarmála og efnahagsaðstoðar til Úkraínu sem nema nú samtals 1 milljarði króna. Fyrri framlög námu 575 milljónum króna en Katrín tilkynnti um 425 milljónir til viðbótar. Framlag Íslands skiptist þannig að framlög til mannúðarmála nema 510 milljónum króna, 230 milljónum króna verður ráðstafað síðar til mannúðarmála og efnahagsstuðnings við Úkraínu, og 260 milljónir fara í sjóð á vegum Alþjóðabankans sem styðja mun efnahag Úkraínu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Með þessu nær tvöföldum við núverandi stuðning okkar við Úkraínu, þar sem megináherslan er áfram á mannúðarmál, stuðning við fólk á flótta og viðkvæma hópa en við leggjum einnig fram efnahagsaðstoð. Við Íslendingar viljum leggja okkar af mörkum á þeim sviðum þar við getum gert gagn.“

Í ávarpi sínu á ráðstefnunni ítrekaði forsætisráðherra fordæmingu íslenskra stjórnvalda á árásarstríði Rússlands. Innrás Rússlands væri gróft brot á alþjóðalögum og afleiðingar hennar væru skelfilegar fyrir óbreytta borgara. Sérstaklega þyrfti að huga að áhrifum stríðsins á konur og börn, ekki síst að því er varðar kynbundið ofbeldi og mansal. Katrín hrósaði íbúum Póllands og annarra nágrannaríkja Úkraínu fyrir að hafa tekið á móti milljónum flóttamanna og sagði Ísland vera órofa hluta hinnar breiðu alþjóðlegu samstöðu um stuðning við Úkraínu.

Gestgjafar ráðstefnunnar voru forsætisráðherrar Póllands og Svíþjóðar, forseti framkvæmdastjórnar ESB og forseti leiðtogaráðs ESB.

Í tengslum við ráðstefnuna átti Katrín tvíhliða fund með Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands þar sem þau ræddu stríðið í Úkraínu en einnig tvíhliða málefni þ.m.t. fyrirhugaða opnun sendiráðs Íslands í Varsjá síðar á árinu. Á tvíhliða fundi með Denys Shmyhal forsætisráðherra Úkraínu var rætt um stuðning Íslands við Úkraínu þar sem fram komu einlægar þakkir til íslensku þjóðarinnar. Katrín fundaði einnig með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, þar sem Úkraína var sömuleiðis efst á baugi og ræddu þær meðal annars um þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi. Loks hitti Katrín Rafał Trzaskowski borgarstjóra Varsjár og heimsótti móttökustöð Norsku flóttamannastofnunarinnar sem rekin er í samvinnu við borgaryfirvöld.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta