Hvar er þríeykið gegn kynbundnu ofbeldi?
„Á sama tíma og konur eru 70% þeirra sem eru í framlínunni um allan heim að bjarga mannslífum vegna COVID-19, hefur ekkert þríeyki stigið fram til að bjarga þeim 137 konum sem myrtar eru af nánum fjölskyldumeðlimi á hverjum einasta degi allan ársins hring. Tölurnar eru sláandi, svo við hjá UN Women spyrjum því, hvar er þríeykið gegn kynbundnu ofbeldi?,“ segir í grein frá landsnefnd UN Women á Íslandi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, sem var í gær.
Þá hófst enn fremur árlegt 16 daga alheimsátak gegn kynbundnu ofbeldi. Í ár er þemað: „Öflum fjár, bregðumst við, fyrirbyggjum og söfnum upplýsingum!“ („Orange the World: Fund, Respond, Prevent, Collect!“).
Ljósaganga UN Women markar yfirleitt upphaf 16 daga átaksins en vegna COVID-19 var engin ljósaganga í gær. Harpa er hins vegar lýst upp í appelsínugulum lit líkt og undanfarin ár, líkt og utanríkisráðuneytið og nokkur sendiráða Íslands, en liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. UN Women á Íslandi hvetur jafnframt alla til að kveikja á kertum í minningu þeirra 45.073 kvenna sem myrtar hafa verið af hendi náins fjölskyldumeðlims á heimsvísu það sem af er ári 2020.
„Samhliða alvarlegum efnahags- og félagslegum áhrifum heimsfaraldursins COVID-19 og aukinni félagslegri einangrun fólks hefur „skuggafaraldur“ kynbundins ofbeldis farið vaxandi um allan heim. Margar konur og stúlkur eru einangraðar og bundnar heima með ofbeldismönnum sínum vegna samkomu- og útgöngubanna. Nýjustu úttektir og rannsóknir benda til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna til viðbótar verði beittar kynbundnu ofbeldi. Á sama tíma er fjármagni oft beint frá nauðsynlegri stoðþjónustu á borð við kvennaathvörf og neyðarlínur.
Á heimsvísu hafa yfir 240 milljónir kvenna þurft að þola ofbeldi af hendi nákomnum aðila á síðustu tólf mánuðum. Þessi fjöldi mun að öllum líkindum aukast þar sem áhyggjur af heilsufari og fjárhagslegu öryggi skapar aukna streitu á heimilum sem þegar eru undir miklu álagi. Faraldurinn hefur einnig hræðileg áhrif á konur og stúlkur með fötlun sem geta átt í erfiðleikum með að tilkynna ofbeldi og misnotkun. Þá eru einnig aðrir jaðarsettir hópar í hættu svo sem konur í flóttamannabúðum,“ segir í grein UN Women.
Utanríkisráðuneytið vill jafnframt vekja athygli á rafrænni málstofu um konur, frið og öryggi, sem haldin er dag af tengslaneti norrænna kvenna í sáttarmiðlun á Íslandi, í samstarfi við Jafnréttisskóla GRÓ (GEST) og utanríkisráðuneytið. Málstofan hefst klukkan 14:00 í dag.