Jákvæð úttekt á heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu
Í óháðri úttekt alþjóðlegs ráðgjafafyrirtækis á samstarfi utanríkisráðuneytisins við atvinnulífið á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu er lagt til að heimsmarkmiðasjóðurinn starfi áfram með líku sniði og áður, með ólíkum gluggum fyrir forkönnunar- og verkefnastyrki. Megin niðurstaða úttektarinnar er jákvæð og lagt til að Ísland hefji nýtt starfstímabil heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs um þróunarsamvinnu og hlúð verði að þeim fjölmörgu tækifærum sem felast í ráðgjafalistum ráðuneytisins og alþjóðlegu samstarfi.
Úttektin var unnin af alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Niras. Hún beindist að ólíkum þáttum í samstarfi utanríkisráðuneytisins við aðila atvinnulífsins og samstarfstækifæri fyrir Ísland í gegnum nágrannaríki og alþjóðlegar samstarfsstofnanir.
Í úttektinni segir að í ljósi þess að einkageirinn á Íslandi sé tiltölulega lítill sé lagt til að þematískt og landfræðilegt umfang sjóðsins verði áfram víðtækt, en möguleiki sé til staðar fyrir sérstakar áherslur til að styðja við stefnu stjórnvalda. Einnig er lagt að skoðaðar verði leiðir til að styðja betur við fyrirtæki við mótun og framkvæmd verkefna með sérfræðiráðgjöf.
Úttektin beindist að fjórum þáttum í samstarfi utanríkisráðuneytisins við atvinnulífið:
- Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu;
- Kostun ráðgjafa í sérhæfð verkefni alþjóðastofnana, svokallaða ráðgjafalista;
- Samstarf við Íslandsstofu;
- Styrkveitingar í gegnum Rannís, sjóð sem nefnist Þróunarfræ.
Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu var settur á laggirnar 2019 til þriggja ára. Hefðbundnum reynslutíma sjóðsins lauk við árslok 2021, en var sá reynslutími var framlengdur um eitt ár vegna áhrifa COVID-19 faraldursins, enda að mörgu leyti erfitt um vik að sinna starfi á vettvangi.
Alls hafa 24 fyrirtæki hlotið styrk úr sjóðnum – af 54 umsóknum – og nema styrkupphæðir alls um 324 milljónum króna. Á tímabilinu 2017-2021 veitti ráðuneytið enn fremur tæplega 180 milljónum króna til ráðgjafaverkefna alþjóðastofnana í gegnum ráðgjafalista. Sjóðurinn Þróunarfræ á vegum Rannís hefur veitt tveimur verkefnum styrki frá því sjóðurinn var settur á laggirnar árið 2021.
Í úttektinni kemur fram það mat að heimsmarkmiðasjóðurinn hafi náð þeim megin markmiðum sínum að byggja upp samstarf við fyrirtæki. Sjóðurinn hafi náð til fyrirtækja sem hefðu að líkindum ekki annars tekið þátt í þróunarsamvinnuverkefnum. Í úttektinni segir að þesss sjáist einnig merki að fyrirtæki hafi aðlagað lausnir að þróunarmörkuðum og að nýjar lausnir hafi nýst samstarfsaðilum og haghöfum. Sjóðurinn hafi einnig náð árangri hvað varðar að veita fyrirtækjum ný tækifæri, þróun nýrra lausna og hafi virkjað íslenskt hugvit og fjármagn þróunarríkjum til góða. Í úttektinni kemur fram að umsýsla af hálfu ráðuneytisins hafi verið skilvirk, en þó gerður sá fyrirvari að sjóðurinn hafi verið að slíta barnsskónum. Fyrirsjáanlegt sé að umsýsla muni aukast í náinni framtíð.