Hoppa yfir valmynd
10. desember 2021

Frakklandsforseti kynnir formennskuáform næstu 6 mánaða

Að þessu sinni er fjallað um

  • formennskuáform Frakka sem taka við keflinu 1. jan. 2022
  • tilmæli um blandað nám í grunn- og framhaldsskóla
  • gagnvirkan leiðarvísi um styrki til skapandi greina
  • desemberfund fjármála- og efnahagsráðherra ESB
  • viðtal við Timmermans framkvæmdastjóra ESB sem ber ábyrgð á græna sáttmálanum
  • óvæntar lyktir máls framkvæmdastjórnarinnar á hendur Þýskalandi vegna forgangsáhrifa Evrópuréttar
  • afstöðu ráðherraráðsins til lágmarkslauna annars vegar og launagagnsæis hins vegar
  • fund samgönguráðherra ESB og forfund norrænu ráðherranna
  • netöryggismál o.fl. sem rædd voru á fundi fjarskiptaráðherra
  • nýja skýrslu um þróun menntamála í Evrópu

Strategískt fullveldi Evrópu í brennidepli

Emmanuel Macron Frakklandsforseti kynnti helstu áherslur sem verði í formennskutíð Frakka í ráðherraráðinu 1. janúar til 30. júní 2022. Þrjú meginstef yrðu að endurræsa, efla og tilheyra: « relance, puissance et appartenance ». Macron berst fyrir endurkjöri á næsta ári og mun formennskan innan ESB setja svip sinn á kosningabaráttuna.

«Í hnotskurn þá verður markmið formennskunnar að færast frá Evrópu þar sem er samstarf innan landamæra okkar til Evrópu sem er voldug á heimsvísu, nýtur fullveldis, hefur valfrelsi og ræður örlögum sínum.“ Hann hygðist koma því í verk að það yrði skilgreint hvað fælist í strategísku fullveldi Evrópu: « souveraineté stratégique européenne ». Þetta hugtak sem hefði verið óhugsandi fyrir fjórum árum gerð kleift að slá því föstu að Evrópubúar hvort sem þeir væru aðilar að NATO eða ekki byggju við sameiginlegar ógnir og sameiginleg markmið.

Hann hét því að taka til hendinni í málefnum Balkanskagans. Það gengi ekki nú þegar marka þyrfti öryggisstefnu til næstu 50 ára að hafa þar óbreytt ástand. Skýra þyrfti tengslin við Albaníu, Bosníu, Serbíu, Svartfjallaland, Norður-Makedóníu og Kosovo – lönd sem eru föst í biðsal aðildar að Evrópusambandinu.

Umbætur á Schengen-samstarfinu

Annað forgangsmál yrði að Evrópusambandið gæti varið landamæri sín gagnvart fólksflutningum úr öðrum heimshlutum. Þörf væri á aukinni pólitískri leiðsögn við rekstur Schengen-samstarfsins, með hjálp ráðherrafunda. Þá nefndi hann bætt samstarf og samstöðu þegar neyð skapaðist við landamæri einhvers aðildarríkis. Einnig þyrfti að samræma betur reglur um alþjóðlega vernd og fylgd umsækjenda eða innflytjenda.

Borgaraleg þjónusta fyrir ungmenni

Macron lýsti því yfir að hann vildi setja á laggirnar evrópska borgaralega þjónustu sem öll ungmenni yngri en 25 ára gætu nýtt sér til að sækja framhaldsnám eða starfsnám, námskeið eða taka þátt í félagsstarfi. Þá væri nauðsynlegt að draga betur fram sögu Evrópu og þann sameiginlega þráð sem gengi í gegnum hana. Víða væru endurskoðunarsinnar sem vildu draga í efa sameiginleg gildi með annarlega söguskoðun að vopni. Þá varpaði Macron fram hugmynd um evrópska akademíu sem sameinaði fræði- og vísindamenn úr ýmsum áttum til að ræða og upplýsa  siðferðileg málefni, tengsl manna við frelsisréttindi og stærri menningarleg verkefni.

Stafræn Evrópa

Síðast en ekki síst lagði forsetinn áherslu á að Evrópa þyrfti að gera sig meira gildandi á stafræna sviðinu. Meðal 10 stærstu fyrirtækja heims miðað við hlutabréfaverð þá væru 8 tæknirisar og enginn þeirra væri evrópskur, sagði Macron. Lagði hann til að stofnaður yrði sérstakur sjóður til að styrkja nýsköpun og sprotafyrirtæki í þessum geira.

Tilmæli um blandað nám í grunn- og framhaldsskóla

Á fundi menntamálaráðherra ESB sem fram fór 29. nóvember sl. voru m.a. samþykkt tilmæli um blandað nám á grunn- og framhaldsskólastigi.  Blandað nám snýst um að nota mismunandi aðferðir við námið, með því að læra á ólíkan hátt og í ólíku umhverfi, t.d. stafrænt og í raunheimum, utan- og innandyra. Litið er á blandað nám sem tækifæri til að auka gæði og þátttöku í menntun og þjálfun.  Tilgangur tilmæla ráðsins er að koma með tillögur til aðildarlandanna um hvernig hægt er að þróa og innleiða blandað nám og með því stuðla að öflugra menntakerfi.
Skólar hafa neyðst til þess að aðlagast nýjum aðstæðum í heimfaraldrinum, með því m.a. að þróa aðrar aðferðir en þá sem felst í hinni hefðbundnu kennslu sem fer fram augliti til auglitis. Í tilmælunum eru settar fram tillögur að aðgerðum, bæði til skamms tíma sem bein viðbrögð við faraldrinum, en einnig til lengri tíma. Meðal annars er mælt með því að aðildarríkin styðji nemendur við að vinna upp námstap sem þeir hafa orðið fyrir vegna lokunar skóla og að þau efli stafræna færni þeirra (og fjölskyldna þeirra). Í tilmælunum er einnig lagt til að aðildarríkin setji blandaða námsaðferðir í kennaramenntun og starfsþróun kennara, fjárfesti í háhraða nettengingu fyrir skóla og nýti til fulls fé og sérfræðiþekkingu ESB til umbóta og fjárfestingar í innviðum og kennslufræði, svo eitthvað sé nefnt.

Lagt er til að framkvæmdastjórnin styðji innleiðingu tilmælanna meðal annars í gegnum samstarfsramma ESB um menntun og þjálfun 2021-30 og vinnuhópana, og í gegnum European Digital Education Hub, School Education Gateway og eTwinning verkefnin.

Gagnvirkur leiðarvísir um styrki í skapandi greinum

Á fundi menningarmálaráðherra ESB var nýjum gagnvirkum leiðarvísi hleypt af stokkunum en hann kortleggur alla styrkjamöguleika sem eru í boði á vettvangi ESB fyrir skapandi greinar. Leiðarvísirinn, sem hefur fengið heitið CulturEU, inniheldur 75 fjármögnunartækifæri til skapandi greina úr 21 mismunandi samstarfsáætlunum ESB, þar á meðal Creative Europe, Horizon Europe, InvestEU og fleiri áætlunum.

Með leiðarvísinum er styrkjakerfi ESB gert aðgengilegra og skiljanlegra fyrir aðila hinna skapandi greina. Með örfáum „smellum“ fær viðkomandi upplýsingar um bestu styrkjamöguleikana fyrir sitt verkefni, stofnun eða fyrirtæki.

Ráðherrarnir samþykktu einnig niðurstöður um aukningu framboðs og samkeppnishæfni evrópsks hljóð- og myndefnis (e. Conclusions on increasing the availability and competitiveness of European audiovisual and media content). Fram kom að heimsfaraldurinn hefði haft gríðarleg áhrif á hljóð- og myndmiðla í Evrópu, meðal annars hefði afkoma kvikmyndahúsa hrapað um allt að 70-80% árið 2020. Á sama tíma hefði eftirspurn eftir efni á netinu aukist verulega og ásókn í áskrift að efnisveitum rokið upp. Í niðurstöðum ráðsins eru settar fram leiðbeiningar um það hvernig tryggja megi betra aðgengi að evrópsku efni, m.a. með því að styðja við aukið framboð af efni á frummálinu, kynna öflugri aðferðir til markaðssetningar og tryggja að efni kvikmynda- og hljóðsafna njóti viðeigandi verndar, sé kynnt með öflugum hætti og gert aðgengilegt um leið og hugverkaréttur sé virtur.

Á fundinum voru einnig samþykktar niðurstöður ráðsins um menningu, hágæða arkitektúr og hið byggða umhverfi sem grundvallaratriði nýja evrópska Bauhaus verkefnisins (e. Conclusions on culture, high-quality architecture and built environment as key elements of the New European Bauhaus initiative). Þá fóru fram umræður um menningararfleifð í samhengi við sjálfbæra þróun og framtíð Evrópu.

Nánar má lesa um fundinn hér.

Ekki talin þörf á frekari almennum efnahagsaðgerðum

Í byrjun vikunnar funduðu fjármála- og efnahagshagsráðherrar evruríkja ESB með fulltrúum IMF (Alþjóðagjaldeyrissjóðsins) um stöðu efnahagsmála og þróunina framundan. Sérstaklega var rætt um þá stöðu sem upp er komin með nýju afbrigði af kórónaveirunni og áhrif hennar á efnahagsmálin. Það virðist vera sameiginlegt álit um það að hagkerfi evruríkjanna séu þegar það traust að ekki sé þörf á almennum efnahagsaðgerðum eins og staðan er nú heldur nægi að grípa til sértækra aðgerða gagnvart þeim aðilum sem verst verða úti. Samtímis er talið afar mikilvægt að fylgjast vel með útgjaldavexti einstakra ríkja, einkum þeirra skuldsettu.

Virðisaukaskattur

Fundur ráðherranna í þessari viku  er væntanlega sá síðasti í formennskutíð Slóvena. Var þar m.a. rætt um breytingar á tilskipun ESB um virðisaukaskatt, einkum skatthlutföllum hans. Inntak breytinganna er að samræma reglur ríkjanna jafnframt því að veita þeim meiri sveigjanleika til nýta lægri skatthlutföll og núll skattlagningu. Í tillögunum eru líka ákvæði um að afnema í áföngum undanþágur virðisaukaskatts gagnvart vörum sem hafa óæskileg áhrif á umhverfið, eins og jarðefnaeldsneyti o.fl. Markmiðið að baki þessum breytingum er að aðlaga virðisaukaskattskerfið að kröfum nútímans, ekki síst á sviði stafrænnar þróunar. Vinna við þessar tillögur hefur staðið í langan tíma og fagnaði slóvenski fjármálaráðherrann því ákaft að þetta skyldi hafa náðst í hans formannstíð. Rétt er að taka fram að breytingar á virðisaukaskatti ESB varða ekki Ísland með beinum hætti enda skattlagning ekki hluti af EES samningnum. Þó gæti verið skynsamlegt að skoða þessar breytingar nánar með „íslenskum gleraugum“ með samkeppnissjónarmið í huga. 

Lagabreytingar tengdar fjármálamarkaði

Eins og fram kom á fundinum eru margvíslegar breytingar í farvatninu á fjármálamarkaði. Sumar hafa þegar verið gerðar og munu  koma til framkvæmda á næstu misserum á meðan aðrar eru á vinnslustigi. Allar varða þær EES/EFTA ríkin. Skipta má umræddum breytingum í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi eru tillögur framkvæmdastjórnarinnar um lagabreytingar sem varða sameiginlegan innri fjármálamarkað (Capital Markets Union). Þar á meðal eru breytingar á innstæðutryggingum fjármálastofnana. Eitthvað er í land að sameiginlegar niðurstöður náist á þessu sviði. Í öðru lagi er safn lagabreytinga um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (anti-money laundering and financing of terrorism) sem þegar hefur verið samþykkt. Á fundinum var aðallega rætt um hvernig til hefði tekist. Í þriðja lagi er safn af lagabreytingum sem varða fjármálaþjónustu (financial services). Ýmsar breytingar, sem tengjast svokallaðri „Taxonomy“ reglugerð, eru þar á ferðinni. Helst er rætt um hvað skuli flokka sem græna orku og koma orkugjafar eins og gas og kjarnorka þar helst við sögu.

Staðan varðandi áherslur ESB í loftlagsmálum

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Frans Timmermans, tjáði sig um kolefnisskatt yfir landamæri (CBAM) í viðtali við Politico fyrr í vikunni. Varðandi upptöku slíks skatts taldi hann ólíklegt að Bandaríkin gætu fallist á útfærslu ESB eins og heyrst hefur opinberlega frá John Kerry, talsmanni þeirra í málaflokknum. Þeir félagar munu ræða þessi mál frekari í vikunni og vonast Timmermans eftir einhverri málamiðlun á þeim fundi. Markmiðið sé að aðgerðirnar hverjar sem þær verða hafi sömu áhrif og ETS-kerfi ESB.

Þá viðurkenndi Timmermans að á brattann væri að sækja þegar kæmi að aðgerðum áætlunarinnar Fit for 55 vegna hækkandi orkuverðs. Þar gegna breytingar á ETS kerfinu miklu máli. Hann fullyrti að engan bilbug væri að finna hjá aðildarríkjunum hvað þetta varðar og nefndi m.a. að útvíkkun kerfisins gæti verið leið. Nefndi Timmermans þá lausn að ETS næði einnig til mannvirkja og samgangna sem gæti friðað einhver aðildarríki.

Timmermans var einnig spurður hvenær væri að vænta tillagna um breytingar  á svokölluðum “taxonomy” reglum? Svarið var að það yrði fyrir jól. Jafnframt staðfesti hann að nú virtist óhjákvæmilegt að flokka þyrfti kjarnorku og gas sem hreina orku, sbr. eftirfarandi: “I think we need to find a way of recognizing that these two energy sources play a role in the energy transition, that does not make them green, but it does acknowledge the fact that nuclear being zero emissions is very important to reduce emissions, and that natural gas will be very important in transiting away from coal into renewable energy.” Segja má að hér hafi Frakkland, Pólland og ýmis önnur Austur-Evrópuríki unnið sigur gegn Þýskalandi, Austurríki o.fl. Fróðlegt verður að sjá viðbrögð nýs kanslara Þýskalands við þessum fréttum.

Framkvæmdastjórn ESB hættir málarekstri gegn Þýskalandi vegna forgangsáhrifa Evrópuréttar

Í maí 2020 komst þýski stjórnlagadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skuldabréfakaup Evrópska seðlabankans væru ólögleg skv. þýskum lögum (sjá nánar hér: Bundesverfassungsgericht - Entscheidungen - Beschlüsse der EZB zum Staatsanleihekaufprogramm kompetenzwidrig). Dómstóllinn var þar á öðru máli en Evrópudómstóllinn. Taldi sá fyrrnefndi sig hafa heimild til að víkja frá niðurstöðu þess síðarnefnda vegna þess að hún verið slíkum annmörkum háð að hún gæti ekki verið bindandi.

Í júní brást framkvæmdastjórn ESB við dómi þýska stjórnlagadómstólsins með því að hefja samningsbrotamál á hendur Þýskalandi (sjá nánar hér: June infringements package: key decisions (europa.eu)). Á þeim tíma töldu menn stöðu Þýskalands snúna, enda ekki á valdi framkvæmdarvaldsins þar að segja stjórnlagadómstól fyrir verkum. Dómurinn hefur einnig óhjákvæmilega verið settur í samhengi við deilur við pólsk og ungversk stjórnvöld um eðli réttarríkisins og samskipti þjóðríkja og Evrópusambandsins.

Það kom því nokkuð á óvart þegar framkvæmdastjórnin ákvað nú fyrir skemmstu að loka samningsbrotamálinu gegn Þýskalandi, með stuttri yfirlýsingu (sjá nánar hér: December infringements package: key decisions (europa.eu)). Forsendur framkvæmdastjórnarinnar fyrir því voru þríþættar, þ.e. í fyrsta lagi að Þýskaland hafi formlega gefið það út að það virði sjálfstæði, forgangsáhrif, skilvirkni og einsleitni Evrópuréttar (e. principles of autonomy, primacy, effectiveness and uniform application of Union law) sem og þau gildi sem sett eru fram í 2. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Í öðru lagi þar sem Þýskaland hafi ítrekað að það viðurkenni lögsögu Evrópudómstólsins og að dómar hans séu endanlegir og bindandi. Í þriðja lagi að þýsk stjórnvöld muni með virkum hætti og með öllum tiltækum ráðum komast hjá því að lenda í öðru sambærilegu máli (e. „the German government, explicitly referring to its duty of loyal cooperation enshrined in the Treaties, commits to use all the means at its disposal to avoid, in the future, a repetition of an ‘ultra vires' finding, and take an active role in that regard“).

Þrátt fyrir það að framkvæmdastjórnin hafi fallið frá samningsbrotamáli sínu, er enn óljóst hvernig þetta mál endar eða hvernig þýsk stjórnvöld geti yfir höfuð veitt ofangreindar tryggingar – enda er sem fyrr er rakið, stjórnlagadómstóllinn þýski sjálfstæður og staðan því snúin.

Lágmarkslaun verði tryggð með vorinu

Viðræðum um tilskipun um lágmarkslaun miðar ágætlega þrátt fyrir andstöðu á Norðurlöndum. Á fundi 6. desember sl. urðu vinnumálaráðherrar ESB sammála um samningsafstöðu vegna þríhliða viðræðna sem framundan eru við framkvæmdastjórnina og Evrópuþingið. Frakkar sem taka við formennsku í ráðherraráðinu hafa einsett sér að ljúka málinu fyrir sumarið.

Tillagan um lágmarkslaun var lögð fram af hálfu framkvæmdastjórnarinnar 28. október 2020. Tilgangurinn er að tryggja launþegar í ESB hafi að lágmarki nægileg laun til að fá notið verðugrar tilveru óháð því hvar þeir starfi. Þar sem launamál eru á forræði aðildarríkjanna er ekki gert ráð fyrir að tiltekin fjárhæð komi fram Evrópureglunum.

Þá er heldur ekki gert ráð fyrir að lönd þar sem laun eru ákveðin í almennum kjarasamningum þurfi að fastsetja lágmarksklaun í lögum. Í Svíþjóð og Danmörku hefur andstaðan við þessu áform eigi að síður verið hörð vegna þess að menn óttast að fjari undan norræna vinnumarkaðskerfinu svokallaða.

Evrópuþingið samþykkti breytingartillögur og samningsafstöðu í nóvember sl. gegn atkvæðum nefndarmanna frá Danmörku og Svíþjóð. Þar er að sumu leyti gengið lengra en í tillögu framkvæmdastjórnarinnar.

Niðurstaða fundar vinnumálaráðherra

Í vinnuhópi ráðherraráðsins um tillöguna hafa fulltrúar Danmerkur og Svíþjóðar þrýst á um texta sem slær skjaldborg um norræna vinnumarkaðskerfið og forræði aðila vinnumarkaðarins á ákvörðun launa. Þrátt fyrir að nokkur árangur hefði náðst ákvað fulltrúi Danmerkur að greiða atkvæði gegn niðurstöðu ráðsins í vikunni. Fulltrúi Svía var á öðru máli, m.a. til þess að geta frekar haft áhrif á framhaldið.

Nánar er fjallað um málamiðlunina sem samþykkt var í ráðinu í fréttatilkynningu  Helstu atriði eru þessi:

  • Heiti tilskipunarinnar, „A EU framework on adequate minimum wages“ á að gera ljóst að um rammatilskipun sé að ræða sem veiti töluvert svigrúm til útfærslu.
  • Virkja á aðila vinnumarkaðarins til að auka fjölda félagsbundinna og renna stoðum undir almenna kjarasamninga. Í ríkjum þar sem færri en 70% launþega eru í stéttarfélagi á að gera aðgerðaáætlun til að bæta úr því.
  • Í ríkjum þar sem eru eða verða lögbundin lágmarkslaun á að hnykkja á þeim með skýrum viðmiðum.

Tillagan var ekki merkt sem EES-tæk þegar hún var kynnt á sínum tíma. Það er vissulega ekki bindandi og er í raun einhliða mat framkvæmdastjórnar ESB á þeim tíma. Bráðabirgðamat sérfræðinga EFTA-ríkjanna er hins vegar á sama veg, þ.e.a.s. að þeim verði ekki skylt að innleiða tilskipunina.

Ráðherraráðið mótar afstöðu til tillögu um launagagnsæi

Vinnumálaráðherrarnir náðu einnig samkomulagi um afstöðu gagnvart tillögu um launagagnsæi. Í því felst m.a. að launþegar hafi aðgang að hlutlægum og kynjahlutlausum viðmiðum sem notuð eru til að að ákveða innan fyrirtækja laun og framgang í starfi. Þá eiga þeir líka að geta fengið aðgang að upplýsingum um greidd laun sundurliðað eftir kyni og starfstegund.

Nú er beðið eftir að Evrópuþingið ljúki umfjöllun sinni um málið þannig að þríhliða samningaviðræður geti hafist.

https://www.consilium.europa.eu/en/press/press-releases/2021/12/06/council-agrees-on-common-position-to-tackle-gender-pay-gap/

Norrænir samgönguráðherrar ræða málefni dagskrár ráðherrafundar ESB

Samgönguráðherrar ESB hittast ársfjórðungslega og var lokafundur ársins haldinn 9. desember sl. Á dagskrá eru jafnan tillögur framkvæmdastjórnarinnar að gerðum á sviði samgangna hverju sinni auk annarra mála sem efst eru á baugi. 

Á dagskrá að þessu sinni var umræða um tillögur framkvæmdastjórnarinnar á samgöngusviði í loftlagsmálum sem eru hluti af „í formi fyrir 55“ pakkanum. Óskað var eftir afstöðu aðildarríkjanna til tveggja tillagna og voru þær ræddar í opinni dagskrá. Annars vegar er um að ræða reglugerð um stigvaxandi íblöndun flugvélaeldsneytis, þ.e. „ReFuelEU Aviation“, og hins vegar reglugerð um notkun umhverfisvæns eldsneytis í siglingum, „FuelEU Maritime“.

Í umræðum um reglugerðina „ReFuelEU Aviation“ voru ráðherrarnir almennt mjög jákvæðir gagnvart tillögum gerðarinnar um að auka hlut umhverfisvæns eldsneytis í flugi og mátu tillögurnar við hæfi. Sumir töldu þó að auka mætti hlut „synthetic“ eldsneytis í umhverfisvænni íblöndun. Sögðu mikilvægt að setja markið í loftlagsmálum hátt er varðar samgöngur, setja fordæmi fyrir önnur ríki og vinna að umhverfisvænum flugsamgöngum á alþjóðavísu. Gæta þyrfti að áhrifum „í formi fyrir 55“ pakkans á samkeppnishæfni gagnvart flugfélögum utan ESB. Nokkrir höfðu einnig áhyggjur af áhrifum á farmiðaverð og á samgöngur til og frá dreifbýlum svæðum þar sem úrval samgöngukosta er fábrotið.

Í umræðum um tillögu um reglugerð „FuelEU Maritime“ voru ráðherrarnir almennt sammála um nauðsyn þess að vinna að metnaðarfullum markmiðum um að draga úr losun frá siglingum. Hins vegar kom fram hjá mörgum að útfæra þyrfti betur mörg atriði tillögunnar s.s. eftirlits- og þvingunarúrræði, skilyrði um uppruna lífræns eldsneytis og svo að svigrúm væri fyrir endurnýjun vélbúnaðar skipa fyrir endurnýjanlega orkugjafa með hliðsjón af líftíma þeirra. Þá væri mikilvægt að beita sér fyrir samvinnu um verkefnið á alþjóðavísu á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Ráðherrar Norðurlandanna hittust í kvöldverði fyrir fundinn í boði sænska samgönguráðherrans og ræddu. Kristján Andri Stefánsson sendiherra tók þátt í fundinum og upplýsti um áhyggjur Íslands af áhrifum tillagna „í formi fyrir 55“ á samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga og verð á flugmiðum fyrir þau svæði sem ekki eiga val um aðra samgöngumáta. Í síðustu vakt er fjallað um skýrslu samgöngu- og ferðamálanefndar Evrópuþingsins um áhrif tillagna um breytingu á viðskiptakerfi um losunarheimildar á samkeppnisstöðu flugfélaga sem byggja leiðarkerfi sitt á skiptiflugvöllum innan EES.

Ráðherrar fjarskiptamála ræða netöryggismál og fleira

Ráðherrar fjarskiptamála komu saman á vegum ráðherraráðs ESB 3. desember sl. og ræddu nokkrar tillögur framkvæmdastjórnarinnar á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni.

Ráðið samþykkti tillögu að umræðuramma (e. general approach) fyrir netöryggisreglur fyrir fjarskipta- og upplýsingakerfi, s.k. NIS2 tillögu. Ekkert er því lengur að vanbúnaði að þríhliða viðræður hefjist á milli framkvæmdastjórnarinnar, þingsins og ráðherraráðsins. Þegar hafa netöryggisreglur verið innleiddar í lög á Íslandi í samræmi við s.k. NIS tilskipun, en í NIS2 er lagt til að útvíkka gildissviðið auk þess sem reglur eru útfærðar frekar.

Upplýsingatækni- og fjarskiptaráðherrarnir ræddu einnig nokkrar fyrirliggjandi tillögur að löggjöf á sviðinu og stöðu mála í vinnunni. Þær eru tillaga að reglugerð um gervigreind, samevrópsk auðkenni, eID, og aðgerðaáætlun fyrir stafræna umbreytingu (e. path to the digital decade), þ.e. stefnumörkunina um stafrænan áttavita.

Fram kom að vinnunni við reglugerð að gervigreind miði vel áfram og fyrir liggur samkomulag um nokkra þætti tillögunnar en ráðherrarnir lögðu mikla áherslu á að ákvæði reglugerðarinnar styðji við örugga og löglega notkun gervigreindar sem tæki mið af grundvallarréttindum borgaranna.

Þá kom fram á fundinum að samkomulag milli ráðsins, framkvæmdastjórnarinnar og þingsins lægi fyrir um reglugerð um stjórnarhætti stafrænna gagna og að slóvenska formennskan stefni að því að leggja tillögu að endanlegum texta reglugerðarinnar fram 15. desember n.k. Loks kom fram að vonast yrði að samkomulag í þríhliða viðræðum um reglugerð um reikigjöld næðist á næsta samningafundi í desember.

Vellíðan í menntakerfinu

Framkvæmdastjórnin birti í gær Education and Training Monitor, árlega skýrslu um þróun menntamála í Evrópu.

Á ári hverju er ákveðið þema tekið fyrir og í ár var viðfangsefnið vellíðan í menntakerfinu fyrir valinu, enda full ástæða til þess að skoða þann þátt í tengslum við áhrif heimsfaraldursins á nám og kennslu. Í skýrslunni er yfirlit yfir þróunina í aðildarríkjum ESB, upplýsingar um góðar starfsvenjur aðildarríkjanna á þessu sviði og upplýsingar um hvernig þau geta nýtt sér Bjargráðasjóð ESB til þess að styðja við og nútímavæða menntakerfin.

Í skýrslunni er kannað hvernig ESB miðar í átt að markmiðum sem sett hafa verið fram í stefnu og samstarfsramma fyrir menntun og þjálfun 2021-2030.

Aðildarríki ESB hafa á undanförnum árum lagt meiri áherslu á vellíðan í menntun og ráðist hefur verið í enn frekari aðgerðir til stuðnings betri líðan nemenda og kennara í heimfaraldrinum.

Þá er í skýrslunni greining á því hvar aðgerða er sérstaklega þörf, til að mynda hvað varðar skort á grunnfærni nemenda (í lestri, stærðfræði og vísindum). Samkvæmt Pisa könnuninni frá 2018 þá skortir einn af hverjum fimm 15 ára nemendum þessa grunnfærni og um 10% nemenda detta úr námi. Framkvæmdastjórn ESB hefur nú hleypt af stokkunum nýju verkefni, Pathways to School Success, til þess að snúa vörn í sókn á þessu sviði.
Verkefnið snýst um að veita aðildarríkjum ráðgjöf í stefnumótun, miðla reynslu og fræðslu á milli landanna, auk þess að skapa fjárhagslega hvata fyrir löndin svo þau ráðist í viðeigandi stefnubreytingar.

Sem fyrr er Ísland ekki með í skýrslunni sjálfri en árlega er einnig gefinn út bæklingur með yfirliti yfir helstu markmið og stöðuna í löndunum og hefur Ísland verið þar á meðal. Þær upplýsingar má nálgast hér.

 Allar frekari upplýsingar eru á vefsíðu Education and Training Monitor.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta