Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 142/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 142/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030019

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. mars 2020 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. febrúar 2020, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands sem kvótaflóttamaður frá Írak og fékk útgefið dvalarleyfi þann 29. nóvember 2015 með gildistíma til 29. nóvember 2019. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi þann 21. ágúst 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. febrúar 2020, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 10. mars. sl. en kæru fylgdu fylgigögn. Með tölvupósti, dags. 10. mars 2020, var kæranda veittur tveggja vikna frestur til þess að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til 58. gr. laga um útlendinga og 14. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Samkvæmt gögnum málsins væri ljóst að kærandi hefði ekki lokið 150 stundum af íslenskunámskeiði fyrir útlendinga. Þá ættu undantekningarákvæði 14. gr. reglugerðarinnar ekki við. Væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sbr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærunefnd barst ekki greinargerð frá kæranda. Með kæru lagði kærandi fram vottorð frá Mími símenntun, dags. 9. mars 2020, þar sem fram kemur að hann hafi staðist stöðupróf, þann sama dag, sem meti íslenskukunnáttu. Jafngildi prófið 180 kennslustunda/120 klukkustunda námi í íslensku sem öðru máli.  

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis síðan 29. nóvember 2015.

Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Samkvæmt c-lið er það skilyrði að útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, sbr. þó 9. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 9. mgr. 58. gr. laganna ber ráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundið dvalarleyfi, þar á meðal um námskeið í íslensku fyrir útlendinga skv. 1. mgr. ákvæðisins. Þar skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Þá er í reglugerðinni heimilt að kveða á um undanþágur frá skyldu til þátttöku í námskeiði og um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.

Í 14. gr. reglugerðar um útlendinga er fjallað um námskeið í íslensku vegna umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skal umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá námskeiðshaldara sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir.

Líkt og áður greinir byggir synjun Útlendingastofnunar á því að kærandi hafi ekki lokið 150 stunda námskeiði í íslensku, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Með kæru lagði kærandi fram vottorð frá Mími símenntun, dags. 9. mars 2020, þar sem fram kemur að hann hafi staðist stöðupróf, þann sama dag, sem meti íslenskukunnáttu. Jafngildi prófið 180 kennslustunda/120 klukkustunda námi í íslensku sem öðru máli. Samkvæmt heimasíðu Mímis, www.mimir.is, hefur Mímir viðurkenningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að annast framhaldsfræðslu. Með vísan til framangreinds vottorðs er að mati kærunefndar ljóst að kærandi uppfyllir nú skilyrði c-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sbr. 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                           Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta