Meðferð reikningsskila vegna leigusamninga ríkis og sveitarfélaga um hjúkrunarheimili
Reikningsskilaráð hefur svarað erindi reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga um áhrif leigusamninga ríkis og sveitarfélaga um hjúkrunarheimili á reikningsskil sveitarfélaga. Er það niðurstaða reikningsskilaráðs að eðlilegast sé að færa slíka samninga sem langtímakröfu á íslenska ríkið.
Reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga óskaði eftir áliti reikningsskilaráðs á þessu efni og hvort slíkir leigusamningar teljist vera rekstrarleigusamningar eða fjármögnunarleigusamningar en tvö endurskoðunarfyrirtæki sem nefndin leitaði til gáfu ólík álit um efnið.
Reikningsskilaráð fór yfir leigusamninga um hjúkrunarheimili við átta sveitarfélög, kannaði álit endurskoðunarfyrirtækjanna og ræddi við endurskoðendur sem hafa unnið við ársreikninga sveitarfélaga. Niðurstaða ráðsins er að reikningsskil sveitarfélaga „endurspegli best eðli þessara gerninga með því að færa inn langtímakröfu á íslenska ríkið sem ígildi núvirts samningsbundins framlags þess til endurgreiðslu á stofnkostnaði hjúkrunarheimila. Langtímakrafan endurspeglar samningsbundinn rétt sveitafélagsins til þess að móttaka handbært fé eða aðra fjáreign samkvæmt samningi við ríkið og fellur því undir skilgreiningu á fjáreign,“ segir í niðurstöðu ráðsins.
Nánari útskýringu má sjá í bréfi reikningsskilaráðs til reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga, dags. 8. mars 2018.