Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 168/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 168/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030025

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. mars 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd vegna ríkisfangsleysis með vísan til 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. febrúar 2020. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 16. apríl 2020 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. febrúar 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 8. mars 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 22. mars 2021. Viðbótargögn bárust frá kæranda þann 8. apríl 2021. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skildi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra myndi fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda til kærunefndar er ekki fjallað um málsatvik og landaupplýsingar heldur vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að kærandi sé fæddur í Hamar Weyne í Sómalíu. Kærandi, líkt og faðir hans, tilheyri […] ættbálki sem sé minnihlutaættbálkur í Sómalíu en móðir hans tilheyri Shaanxi ættbálki. Foreldrar kæranda hafi skilið þegar hann hafi verið á þriðja eða fjórða aldursári. Föðursystir kæranda hafi tekið hann að sér og flutt með hann til Keníu. Kærandi hafi dvalið í flóttamannabúðunum Dadaab, ásamt frænku sinni og börnum hennar, en síðar flutt til höfuðborgarinnar Naíróbí. Kærandi hafi greint frá því að frænka hans hafi beitt hann ofbeldi. Hann hafi yfirgefið frænku sína og búið á götunni í Naíróbí en síðar fengið aðstoð við að koma undir sig fótunum. Kærandi hafi verið í sambandi með konu og eignast barn þann […]. Fjölskylda konunnar hafi verið mótfallin sambandinu og kærandi orðið fyrir árásum af hálfu bróður hennar. Þá hafi kærandi verið handtekinn í Kenía árið 2014 og ásakaður um að dvelja ólöglega þar í landi. Kærandi hafi síðar hlotið dóm og verið brottvísað til Sómalíu en hann hafi snúið aftur þangað árið 2015. Kærandi hafi síðar ætlað að leita foreldra sinnar og því farið aftur til Hamar Weyne. Kærandi hafi leitað foreldra sinna og loks fundið mann sem hafi kvaðst hafa unnið með föður kæranda og þeir verið vinir. Maðurinn hafi greint kæranda frá því að foreldrar hans væru látnir og að systur hans hafi verið nauðgað og hún myrt. Faðir kæranda hafi verið myrtur af mönnum af Hawiye ættbálkinum þar sem þeir hafi viljað eignast landið hans. Maðurinn hafi greint kæranda frá því að mennirnir af Hawiye ættbálkinum byggju enn í Hamar Weyne og vissu af kæranda en þeir hafi talið að kærandi væri kominn aftur til Sómalíu til að endurheimta land föður síns. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að fólk af Hawiye ættbálki hafi veist að sér á meðan hann hafi dvalið með vini föður síns. Þeir hafi spurt kæranda hvaða ættbálki hann tilheyri og ógnað honum með hníf. Kærandi hafi í kjölfarið flutt til Holwadag í Sómalíu og dvalið þar í sex eða sjö mánuði en þar hafi honum einnig borist hótanir. Kærandi hafi kynnst stúlku og þau ákveðið að giftast. Kærandi hafi síðan lagst á flótta frá Sómalíu árið 2015.

Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í Sómalíu. Meðal helstu mannréttindabrota séu ólögmæt og handahófskennd manndráp af hálfu öryggissveita og vopnaðra hópa, þvinguð mannshvörf, pyndingar, mansal, handahófskenndar handtökur og kynferðislegt ofbeldi gagnvart þeim sem séu á flótta innanlands. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna og heimilda máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar sinnar að þjóðfélagshópi sem meðlimur […] minnihlutaættbálksins. Kærandi óttist ofsóknir af hálfu einstaklinga af ættbálkinum Hawiye sem sé einn af fjórum ráðandi ættbálkum í Sómalíu. Kæranda hafi verið ógnað og honum hótað af einstaklingum af Hawiye meirihlutanum. Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna alvarlegs öryggisástands í Sómalíu, einkum í mið- og suðurhluta landsins. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa aftur heim. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, með vísan til erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki og heilsufarsvandamála. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt alþjóðleg vernd vegna ríkisfangsleysis með vísan til 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar vegna brota á 9. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement), sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Kærandi gerði í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, þá einkum varðandi ákvörðun stofnunarinnar um að leggja til grundvallar að kærandi sé frá Keníu. Telur kærandi að rannsókn málsins hvað það varðar sé í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3890/2019 frá 12. júní 2020. Þrátt fyrir að Útlendingastofnun hafi talið frásögn kæranda hvað varðar ríkisfang hans í einu ríki ekki fullsannaða með framlagningu gagna hafi stofnuninni ekki verið heimilt að leggja til grundvallar að hann sé frá öðru ríki án þess að færa fram sannanir fyrir því. Þá hafi Útlendingastofnun ekki látið framkvæma tungumála- og staðháttapróf. Kærandi telur enn fremur ámælisvert að afstaða Útlendingastofnunar, um að kærandi sé ríkisborgari Keníu, hafi ekki komið fram fyrr en 12. febrúar 2021, þ.e. tíu mánuðum eftir að efnismeðferðarviðtal hafi farið fram, og tíu dögum áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu þann 22. febrúar 2021. Telur kærandi að meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun hafi verið í andstöðu við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi fæðst í Mogadishu í Sómalíu en flutt með frænku sinni á þriðja eða fjórða aldursári til Keníu þar sem hann hafi dvalið í flóttamannabúðum í fyrstu. Kærandi kvaðst síðar hafa búið lengi á götunni í Nairobi áður en hann hafi farið aftur til Sómalíu árið 2015. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ekki talið ástæðu til að draga í efa þann þátt frásagnar kæranda um að hann hafi dvalið stærstan hluta lífs síns í Keníu. Með vísan til þess var það mat stofnunarinnar að tungumála- og staðháttarpróf væri ekki til þess fallið að leysa úr vafa um ríkisfang eða renna frekari stoðum undir frásögn kæranda. Byggði mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda einkum á langri dvöl hans í Keníu, auk þess sem núverandi eiginkona hans, sem og barnsmóðir og barn hans séu öll staðsett í Keníu. Þá hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn sem gefi til kynna vísbendingar um þjóðerni hans. Var það því mat Útlendingastofnunar að kærandi væri frá Keníu en ekki Sómalíu.

Kærunefnd gerir athugasemd við framangreint mat Útlendingastofnunar. Fyrir utan framburð kæranda um dvöl hans í Keníu, auk dvalar eiginkonu hans og sonar í flóttamannabúðum í Keníu, hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem benda til þess að hann sé ríkisborgari Keníu. Það að kærandi hafi, ásamt eiginkonu sinni, barnsmóður og barni, dvalið lengi í Keníu, gefur ekki að mati kærunefndar tilefni til að álykta að kærandi sé ríkisborgari landsins. Þvert á móti hefur framburður kæranda og þau gögn sem hann lagði fram við meðferð málsins gefið vísbendingar um að hann sé ríkisborgari Sómalíu. Gerir kærunefnd því m.a. athugasemd við þá afgreiðslu Útlendingastofnunar að fullyrða að kærandi hafi ekki sannað sómalskt ríkisfang sitt vegna skorts á sönnunargögnum en ályktað út frá sömu gögnum og upplýsingum að hann væri kenískur ríkisborgari.

Að mati kærunefndar var framburður kæranda, um að hann væri frá Sómalíu, stöðugur og var kærandi að mestu leyti samkvæmur sjálfum sér í frásögn sinni í viðtölum hjá Útlendingastofnun og hjá erlendum stjórnvöldum varðandi nafn sitt, fæðingardag og fæðingarstað. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram skjáskot af skjali, sem hann kveður vera hjúskapavottorð sitt útgefið af sómalískum stjórnvöldum. Þá lagði kærandi jafnframt fram ungversk flóttamannavegabréf og ferðaskírteini þar sem lagt er til grundvallar af ungverskum stjórnvöldum að kærandi sé sómalískur ríkisborgari. Jafnframt var lagt til grundvallar af þýskum stjórnvöldum að kærandi væri sómalískur ríkisborgari. Telur kærunefnd, með vísan til framburðar kæranda og fyrirliggjandi gagna, að Útlendingastofnun hafi ekki haft forsendur til að álykta að kærandi væri ríkisborgari Keníu. Þá leiddi skoðun kærunefndar á skýrslu kanadískra útlendingayfirvalda frá 2012, um […] ættbálkinn, í ljós að ættbálkurinn […], sem kærandi kveðst tilheyra, eigi rætur sínar að rekja til Mogadishu í Sómalíu og að meðlimir ættbálksins búi þar enn. Verður ekki séð af ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi tekið mið af því við mat sitt á þjóðerni kæranda.

Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi talið frásögn kæranda, um að hann hafi annars vegar dvalið í Keníu meginþorra lífs síns þar sem hann hafi dvalið í flóttamannabúðum og notið heilbrigðisaðstoðar eftir að hafa orðið fyrir skotárás, og hins vegar að honum hafi verið brottvísað af kenískum yfirvöldum við dómsuppkvaðningu að undangengnu ferli fyrir dómstólum, vera mótsagnakennda. Að mati kærunefndar er óljóst að hvaða leyti stofnunin telur framangreinda frásögn kæranda vera mótsagnakennda enda er það ekki skýrt frekar í ákvörðun stofnunarinnar. Líkt og kærandi bendir á í greinargerð sinni til kærunefndar greindi hann frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að hann hafi leitað á sjúkrahús í Keníu eftir að hafa verið skotinn. Þar hafi hann fengið aðstoð en síðar verið í haldi á sjúkrahúsinu eftir að í ljós hafi komið að hann væri ekki með fullnægjandi skjöl á sér. Verður ráðið af viðtali við kæranda að hann hafi í þessu samhengi átt við skjöl sem sýndu fram á leyfi hans til að dvelja í landinu. Kærandi kvaðst hafa náð að sleppa þaðan og fara í flóttamannabúðir þar sem hann hafi fengið aðstoð. Verður ekki séð að mati kærunefndar að sú frásögn kæranda stangist á við þá frásögn hans um að honum hafi jafnframt verið brottvísað frá Keníu. Auk framangreinds taldi Útlendingastofnun ankannalegt að kærandi hafi greint frá því í efnisviðtali hjá stofnuninni að hafa notið aðstoðar í flóttamannabúðum í Keníu en síðar greint frá því í framhaldsviðtali að hafa ekki fengið beina aðstoð þar heldur frá kunningjum sínum í búðunum. Kærunefnd bendir á að kærandi svaraði spurningu Útlendingastofnunar játandi, um hvort hann hafi fengið aðstoð í flóttamannabúðunum sem hann hafi dvalið í eftir að hafa yfirgefið sjúkrahúsið, en tiltók ekki frekar hvort um hafi verið að ræða starfsmenn flóttamannabúðanna eða aðra. Að mati kærunefndar er því um órökstudda ályktun að ræða af hálfu Útlendingastofnunar, en ráða má af orðalagi stofnunarinnar að þessi þáttur frásagnar kæranda hafi dregið úr trúverðugleika hans að mati stofnunarinnar.

Þá taldi Útlendingastofnun ankannalegt að kærandi hafi ekki getað svarað því hvort hann hafi verið skráður sem flóttamaður í Keníu. Auk þess fullyrðir Útlendingastofnun í ákvörðun sinni að kærandi hafi greint frá því að hafa aldrei verið skráður í flóttamannabúðir í Keníu. Kærunefnd gerir athugasemd við það orðalag hjá Útlendingastofnun, en í efnisviðtali greindi kærandi m.a. frá því að hann væri ekki meðvitaður um það hvort hann hafi verið skráður á einhverjum tímapunkti eða ekki. Að mati kærunefndar verður að horfa til þess að kærandi kveðst hafa verið á þriðja eða fjórða aldursári þegar hann hafi fyrst verið fluttur í flóttamannabúðirnar Dadaab í Keníu. Verður því ekki talið óeðlilegt að mati kærunefndar að kærandi hafi ekki getað svarað því fyrir víst hvort hann hafi verið skráður í búðirnar eða ekki.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar ber framangreint með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum kæranda. Telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á framkvæmd trúverðugleikamats Útlendingastofnunar og rannsókn stofnunarinnar þar sem aðstæður kæranda voru ekki skoðaðar með hliðsjón af aðstæðum í Sómalíu. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í málinu er, með vísan til framangreinds, að mati kærunefndar enn fremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst er að Útlendingastofnun skoðaði ekki aðstæður í borginni Mogadishu, sem kærandi kveðst koma frá, þegar ákvörðun var tekin í máli hans. Þrátt fyrir að dómar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli K.A.B. gegn Svíþjóð (mál nr. 886/11) frá 17. febrúar 2014 og R.H. gegn Svíþjóð (mál nr. 4601/14) frá 1. febrúar 2016 beri með sér að almennt öryggisástand í Mogadishu hafi farið batnandi á undanförnum árum telur kærunefnd rétt að Útlendingastofnun framkvæmi einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda í heimaríki hans. Kærunefnd telur þessa annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvarðana Útlendingastofnunar.

 

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta