Hoppa yfir valmynd
9. september 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2020

Verðlaunagripurinn Jarðarberið, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarssyni. - mynd

Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins verða veitt 16. september næstkomandi á Degi íslenskrar náttúru.

  
Tilnefnd til verðlaunanna að þessu sinni eru í stafrófsröð: 
Arnhildur Hálfdánardóttir, Axel Bjarkar Sigurjónsson, Hálfdán Helgi Matthíasson, Jóhann Bjarni Kolbeinsson, Sunna Ósk Logadóttir og Sölvi Bjartur Ingólfsson. 

Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu er eftirfarandi: 

Arnhildur Hálfdánardóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían

Í þáttaröðinni, sem var á dagskrá Rásar 1 síðastliðinn vetur, skoðar Arnhildur Hálfdánardóttir ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. Hún fer líka yfir sögu á mælingum á losun koltvísýrings frá því að hún var fyrst sett í samhengi við hlýnun jarðar og rifjar upp náttúruhamfarir síðustu ár og áratugi. Fyrst og fremst rýnir Arnhildur þó í viðbrögð og líðan fólks: loftslagskvíða, þunglyndi, afneitun og ótta við aðgerðaleysi stjórnvalda og neytenda. Hún ræðir við fjölbreyttan hóp fólks, meðal annars fræðafólk og aðgerðasinna en líka nokkra ástvini sína auk þess að segja frá eigin líðan og hugsunum. Hljóðmynd þáttanna er afar falleg og tekst Arnhildi bæði í orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt.

 

Axel Bjarkar Sigurjónsson, Hálfdán Helgi Matthíasson og Sölvi Bjartur Ingólfsson fyrir heimildamyndina Mengun með miðlum

Í heimildamyndinni, sem vann til fyrstu verðlauna í samkeppninni Ungt umhverfisfréttafólk fyrr á árinu, rannsaka þeir félagar áhrif samfélagsmiðla og streymiveita á umhverfið. Í myndinni er kastljósinu beint að umhverfisvanda sem hefur fengið litla umfjöllun hingað til en snertir beint lífsstíl og áhugasvið ungs fólks. Þrátt fyrir ungan aldur sýna kvikmyndagerðarmennirnir mikla færni í að setja fram viðfangsefni sitt á skýran og áhugaverðan hátt þar sem myndefni og myndtækni er nýtt af innsæi og þekkingu. Um leið eru ólíkar hliðar málsins dregnar fram í því skyni að bregða upp heildstæðri mynd af kostum og göllum samfélagsmiðla og streymisveitna með tilliti til umhverfisáhrifa þeirra.

Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður á fréttastofu RÚV, fyrir umfjöllun um náttúru Íslands

Jóhann Bjarni hefur með áhrifaríkum hætti beint kastljósinu að ástandi íslenskra hraunhella og hvernig aukinn ágangur ferðamanna ógnar viðkvæmum jarðmyndunum og örverum sem þar er að finna. Hafa sjónvarpsfréttir hans um hellana meðal annars verið teknar upp af virtum erlendum fjölmiðlum og þannig vakið athygli utan landsteinanna. Þá hefur Jóhann Bjarni á undanförnum misserum fjallað ítarlega um bráðnun íslenskra jökla á markvissan og myndrænan hátt og þannig lagt sitt af mörkum til vitundarvakningar um áhrif hnattrænnar hlýnunar.

Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður á Kjarnanum, fyrir fréttaskýringar um virkjanamál

Sunna Ósk hefur á umliðnum árum ráðist í vandaðar og upplýsandi umfjallanir um virkjanamál á Íslandi. Á liðnu ári varpaði hún enn frekara ljósi á mismunandi hagsmuni sem takast á þegar virkjun vistvænnar orku er til umræðu. Þannig hefur Sunna Ósk dregið fram og undirstrikað að það eru ekki aðeins hin náttúrulegu mótunaröfl sem ráða ferð um framtíð íslenskrar náttúru, heldur einnig þau átök og málamiðlanir sem óneitanlega þurfa að eiga sér stað þegar virkjanakostir framtíðarinnar eru til umræðu. Umfjöllun hennar um rammaáætlun, Hagavatnsvirkjun og Skrokkölduvirkjun eru einkar góð dæmi um þetta og undirstrika mikilvægi þess að hér á landi sé ávallt til staðar virk samfélagsumræða um raforkuframleiðslu Íslendinga.

 

Dómnefnd skipa þau Margrét Marteinsdóttir formaður, Kjartan Hreinn Njálsson og Sveinn H. Guðmarsson. Nefndin þakkar fyrir allar ábendingar og tilnefningar sem bárust vegna fjölmiðlaverðlaunanna 2020. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta