Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 537/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 537/2021

Miðvikudaginn 19. janúar 2022

A

gegn

Sýslumanninum á Norðurlandi eystra

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 13. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, dags. 13. september 2021, um að hafna kröfu kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með beiðni, dags. 13. ágúst 2021, óskaði kærandi eftir úrskurði Sýslumannsins á Norðurlandi eystra um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur sinnar samkvæmt 20. gr. a laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með úrskurði, dags. 13. september 2021, hafnaði Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra beiðni kæranda með þeim rökum að hún hafi komið of seint fram þar sem meira en þrír mánuðir liðu frá því að dóttir kæranda varð 18 ára þar til beiðnin var lögð fram hjá sýslumanni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. október 2021. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sýslumannsins á Norðurlandi eystra ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2021, bárust gögn málsins frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra en ekki var óskað eftir að koma að athugasemdum vegna kærunnar. Bréfið var sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. nóvember 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um að fá endurgreiddan 50% af útlögðum kostnaði vegna tannlækninga dóttur sinnar samkvæmt 20. gr. barnalaga þar sem annað foreldri sé fallið frá.

Þegar dóttir kæranda hafi byrjað í tannréttingum 18. október 2018 hafi hún verið 16 ára. Kærandi hafi þá fengið þær upplýsingar á tannlæknastofunni að hún gæti safnað saman og fengið endurgreitt samkvæmt reikningi þar sem þetta eigi að flokkast undir greiðsluþátttöku til 21 árs. Kærandi hafi ekki getað greitt þetta út í hönd og hafi samið um mánaðarlegar greiðslur. Hún hafi fengið reikning fyrir útlögðum kostnaði og hafi ætlað að nýta þá endurgreiðslu til að greiða afganginn af meðferð dóttur sinnar. Samkvæmt úrskurðinum hafi beiðni hennar um framlag verið synjað.

Við skoðun gagna málsins sjáist að ekki sé verið að rétta tennur heldur sé dóttir kæranda með „bulldogbit“ sem verið sé að laga sökum afstöðu kjálka og tanna. Barnsfaðir kæranda sé látinn og hún geti hreinlega ekki greitt þetta án þessarar endurgreiðslu.

III.  Sjónarmið Sýslumannsins á Norðurlandi eystra

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að Sýslumanninum á Norðurlandi eystra hafi þann 13. ágúst 2021 borist beiðni kæranda um að úrskurðað yrði um framlag á grundvelli 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. breytingalög nr. 127/2018. Nánar tiltekið hafi verið óskað eftir að úrskurðað yrði um kröfu að fjárhæð 99.045 kr. vegna tannréttinga dóttur kæranda sem sé helmingur af útlögðum kostnaði hennar. Einnig komi fram að tannréttingameðferð hafi byrjað árið 2018 og sé ekki lokið. Kærandi hafi einnig óskað eftir að greiddur yrði ferðakostnaður. Til stuðnings kröfunni hafi kærandi lagt fram greiðsluyfirlit, dags. 10. ágúst 2021, þar sem fram komi upplýsingar um greiðslur til tannlæknis og sjúrnal tannlæknis vegna tannréttinga, dags. 31. maí 2021.

Með lögum nr. 127/2018 hafi verið gerð sú breyting á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar að bætt hafi verið við grein 20. a. um „barnalífeyri vegna sérstakra útgjalda“. Samkvæmt greininni sé hægt að beina til sýslumanns beiðni um sérstakt framlag vegna barns sem misst hafi annað foreldri sitt og þá beri sýslumanni að úrskurða um kröfuna.

Faðir barnsins hafi látist [...]. Skilyrði fyrir rétti til framlags sé að barnalífeyrir sé greiddur með barninu og hafi sýslumaður aflað upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um að svo hafi verið þar til barnið varð 18 ára þann 13. september 2020. Barnið sé lögráða og sé ekki með lögheimili hjá kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. a. skuli beiðni um framlag send sýslumanni innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda, nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Litið sé svo á að sjónarmið sem beitt hafi verið við ákvarðanir sýslumanna á sérstöku framlagi samkvæmt 60. gr. barnalaga nr. 7/2006, eigi við um ákvarðanir samkvæmt 20. gr. a. í lögum um almannatryggingar eftir því sem við geti átt.

Um sé að ræða kröfu um framlag vegna tannréttinga. Viðurkennt sé að við meðferð mála samkvæmt 60. gr. barnalaga að eðlilegt kunni að vera að bíða með kröfu vegna samfelldrar meðferðar, svo sem tannréttinga, þar til meðferð sé lokið. Þegar um tannréttingar sé að ræða sé litið svo á að samfelldri meðferð ljúki þegar föst tæki séu fjarlægð af tönnum. Beiðni um framlag þurfi því að leggja fram áður en þrír mánuðir séu liðnir frá því tímamarki, eða í síðasta lagi innan þriggja mánaða frá því að barn varð 18 ára. Undir ákvæðið falli ekki útgjöld vegna ferðakostnaðar og því sé ekki lagaskilyrði til að taka þann kostnað til greina. Bent sé á að [Sjúkratryggingar Íslands] taki þátt í útgjöldum vegna ferðakostnaðar á grundvelli 30. gr. laga um sjúkratryggingar og sé hægt að beina kröfu um endurgreiðslu ferðakostnaðar til [Sjúkratrygginga Íslands].

Beiðni kæranda hafi verið lögð fram þann 13. ágúst 2021, eða um ellefu mánuðum eftir að dóttir kæranda varð lögráða. Beiðnin sé því of seint fram komin þar sem meira en þrír mánuðir hafi liðið frá því að hún varð 18 ára og þar til beiðnin hafi verið lögð fram hjá sýslumanni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sýslumannsins á Norðurlandi eystra frá 13. september 2021 um að hafna umsókn kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar.

Um sérstakt framlag er fjallað í 20. gr. a. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæðið hljóðar svo:

„Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið sérstakt framlag vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. 

Framlag skv. 1. mgr. er einungis heimilt að greiða vegna barna sem greiddur er barnalífeyrir með skv. 20. gr. og annað hvort foreldra er látið, barn ófeðrað eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.

Framlag skv. 1. mgr. verður aðeins ákveðið ef sýslumaður hefur úrskurðað um slíkt framlag samkvæmt beiðni sem honum skal send innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Um viðmiðunarfjárhæðir vegna krafna um sérstök framlög gilda sömu reglur og um úrskurði vegna sérstakra útgjalda skv. 60. gr. barnalaga.“

Í 1. mgr. 20. gr. laga um almanntryggingar segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, að öðrum ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga barns að barn sé yngra en 18 ára. Þá skal beiðni um framlag send sýslumanni innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda, nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu. Talið hefur verið eðlilegt að bíða með kröfu vegna tannréttinga þar til meðferð er lokið og að leggja þurfi fram beiðni þess efnis innan þriggja mánaða frá því tímamarki, sbr. athugasemdir við 60. gr. í frumvarpi til barnalaga nr. 76/2003. Þar sem ekki er heimilt að greiða framlag vegna tannréttinga með einstaklingi sem orðinn er 18 ára, sbr. 1. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að beiðni um framlag þurfi að leggja fram í síðasta lagi innan þriggja mánaða frá því að barn varð 18 ára.

Samkvæmt gögnum málsins barst Sýslumanninum á Norðurlandi eystra þann 13. ágúst 2021 beiðni kæranda um úrskurð um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar. Dóttir kæranda varð 18 ára þann X. september 2020. Liðu því 11 mánuðir frá því að dóttir kæranda var orðin lögráða þar til kærandi lagði fram beiðni um sérstakt framlag vegna tannréttinga til sýslumanns. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar hafi ekki verið lögð fram innan tilskilinna tímamarka samkvæmt 2. og 3. mgr. 20. gr. a. laga um almannatryggingar.

Að því virtu er ákvörðun Sýslumannsins á Norðurlandi eystra um að hafna beiðni kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinda dóttur hennar staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sýslumannsins á Norðurlandi eystra um að hafna beiðni A, um sérstakt framlag vegna tannréttinga dóttur hennar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta