Sameiginlegt lið Íslands og Svíþjóðar tók þátt í stærstu netvarnaræfingu heims
Tuttugu manna hópur íslenskra sérfræðinga sem tók þátt í nýafstaðinni netvarnaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Skjaldborg (e. Locked Shields), er kominn aftur til landsins. Um stærstu árlegu netvarnaræfingu heims er að ræða með þátttöku um 4.000 sérfræðingar frá 40 löndum. Íslenski hópurinn var hluti af sameiginlegu liði með Svíþjóð, nýjasta aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.
Í ár var ákveðið að gefa sérfræðingum úr íslenskum fjármálainnviðum tækifæri til að taka þátt í æfingunni og því var íslenski hópurinn skipaður sérfræðingum frá Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna, Arion banka, Íslandsbanka og Kviku banka auk sérfræðinga frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sérfræðingar varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og netöryggissveitar íslenskra stjórnvalda, CERT-IS, fóru fyrir hópnum.
„Til þess að mæta ógnum nútímans þarf heildstæða nálgun þar sem stjórnvöld, einkageirinn og samfélagið snúa bökum saman. Við erum því þakklát þeim stofnunum og einkafyrirtækjum sem gefa sér tíma til þess að taka þátt í varnaræfingum sem þessum. Við erum fámenn og ógnin ein sú augljósasta sem við okkur blasir þannig að gott samstarf er nauðsynlegt til að efla okkar netvarnir. Þá var afar ánægjulegt að fá tækifæri til að þétta varnarsamstarf okkar við Svíþjóð á þessu sviði,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Netvarnaræfingin Skjaldborg er skipulögð af Netvarnarsetri Atlantshafsbandalagsins í Tallinn, sem Ísland er aðili að. Æfingin er sett upp sem keppni, þar sem liðin vinna að því að hnekkja hörðum net- og tölvuárásum óvinveittra aðila. Á meðan æfingunni stóð vörðust liðin um 8.000 netárásum. Undirteymi íslensk-sænska liðsins sem sá um ytri varnir netöryggis (e. Network) var valið besta teymið á sínu sviði á æfingunni.
Þátttaka í æfingunni er mikilvægur liður í að styrkja netvarnir á Íslandi og er hluti af netaðgerðaáætlun stjórnvalda sem var samþykkt samhliða nýrri netöryggisstefnu fyrir Ísland 2022. Gott og náið samstarf hins opinbera og einkageirans gegnir lykilhlutverki við að efla borgaralegar netvarnir í síbreytilegu öryggislandslagi.