Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 12. desember 2022

Fundur fjármálastöðugleikaráðs 12. desember 2022

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hófst kl. 11:05

1. Þróun áhættu í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn hélt kynningu á helstu áhættuþáttum fjármálastöðugleika. Heimilin standa nokkuð vel og atvinnuleysi hefur lækkað umtalsvert á árinu. Einkaneysla hefur aukist undanfarin misseri en á sama tíma hefur vaxtabyrði heimila þyngst. Umræður mynduðust um einkaneyslu, þróun kaupmáttar og viðskiptajöfnuð. Seðlabankinn gerði grein fyrir þróun á fasteignamarkaðnum þar sem enn er töluverð velta og íbúðum til sölu hefur fjölgað. Vanskil heimila og fyrirtækja eru í sögulegu lágmarki.
Eiginfjárstaða bankanna er góð og lausafjárstaðan er umfram lágmarkskröfur Seðlabanka Íslands. Fjármögnunarkostnaður bankanna erlendis hefur hækkað hratt og endurfjármögnunaráhætta er til staðar. Rætt var um þróun á gjaldeyrismarkaði undanfarið, fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis. Seðlabankinn gerði grein fyrir raunávöxtun lífeyrissjóða síðastliðið ár og bar saman við þróun hennar yfir 30 ára tímabil. Fjallað var um helstu einkenni fjárfestinga lífeyrissjóðanna.
2. Innlend óháð smágreiðslulausn
Seðlabankinn upplýsti ráðið um að til stæði að leggja til við framtíðarvettvang innan Seðlabankans að settur yrði á fót vinnuhópur sem myndi starfa í 8-12 vikur sem hefði það að markmiði að skila tillögu um sameiginlega lausn sem nýtir millifærslur milli reikninga til smágreiðslumiðlunar, svokallað reikning í reikning fyrirkomulag (e. account to account).
3. Netöryggisæfing CERT-IS
Seðlabankinn kynnti stuttlega niðurstöður netöryggisæfingar CERT-IS sem haldin var í október sl. Þátttakendur í æfingunni voru viðskiptabankarnir, Seðlabankinn og RB og var markmiðið með henni að prófa áætlanir, samskipti, ferla og viðbrögð en ekki kerfin sem slík. Æfingin gaf tilefni til þess að gera úrbætur til að tryggja betri samhæfingu og atvikastjórnun.
4. Viðbrögð Seðlabanka Íslands við viðvörun ESRB frá í september 2022.
Seðlabankinn kynnti fyrir ráðinu bréf til bankanna sem hann sendi í kjölfar viðvörunar ESRB frá í september 2022 og vakti athygli á áhættu tengdri versnandi alþjóðlegum horfum og áhrifum þeirra á endurfjármögnunaráhættu. Seðlabankinn hvatti fjármálafyrirtæki í bréfinu til þess að taka tillit til þeirrar óvissu sem uppi væri við núverandi aðstæður þegar ákvarðanir væru teknar um útgreiðslu arðs og endurkaup á eigin hlutabréfum.
5. Stjórnarfrumvörp á þingmálaskrá er geta varðað fjármálastöðugleika
Rætt var um frumvarp til breytinga á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, þar sem helsta breytingin er rýmkun á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga erlendis. Jafnframt var rætt um frumvarp til breytinga á lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008.
6. Viðbúnaðaráætlun fjármála- og efnahagsráðuneytisins
Í ráðuneytinu stendur nú yfir vinna við viðbúnaðaráætlun sbr. 15. gr. almannavarnarlaga, nr. 82/2008 í samvinnu við Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Almannavarnardeild samræmir og leiðir vinnu við að kanna áfallaþol mikilvægra innviða og íslensks samfélags í samræmi við lög um almannavarnir. Fyrsta skref vinnunnar er að greina áhættu og áfallaþol þess hluta íslensks samfélags sem fellur undir starfssvið ráðuneytisins. Annað skref er gerð viðbragðsáætlunar sem fjallar m.a. um skipulagningu aðgerða, viðbúnað viðbragðsaðila o.fl. Fjármálastöðugleikaráð skal samhæfa viðbúnað opinberra aðila þegar fjármálastöðugleika er ógnað skv. lögum um ráðið. Á fundinum kom fram að til þess að tryggja bestu framkvæmd við gerð áhættumats og viðbúnaðaráætlunar ráðuneytisins væri nauðsynlegt að taka mið af mati og áætlunum stofnana sem fara með málefni á forræði ráðuneytisins. Rætt var um að ráðuneytið myndi kalla formlega eftir áhættumati og viðbúnaðaráætlunum Seðlabanka Íslands til frekari úrvinnslu í tengslum við áhættumat og viðbúnaðaráætlun ráðuneytisins sjálfs.
7. Önnur mál
Drög að fréttatilkynningu samþykkt með breytingum.
Fundi slitið kl. 12:30





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta