Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skýrsla Eurydice um viðurkenningu á óformlegu námi fyrir nám á háskólastigi

Mennta- og barnamálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið vekja athygli á nýrri skýrslu Eurydice um viðurkenningu á óformlegu námi fyrir nám á háskólastigi. Evrópuþjóðir fara ólíkar leiðir þegar kemur að því að meta fyrra nám nemenda á framhaldsskólastigi inn á háskólastig, sérstaklega þeirra sem farið hafa óhefðbundnar námsleiðir. Tilgangurinn er m.a. að auka möguleika ungs fólks á vinnumarkaði. Í skýrslunni er skoðað hvort og að hve miklu leyti Evrópuþjóðir viðurkenna og sannreyna nám sem aflað er með óformlegum hætti eða utan framhaldsskóla.

Að auki var það skoðað hvort og hvernig þátttökuþjóðirnar bjóða upp á óhefðbundnar námsleiðir til að uppfylla kröfur um háskólanám og hvernig þjóðirnar fara að því að staðfesta slíkt nám. Kannað var hvernig ólík þátttökuríki tryggja gæði óformlegs náms sem metið er til inntöku inn á næsta skólastig eftir lok náms á framhaldsskólastigi.

Rannsóknin tekur mið af stefnumótun þátttökuríkja. Skýrslan tekur til 37 menntakerfa í Evrópu og var viðmiðunartímabilið sem rýnt var skólaárið 2023/2024. Í um helmingi menntakerfa sem voru til skoðunar (18 af 37) geta nemendur án hefðbundins framhaldsskólanáms komist í nám á háskólastigi (first-cycle higher education) á grundvelli viðurkenningar á óformlegu námi. Það er fyrst og fremst í löndum V- og N-Evrópu sem nemendum stendur þetta til boða.

Í flestum þjóðum Evrópu er stúdentspróf, eða sambærileg prófgráða, skilyrði fyrir inntöku inn á háskólastigið. Flestar þeirra bjóða einnig upp á aðrar óhefðbundnari leiðir til þjálfunar eða undirbúnings náms inn á háskólastig. Hvort og hvernig Evrópuþjóðir leggja mat á fyrra nám og óhefðbundnar námsleiðir inn á háskólastig er hins vegar æði ólíkt milli ríkja. Oftast fer slíkt mat á fyrra námi fram innan mennta- og þjálfunarstofnana sem þá staðfestir hæfni sem aflað er. Hins vegar er mikilvægt að huga að því að nám á sér einnig stað utan mennta- og þjálfunarstofnana, til dæmis á vinnustöðum eða innan atvinnustarfsemi einstaklinga.

Úr rannsókn Eurydice


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum