Hoppa yfir valmynd
20. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 232 - Ofgreiddar bætur

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 27. júlí 2005 kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á árinu 2003.


Óskað er niðurfellingar kröfu um endurgreiðslu.


Málavextir eru þeir skv. málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 2. maí 2005 var kæranda tilkynnt að fyrirhugað væri að draga ofgreiðslu vegna ársins 2003 frá mánaðarlegum greiðslum til hans frá og með 1. júní 2005. Í bréfinu sagði m.a.:


„Þann 29. nóvember sl. sendi Tryggingastofnun yfirlit yfir endurreikning á réttindum til tekjutengdra bóta á árinu 2003. Endurreikningnum var mótmælt af B fyrir þína hönd og óskað skýringa/endurskoðunar á ofgreiðslu sem þar myndaðist. Sérstaklega var gerð athugasemd við meðferð útfararstyrks, greiðslna úr lífeyrissjóði og óþægindi sem sköpuðust vegna meints seinagangs Tryggingastofnunar og týndra gagna.


Við skoðun á máli þínu kom eftirfarandi í ljós:

Útfararstyrkur var ranglega talinn fram í tekjulið 96 á skattframtali og skerðir því bætur líkt og aðrar tekjur. Hið rétta hefði verið að telja greiðsluna fram annað hvort á skattframtali dánarbúsins eða sem styrk á eigin framtali og telja þá fram kostnað á móti honum. Með því móti hefði styrkurinn ekki skert bótagreiðslur.


Ef lífeyrissjóðstekjur tilheyra árinu 2002 má óska eftir upptöku skattframtala vegna áranna 2002 og 2003 og freista þess að fá tekjurnar skráðar á þau ár sem þær réttilega tilheyra


[...].


Með vísun til ofanritaðs stendur sá endurreikningur sem þér var sendur í nóvember sl. óbreyttur. Samkvæmt honum nemur ofgreiðsla til þín 128.738 kr., en að frádreginni staðgreiðslu er krafa Tryggingastofnunar 79.071 kr.“


Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Til B hefur leitað A, vegna kröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur honum vegna ofgreiðslu að upphæð 128.738 kr., 79.071 kr. að frádreginni staðgreiðslu. Krafan er til­komin vegna endurreiknings lífeyrisgreiðslna ársins 2003.

B andmælti kröfunni fyrir hans hönd við Tryggingastofnun ríkisins með skilagrein þann 10. desember 2004. Svör við þeim andmælum bárust með bréfi dagsettu 2. maí 2005 þar sem fram kom að krafan stæði óbreytt, að öðru leyti en því að búið var að reikna frá staðgreiðslu skatta.

A hefur fengið örorkubætur frá því árið 1997 og fékk alltaf jafnar mánaðar­greiðslur frá lífeyrissjóðum sínum og Tryggingastofnun þar til síðari hluta árs 2002, að öðru leyti en því að þær hafa fylgt almennum breytingum. Þá féllu bótagreiðslur til A niður vegna handvammar Tryggingastofnunar, gagna sem týndust þar og vegna þess að ekki var gengið í mál hans í tæka tíð. Það varð til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur hans féllu sömu­leiðis niður fyrir nóvember og desember 2002. Leiðrétting vegna þessa var gerð með greiðsl­um fyrir janúar 2003.

Óskað hefur verið eftir athugun á upptöku skattframtals A 2004 fyrir tekjuárið 2003 vegna útfararstyrks sem hefði verið hægt að telja fram sem styrk, en ekki í tekjulið, og vegna ofangreindra lífeyrissjóðsgreiðslna, en ekki hefur enn borist svar frá Ríkisskattstjóra.

A var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Breytingar þær sem urðu á lífeyrissjóðs­tekjum hans stöfuðu af mistökum Tryggingastofnunar, en eru annars jafnar og hafa verið það í mörg ár, eins og áður segir. Af þeim sökum er farið fram á að krafa vegna þessa verði felld niður og leiðrétt. Á þann háttinn yrði komið í veg fyrir að hann verði fyrir enn meiri óþægind­um vegna þessara mistaka stofnunarinnar en nú er orðið, en þetta hafði margvísleg áhrif í för með sér fyrir hann, m.a. endurreikning og kröfu vegna fasteignagjalda Reykjavíkurborgar.

Að öðru leyti vísast um rök, eftir því sem við á, í hina almennu samantekt sem send var Úrskurðarnefnd almannatrygginga og dagsett er 30. maí 2005.“


Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar með bréfi dags. 2. ágúst 2005. Greinargerðin er dags. 12. ágúst 2005. Þar segir:


„B kærir endurkröfu ofgreiddra bóta til A en krafan myndaðist við endurreikning tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2003.


Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. 2. mgr. mælir fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Komi í ljós að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem uppá vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. atl.


Í kærubréfi er því haldið fram að ofgreiðslan stafi af meintum mistökum Tryggingastofnunar. Það verður hins vegar ekki betur séð en að ástæða kröfunnar á hendur A sé sú að við endurreikning bóta ársins 2003 komu til skerðingar tekjur sem hann fékk greiddar frá lífeyrissjóði sínum, sem ekki var gert ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu.


Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. atl. er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar sem verða á tekjum hans á yfirstandandi tekjuári. Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra.


Í þessu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.


Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2003 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynninga. A hefði því auðveldlega getað greint það að Tryggingastofnun hafði ekki réttar tekju­upplýsingar við útreikning greiðslna hans. Ekki liggur fyrir að hann hafi gert neinar ráðstafanir til að koma umræddum tekjuupplýsingum á framfæri.


Samkvæmt kærubréfi mun A hugsanlega óska eftir endurupptöku skattframtals síns fyrir árið 2003 vegna útfararstyrks sem var ranglega talinn fram í tekjulið 96 á skattframtali. Verði sú beiðni samþykkt, og komi fram ósk um endurreikning bótaréttar viðkomandi árs hjá Tryggingastofnun mun stofnunin að sjálfsögðu verða við henni.


Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til A.“


Greinargerðin var send B til kynningar með bréfi dags. 16. ágúst 2005 og var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Slíkt barst ekki. Úrskurðarnefndin óskaði eftir nánari skýringum B á þeirri staðhæfingu í kæru að greiðslur til kæranda frá lífeyrissjóði hefðu fallið niður vegna mistaka Tryggingastofnunar. Af hálfu kæranda er bent á að örorkumat hans fyrir Lífeyrissjóð C hafi ekki verið gert fyrr en í lok desember 2002 en örorkumat Tryggingastofnunar sé dags. 4. október 2002. Kærandi hafi margoft beðið um að mat yrði sent til lífeyrissjóðsins en það hafi dregist. Úrskurðarnefndin beindi almennri fyrirspurn til Tryggingastofnunar um þá fullyrðingu í nokkrum greinargerðum stofnunarinnar að í apríl 2003 hafi verið byrjað að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhliðar greiðsluseðla. Var óskað eftir upplýsingum um hvort ártal væri rétt tilgreint eða hvort verið gæti að þetta hefði ekki verið gert fyrr en í apríl 2004. Í svari stofnunarinnar kom fram að það hefði verið í apríl 2004 og var beðist velvirðingar á röngu ártali í greinargerðum þar sem framangreindu var haldið fram.


Kæranda og Tryggingastofnun eru kunn öll gögn málsins.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar á hendur kæranda vegna ofgreiðslu bóta ársins 2003.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir að kærandi hafi fengið örorkubætur frá því árið 1997 og hafi alltaf fengið jafnar greiðslur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun þar til síðari hluta árs 2002 að öðru leyti en því að þær hafi fylgt almennum breytingum. Þá hafi bótagreiðslur til kæranda fallið niður vegna mistaka Tryggingastofnunar, gagna sem týnst hafi þar og vegna þess að ekki hafi verið gengið í mál hans í tæka tíð. Það hafi svo orðið til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur til hans hafi fallið niður fyrir nóvember og desember 2002. Leiðrétting vegna þessa hafi verið gerð með greiðslum fyrir janúar 2003. Fram kemur að óskað hafi verið eftir upptöku skattframtals kæranda 2004 vegna tekjuársins 2003 þar sem útfararstyrkur hafi þar verið talinn sem tekjuliður en ekki styrkur eins og hægt hefði verið að gera og einnig vegna lífeyrissjóðstekna.


Í greinargerð Tryggingastofnunar er því hafnað að mistök hafi valdið því að ofgreitt hafi verið. Það verði ekki betur séð en að ástæða kröfunnar á hendur kæranda sé að við endurreikning bóta ársins 2003 hafi komið til skerðingar tekjur sem hann hafi fengið frá lífeyrissjóði sem ekki hafi verið gert ráð fyrir við samtímaútreikning og greiðslu bóta á árinu.


Úrskurðarnefnd almannatrygginga horfir til þess almennt í málum sem varða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta, að skýr og fortakslaus ákvæði eru í 4. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga um útreikning bóta lífeyristrygginga. Þannig liggur fyrir að um tekjutengdar bætur er að ræða sem eru áætlaðar á grundvelli nýjustu upplýsinga skv. 2. mgr. 47. gr. laganna og vega þar þyngst upplýsingar frá bótaþega sjálfum. Síðar þegar endanlegar upplýsingar liggja fyrir um tekjur bótagreiðsluársins við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum fer fram endurreikningur. Hafi greiðslur verið ofgreiddar skal bótaþegi endurgreiða það sem ofgreitt hefur verið, skv. 50. gr. almannatryggingalaga. Loks liggur almennt fyrir í málum sem varða lífeyri, að umsækjandi hefur undirritað sérstaka yfirlýsingu þar sem hann skuldbindur sig til að tilkynna Tryggingastofnun sérstaklega ef breytingar verða á högum hans t.d. að því er varðar tekjur.


Það er grundvallarregla að bótaþegi fái þær bætur sem honum ber en fái hann meira skal hann í samræmi við meginreglu kröfuréttarins endurgreiða það sem ofgreitt er. Verið getur að atvik í einstökum málum séu svo sérstök að endurkröfuréttur hafi ekki stofnast eða falli niður. Getur þetta átt við ef endurkrafan er óeðlileg miðað við aðstæður allar og huglæga afstöðu bótaþegans til móttöku greiðslunnar. Að endurkröfuréttur ofgreiddra bóta falli niður er undantekning frá skýrum og fortakslausum ákvæðum almannatryggingalaga og meginreglu kröfuréttarins sem skýra ber þröngt skv. almennum lögskýringarreglum.


Loks liggja að mati nefndarinnar málefnaleg sjónarmið að baki endurgreiðslu ofgreiddra bóta enda brýnt að allir séu jafnir fyrir lögunum og fái bætur í samræmi við lögbundinn rétt sinn.


Við mat á endurkröfu verður einnig að líta til þess að bætur almannatrygginga eru félagslegs eðlis og lúta að því að tryggja ákveðnar lágmarksbætur sem löggjafinn hefur ákveðið að greiddar skuli að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ennfremur að opinberri stofnun, Tryggingastofnun ríkisins, er falið að lögum að tryggja að bótaréttur nái fram að ganga í samræmi við lög. Eðli málsins samkvæmt ber að gera ríkar kröfur til stjórnvalds við gæslu þeirra hagsmuna sem lögin kveða á um.


Skoða verður hvert mál sérstaklega og meta rétt til endurkröfu í ljósi atvika hverju sinni. Það mál sem hér er til úrlausnar lýtur að endurreikningi bóta ársins 2003. Úrskurðarnefndin fór fram á frekari útskýringar kæranda á meintum mistökum Tryggingastofnunar vegna bótagreiðslna og áhrifa þeirra á lífeyrissjóðsgreiðslur. Nefndin aflaði yfirlits frá Tryggingastofnun um greiðslur til kæranda á árinu 2002 og var þar ekki annað að sjá en að kærandi hefði fengið greiðslur frá stofnuninni til ársloka 2002. Kom fram í skýringum B f.h. kæranda að reyndar hefði ekki verið um að ræða að bótagreiðslur til hans hefðu fallið niður eins og haldið hefði verið fram í kæru. Hins vegar hefði dráttur á örorkumati Tryggingastofnunar fyrir lífeyrissjóð kæranda valdið því að kærandi hefði ekki fengið greiðslur í lok ársins 2002 frá lífeyrissjóði en það hefði verið leiðrétt í janúar 2003 þegar örorkumat hafi loksins borist lífeyrissjóðnum. Hvað varðar þennan þátt fellst úrskurðarnefndin ekki á að það eigi að hafa áhrif á réttarstöðu kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins varðandi bætur almannatrygginga skv. lögum nr. 117/1993 og eftir atvikum lögum um félagslega aðstoð nr. 118/1993, þó dráttur hafi orðið á gerð umrædds örorkumats af hálfu Tryggingastofnunar. Slíkt örorkumat er ekki framkvæmt á grundvelli fyrirmæla í umræddum lögum heldur byggir það á frjálsum samningi á milli stofnunarinnar og lífeyrissjóðsins, sem er óviðkomandi bótarétti og endurkröfureglum almanna­trygginga­laga. Endurkrafa er staðfest að því er þetta varðar.


Hvað varðar hærri tekjur á skattframtali 2004 vegna tekjuársins 2003 en gert var ráð fyrir við samtímaútreikning, þ.e. vegna útfararstyrks, hefur komið fram af hálfu Tryggingastofnunar að ef samþykkt verði að taka framtal kæranda upp muni stofnunin endurreikna bætur ársins 2003, komi fram ósk um það frá kæranda. Ekki er um að ræða að hægt sé að líta framhjá skráningu tekna á skattframtali og ræður því úrslitum hvort skattyfirvöld fallast á að breyta skráningu útfararstyrks á framtali.


Samkvæmt 10. gr. almannatryggingalaga skal fara fram endurreikningur á bótafjárhæðum þegar endanlegar tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við endurreikning bóta kom í ljós að tekjur kæranda voru hærri á árinu 2003 en gert hafði verið ráð fyrir við samtímaútreikning bóta. Lífeyrissjóðstekjur voru hærri en gert var ráð fyrir en einnig taldist útfararstyrkur sem kærandi hafði fengið á árinu 2003 til tekna skv. skattframtali. Að mati úrskurðarnefndar verður að staðfesta endurkröfu ofgreiddra bóta eins og málið liggur fyrir en ljóst er að ef samþykkt yrði upptaka skattframtals og endurreikningur færi fram hjá Tryggingastofnun í kjölfarið yrði niðurstaða önnur.


Með vísan til alls framangreinds ber kæranda að endurgreiða ofgreiddar bætur að fjárhæð kr. 79.071 í samræmi við 2. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga.


Ú R S K UR Ð A R O R Ð:


Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu að fjárhæð kr. 79.071 á hendur A, vegna ofgreiddra bóta ársins 2003 er staðfest.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta