Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 314 - Ofgreiddar bætur

A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins



Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


A, kærir til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar og endurkröfu ofgreiddrar heimilisuppbótar á tímabilinu frá 1. janúar 2004 til 31. júlí 2005. Kæran er móttekin 30. október 2005.


Óskað er endurskoðunar á ákvörðun um niðurfellingu heimilisuppbótar og greiðslna aftur í tímann, frá 1. ágúst 2005. Einnig er farið fram á niðurfellingu á endurkröfu vegna ofgreiddrar heimilisuppbótar á tímabilinu frá 1. janúar 2004 til 31. júlí 2005.


Málavextir eru þeir að kærandi hafði fengið greidda heimilisuppbót en með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda dags. 7. júlí 2005 var honum tilkynnt að fyrirhugað væri að stöðva greiðslur til hans frá og með 1. ágúst 2005 og jafnframt krefja hann um ofgreidda heimilisuppbót tvö ár aftur í tímann. Ástæða stöðvunar greiðslna og endurkröfu er sögð sú að kærandi sé skráður eigandi helmingshlutar í íbúð að B á móti C og þau hafi verið búsett þar saman síðan 1. júlí 1999. Hann sé ekki einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Því uppfylli hann ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar, sbr. 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 17. október 2005 var kæranda tilkynnt að hafinn yrði frádráttur frá greiðslum til hans frá og með 1. nóvember 2005 þar sem hann hefði ekki andmælt fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar.

Í kæru segir m.a.:


„Niðurfelling heimilis uppbótar og endurgreiðslu þeirra, frá 1. janúar 2004 til 31. júlí 2005. 12.500- kr á mánuði frá og með 1. Nóvember 2005 einnig mótmæli ég niðurfellingu ofangreindra bóta frá 31. júlí 2005.“


Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar með bréfi dags. 21. október 2005. Greinargerðin er dags. 31. október 2005. Þar segir m.a.:


„Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar til kæranda og endurkrafa ofgreiddrar heimilisuppbótar á tímabilinu 1. janúar 2004 til 31. júlí 2005.


Með kærunni fylgdu bréf Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 7. júlí og 17. október s.l., auk þess sem kærandi lét fylgja með afrit af húsaleigusamningi, dags. 30. nóvember 1997. Í húsaleigusamningnum er kærandi skráður leigjandi að D, og er leigusali C. Um tímabundinn leigusamning er að ræða, frá 1. desember 1997 til 31. desember 2000.


Í breytingaskrá þjóðskrár kemur fram að kærandi flutti að D þann 1. janúar 1992. C var skráður eigandi að íbúðinni að D og hafði hún búið þar frá 10. febrúar 1991, samkvæmt upplýsingum þjóðskrár. Kærandi var skráður til heimilis að D allt fram til ársins 1999, en á því ári keypti hann íbúð að B, ásamt C. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins er skráður eignarhlutur hvors um sig 50% og hafa þau búið saman í íbúðinni allt frá byrjun júlí árið 1999. Ekki verður hins vegar séð að kærandi hafi tilkynnt Tryggingastofnun um þessa breytingu á högum sínum, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum.


Í 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, er til staðar heimild til greiðslu heimilisuppbótar, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að greiða einhleypingi heimilisuppbót, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslega hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Nánar er svo fjallað um skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar í reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Tekið er fram í 1. tl. 5. gr. reglugerðarinnar að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem nýtur fjárhagslegs hagræðis, vegna sambýlis við aðra óskylda aðila, skyldmenni eða venslafólk.


Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, hjálögðum gögnum og þeim skilyrðum , sem framangreind laga- og reglugerðarákvæði setja svo til greiðslu heimilisuppbótar geti komið, telur Tryggingastofnun að ekki sé heimilt að halda áfram að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem hann uppfylli ekki nauðsynleg skilyrði þar að lútandi. Þá telur Tryggingastofnun að kæranda hafi verið ofgreidd heimilisuppbót allt frá júlí 1999 þar sem hann hefur frá þeim tíma búið ásamt C að B, sem 50% eigandi íbúðarinnar. Frá þeim tíma verður ekki séð að kærandi hafi uppfyllt það skilyrði að teljast einhleypingur sem ekki njóti fjárhagslegs hagræðis vegna sambýlis við aðra. Þá telst afrit þess húsaleigusamnings sem fylgdi kærunni hafa takmarkaða þýðingu í málinu eftir að kærandi, ásamt C, festi kaup á öðru húsnæði. Samkvæmt því sem að framan er rakið telur Tryggingastofnun sér skylt að endurkrefja kæranda um ofgreidda heimilisuppbót aftur í tímann, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 50. gr. almanna­tryggingalaga.“


Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 3. nóvember 2005 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum. Athugasemdir kæranda bárust 18. nóvember 2005. Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar í tilefni af athugasemdum kæranda barst 22. nóvember 2005.


Kæranda og Tryggingastofnun ríkisins eru kunn öll gögn málsins.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um niðurfellingu heimilisuppbótar frá og með 1. ágúst 2005 og endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar á tímabilinu frá 1. janúar 2004 til 31. júlí 2005.


Í kæru er ákvörðun Tryggingastofnunar mótmælt. Í athugasemdum kæranda í tilefni af greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi sé hvorki giftur né í óvígðri sambúð með C sem eigi helmingshlut á móti honum í íbúð að B.


Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi sé samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins eigandi 50% hlutar í íbúð að B á móti C. Þau hafi búið að B allt frá byrjun júlí árið 1999. Þar sem kærandi njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað sé skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð ekki uppfyllt. Einnig kemur fram að stofnunin telji sér skylt samkvæmt 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar að krefja kæranda um ofgreidda heimilisuppbót.


Verður fyrst fjallað um þann hluta kæru er lýtur að niðurfellingu heimilisuppbótar.


Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð segir:


„ Heimilt er að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðis­aðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót.“


Í reglugerð nr. 595/1997, með síðari breytingum, er að finna nánari útfærslu á lagaákvæðinu. Í 1. og 2. tölul. 5. gr. reglugerðarinnar segir:


„Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

  1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis, vegna sambýlis við aðra óskylda aðila, skyldmenni eða venslafólk.

  2. Ef umsækjandi hefur sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka eða ríkis og bæja.“


Skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar er samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum að um einhleyping sé að ræða sem sé einn um heimilisrekstur og njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Skiptir þar engu máli hvort um er að ræða systkini, vini eða aðra sem búa saman. Ef tveir eða fleiri einstaklingar deila húsnæði er alltaf ákveðið hagræði af því að nota t.d. eldunaraðstöðu saman. Vissulega getur sambýli tveggja eða fleiri einstaklinga haft mismikið hagræði í för með sér en ljóst er að með því einu að deila húsnæði með öðrum einstaklingi/einstaklingum er um fjárhagslegt hagræði að ræða.


Samkvæmt framangreindum ákvæðum um heimilisuppbót skal hún eingöngu greidd til einhleypings sem ekki nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Kærandi keypti árið 1999 50% hlut í íbúð að B á móti C og hafa þau búið þar frá 1. júlí 1999. Kærandi heldur því fram að hann sé leigjandi hjá C í íbúð hennar að B. Staðreynd málsins er sú að kærandi keypti þessa íbúð með C og þau því bæði eigendur. Kærandi getur ekki verið leigjandi hjá sjálfum sér en nýtur hins vegar hagræðis af því að eiga húsnæði í sameign og vera í sambýli með öðrum. Kærandi er ekki einhleypingur í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 118/1993 og á því ekki rétt til heimilisuppbótar. Ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar er því staðfest.


Verður þá fjallað um þann hluta kæru er lýtur að endurgreiðslu ofgreiddra bóta.


Í 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar er kveðið á um endurkröfurétt Tryggingastofnunar hafi hún ofgreitt bætur. Samkvæmt því ákvæði laganna skal draga ofgreiddar tekjutengdar bætur frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlast síðar rétt til. Skilyrði þess er að tekjur á ársgrundvelli séu hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt um tekjuaukningu. Það á ekki við í þessu máli.


Eins og fram kemur í 2. málsl. 50. gr. laganna á Tryggingastofnun einnig endu­r­kröfurétt samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Meginregla kröfuréttar er að sá sem greitt hefur umfram skyldu á rétt til endurgreiðslu ofgreidds fjár. Um undantekningar frá þeirri meginreglu getur þó verið að ræða í sérstökum tilvikum.


Að mati úrskurðarnefndar skiptir huglæg afstaða bótaþega máli þegar ákvörðun er tekin um endurkröfu. Vafalaust er, að hafi bótaþegi tekið við bótagreiðslum vitandi að skilyrði fyrir greiðslu samkvæmt almannatryggingalögum væru ekki fyrir hendi eða fallin niður, er endurkröfuréttur Tryggingastofnunar ótvíræður. Á hinn bóginn getur endurkrafa orkað tvímælis ef greiðslur umfram skyldu eru inntar af hendi vegna mistaka stofnunarinnar sjálfrar.


Þegar kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn dags. 1. desember 1999 var hann skráður með lögheimili að B og það heimilisfang gaf hann upp á umsókn. Ljóst er að kærandi uppfyllti þá ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar en hún var úrskurðuð honum frá 1. desember 1999. Tekið skal fram að í umsókn dags. 1. desember 1999 skráir kærandi ekki í neinn þeirra reita sem fylla skal út eftir því sem við á vegna umsóknar um heimilisuppbót. Þrátt fyrir að kærandi hafi t.d. ekki merkt við reiti þess efnis að hann byggi einn í eigin húsnæði, einn í hluta eigin íbúðar eða einn í leiguhúsnæði var honum engu að síður greidd heimilisuppbót frá 1. desember 1999. Verður ekki annað séð en að um mistök hafi verið að ræða af hálfu Tryggingastofnunar að greiða kæranda heimilisuppbót frá þeim tíma og telur úrskurðarnefndin rétt að falla frá endurkröfu af þeirri ástæðu.


Rétt er að geta þess að í athugasemdum kæranda dags. 17. nóvember kemur m.a. fram að hann afturkalli leyfi sem hann hefur gefið Tryggingastofnun ríkisins til upplýsingaöflunar hjá skattyfirvöldum um tekjur. Slíkt á ekki undir úrskurðarnefnd almannatrygginga heldur verður kærandi að beina slíku erindi beint til Tryggingastofnunar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. október 2005 um stöðvun greiðslna heimilisuppbótar frá og með 1. ágúst 2005 til A, er staðfest. Rétti Tryggingastofnunar til endurkröfu vegna ofgreiddrar heimilisuppbótar á tímabilinu frá 1. janúar 2004 til 31. júlí 2005 er hafnað.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta