Ræddu ýmsar hliðar á sjálfbærum samgöngum
Öflugasta leiðin til að draga úr megnandi útblæstri frá bílum á Íslandi er að auka hlut dísilbíla; yfir 50% ferða fólks í Reykjavík til og frá vinnu eru styttri en 2 km; gera þarf ráð fyrir reiðhjólum í umferðinni og hætta að miða allt skipulag við bíla.
Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnu á Akureyri í gær um sjálfbærar samgöngur. Að henni stóðu félög arkitekta, tæknifræðinga og verkfræðinga og voru skipulagsmál, ferðavenjur og orkumál meðal umræðuefna. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra setti ráðstefnuna og fór meðal annars yfir nokkur markmið samgönguáætlunar sem leggja á fram á Alþingi í vikunni. Helstu markmið hennar eru greiðari samgöngur, hagkvæm uppbygging og rekstur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur, öryggi og jákvæð byggðaþróun. Þá kom fram í máli samgönguráðherra að umhverfisskýrsla fylgir nú samgönguáætlun í fyrsta sinn og er Ísland meðal fyrstu landa í Evrópu til að hrinda í framkvæmd slíku mati á landsvísu.
Sigurður Friðleifsson frá Orkusetri ræddi orkunotkun í samgöngum en hlutverk Orkuseturs er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Sigurður benti á að útblástur koltvísýrings frá samgöngum færi mjög vaxandi á Íslandi og að olíunotkun í samgöngum á íbúa hefði vaxið mjög hratt síðustu tvö árin. Hann sagði það helst til ráða að draga úr notkun og stefna að notkun innlends eldsneytis, rafmagns eða vetnis, metans eða lífdísil.
Á vef Orkuseturs, orkusetur.is, er að finna reiknivélar þar sem finna má ýmsar tölur um eyðslu og útblástur bíla og hvaða máli atriði eins og vélategund og gírskipting skipta máli. Sagði Sigurður að minnka mætti útblástur með því einu að nota dísilbíla í stað bensínbíla. Tók hann sem dæmi að í fyrra hefðu selst 610 Toyota Rav4 jepplingar og af þeim flota hefði einungis 21 verið með dísilvél. Hefði hlutfallið verið öfugt hefði mátt minnka útblástur koltvísýrings um 5.226 tonn á líftíma bílanna sem hann reiknaði 9 ár. Sigurður sagði afar auðvelt að binda gjöld á bíla við útblástursgildi og sagði brýnt að gera það strax. Fagnaði hann þeim áformum að skattlagning eignarhalds og notkunar bíla yrði með þeim hætti að neyslugrannir bílar og tvinnbílar verði fýsilegri kostur.